Olíuleki frá birgðastöð á Bolafjalli
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Spurt er um viðbrögð utanrrh. vegna þessa máls og ég vil taka skýrt fram eftirfarandi strax:
    Yfirmenn varnarliðsins hafa verið kvaddir á fund utanrrn. þar sem framferði undirmanna þeirra var harðlega mótmælt. Þess var krafist að tryggilega verði frá því gengið að slíkt framferði geti ekki endurtekið sig. Jafnframt hefur yfirmönnum varnarliðsins verið gerð grein fyrir því að íslensk stjórnvöld geri varnarliðið ábyrgt fyrir öllum hugsanlegum skaða sem af þessu geti hlotist.
    Ég tek það fram, virðulegi forseti, að ég lít þetta mál mjög alvarlegum augum. Þess vegna hef ég dreift hér á borð þingmanna --- en því miður vegna mistaka hefur það ekki verið merkt utanrrn. --- greinargerð þar sem atburðarás er rakin rækilega, þar sem gerð er grein fyrir olíukerfinu tæknilega séð og þar sem gerð er grein fyrir olíulekanum og magntölur birtar eins og þær hafa verið staðfestar af opinberum aðilum.
    Því til viðbótar vil ég taka fram eftirfarandi: Ratsjárstöðvarnar á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli eru í byggingu og er ábyrgð á þeim formlega á hendi varnarliðsins þar til afhending til Ratsjárstofnunar fer fram sem ráðgert er haustið 1990. Samskiptareglur gera því ráð fyrir því að náið samstarf sé við varnarmálaskrifstofu utanrrn. meðan á framkvæmdum stendur og það eru ekki fyrr dæmi þess að þessar samskiptareglur hafi verið brotnar.
    Flutningur á olíu í geyma ratsjárstöðvanna var aldrei tilkynntur varnarmálaskrifstofu. Það er ljóst að leyfi til þessa flutnings hefði ekki verið veitt ef ráðuneytið hefði haft vitneskju um þá. Starfsmenn Ratsjárstofnunar höfðu varað starfsmenn framkvæmdadeildar varnarliðsins við áformum um slíka flutninga og bent á að olíukerfið hefði ekki verið tekið út. Þrátt fyrir það tóku starfsmenn framkvæmdadeildar varnarliðsins þá ákvörðun í byrjun nóvember að fylla olíugeyma ratsjárstöðvanna á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli og höfðu beint samband við íslensk olíufélög til að vinna það verk. Hinn 3. nóv. voru 36.000 gallon flutt í stöðina á Bolafjalli, sama magn í stöðina á Gunnólfsvíkurfjalli án samráðs og án vitundar varnarmálaskrifstofu. Starfsmenn á vegum varnarliðsins veittu aðgang að ratsjárstöðvunum, en að öðru leyti var ekkert eftirlit haft með áfyllingu eða fylgst með kerfinu innan húss. Það var fyrst 11 dögum síðar, hinn 14. nóv., sem varnarmálaskrifstofu var skýrt frá því að geymarnir hefðu verið fylltir og leki átt sér stað.
    Staða málsins núna er þessi: Í fyrsta lagi hefur öll olía verið hreinsuð upp í stöðvarhúsinu á Bolafjalli. Tryggilega hefur verið gengið frá lokun á olíugeymi og gengið hefur verið úr skugga um frágang á olíugeymi í stöðinni á Gunnólfsvíkurfjalli. Vettvangsathugun er í gangi á því hvort einhver olía hafi fokið inn á yfirborð fjallsins og verður allur olíumengaður snjór sem hugsanlega er til staðar fjarlægður.

    Varnarliðinu hefur verið tilkynnt að þrátt fyrir að Ratsjárstofnun taki ekki við rekstri stöðvanna fyrr en síðla næsta árs í fyrsta lagi muni stofnunin fyrir hönd utanrrn. nú þegar taka að sér eftirlit með allri starfsemi hverju nafni sem nefnist sem þar fer fram. Enginn aðgangur af nokkru tagi verður leyfður að ratsjárstöðvunum nema undir eftirliti Ratsjárstofnunar. Sama gildir um allar prófanir á búnaði og aðstöðu. Jafnframt hefur Ratsjárstofnun verið falið að taka að sér reglubundið eftirlit með stöðvunum nú þegar og þess hefur verið krafist að varnarliðið komi upp fjareftirlitsbúnaði þannig að fylgjast megi stöðugt með stöðvunum.
    Heilbrigðiseftirlit á varnarsvæðum og Siglingamálastofnun vinna nú sameiginlega að úttekt og hönnun á smíði olíugeyma og olíukerfa ratsjárstöðvanna. Starfræksla þessara kerfa verður ekki heimiluð nema í samráði við þessar stofnanir. Að höfðu samráði við þær og siglingamálastjóra hefur ráðuneytið ákveðið að tæma ekki geymana, enda er það óvarlegt á þessum árstíma.