Olíuleki frá birgðastöð á Bolafjalli
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Aðeins til þess að undirstrika hversu alvarlegum augum ég lít það slys sem hér hefur orðið hafi það ekki komið nægilega skýrt fram í máli mínu undir lokin áðan í tímaleysi.
    Hér er í fyrsta lagi um það að ræða að allar reglur við undirbúning og framkvæmdir þessara mannvirkja hafa verið þverbrotnar. Þar er um að ræða vítaverða vanrækslu og ólíðandi vanrækslu, bæði framkvæmdaraðilans sjálfs, varnarliðsins, en líka þeirra verktaka sem að verkinu unnu og ber ótvíræð skylda til samráðs við Siglingamálastofnun samkvæmt lögum og reglugerðum.
    Í öðru lagi er hér vítaverð vanræksla á ferð þar sem margir sólarhringar líða frá því að uppvíst verður um óhappið og þangað til skilaboðum um það er komið í hendur réttra aðila eins og Siglingamálastofnunar.
    Í þriðja lagi er hér um enn fráleitari framgöngu þessara aðila að ræða þar sem öllum mátti ljóst vera, og var í raun frá upphafi þessara framkvæmda, að þær voru unnar við sérstaklega viðkvæmar aðstæður þar sem þannig háttar til, bæði á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli, að vatnsból nálægra byggðarlaga á upptök sín og safnsvæði sitt utan í fjallshlíðum viðkomandi fjalla. Það er þess vegna með öllu óskiljanlegt hvernig menn gátu gengið svona fram.
    Og að lokum undirstrika ég það að það eru engin færi á öðru en hér fari fram opinber rannsókn á vanrækslu þessara aðila og ég mun sjá svo um að það verði. Ég lít svo á að bréf mitt til siglingamálastjóra feli það í sér að honum sé í framhaldinu skylt að beita öllum tiltækum ráðum sem stofnunin hefur á hendi sinni til að hlutast til um slíkt. Og þó sem betur fer séu ekki mörg fordæmi af þessu tagi fyrir hendi, þá liggur ljóst fyrir samkvæmt refsilagaákvæðum laganna um varnir gegn mengun sjávar, að siglingamálastjóri mun setja sig í samband við ríkissaksóknara sem í framhaldinu mun væntanlega fela rannsóknarlögreglu ríkisins að rannsaka þetta mál og rannsaka það til hlítar og þá munu öll kurl koma til grafar, enda óhjákvæmilegt að svo verði.