Afstaða til Kambódíu
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að benda hv. fyrirspyrjanda á þá staðreynd að það er borgarastyrjöld í þessu landi. Og það er uppi viðleitni af hálfu hlutlausra grannríkja og mikils meiri hluta Sameinuðu þjóðanna til að tryggja það að ekki komi til þess að rauðir khmerar nái völdum með ofbeldi í þessari borgarastyrjöld. Menn óttuðust það að ef snúið yrði baki á seinustu stundu við þessum tillöguflutningi, þá yrði sú ein niðurstaðan. Með þessu eru menn að lýsa því yfir að það sé á ábyrgð meiri hluta hinna Sameinuðu þjóða að fylgja málinu eftir þannig að til þess komi aldrei.