Olíuleki frá birgðastöð á Bolafjalli
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Ég sé nú eftir að ég er búinn að heyra í félaga mínum, hv. 1. þm. Vestf., að ég hef ekki miklu við að bæta. En ég vil þakka frummælanda fyrir að hafa komið með þetta mál hér inn á þingið. Það var full ástæða til þess. Og ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá greinargóðu skýrslu sem hann hefur útbýtt hér og fram kom í máli hans.
    Ég ætla ekki að fara að rekja hér atburðarásina eða það sem skeði. Ég vil aðeins segja það að mér finnst að það sé með eindæmum og raunar óskiljanlegt hvernig það má vera að önnur eins mistök og þarna hafa gerst skuli hafa átt sér stað. Og ég tek undir það sem hæstv. samgrh. sagði um það að láta fara fram sem ítarlegasta rannsókn á þessu máli.
    Það er ákaflega alvarlegt mál ef það getur verið nokkur hætta á mengun í vatnsbólum Bolvíkinga út af slíku atviki sem þessu. Það er alvarlegt fyrir þessa elstu verstöð landsins, þessa verstöð sem í dag er ein af stærstu fiskverkunarstöðvum landsins. Það sem er núna mest um vert er þess vegna að láta einskis ófreistað til þess að gera ráðstafanir til þess að þetta geti ekki hent aftur. Og það er ekki nægilegt í þessu efni að gera einhverjar ráðstafanir sem minnka líkur fyrir því að það geti hlotist mengun í vatnsbólum Bolvíkinga út af slíkum atburðum sem þessum. Það dugar ekki minna heldur en ráðstafanir sem útiloka að slíkt geti átt sér stað. Við skulum láta þetta víti verða okkur til varnaðar.