Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Hæstv. utanrrh. vék í upphafi máls síns að þeim tíðindum sem hingað bárust fyrr í dag um það að Sovétmenn hefðu nú staðfest síldarsölusamningana. Það er sannarlega fagnaðarefni að það skuli hafa gerst, en í tilefni af ummælum hæstv. ráðherra er þó óhjákvæmilegt að rifja það upp að á staðfestingu þessa samkomulags hefur orðið óhæfilegur dráttur.
    Hæstv. viðskrh. gerði þau alvarlegu mistök, studdur af hæstv. sjútvrh., að undirrita olíusamninga þrátt fyrir að það lægi ljóst fyrir að veruleg tregða væri af hálfu Sovétmanna til þess að staðfesta þá samninga sem gerðir höfðu verið. Það mátti öllum vera ljóst, ekki síst með tilliti til fyrri reynslu og fyrri afstöðu Íslendinga í þessu efni, að nauðsynlegt var af Íslands hálfu að gera Sovétmönnum þá þegar grein fyrir alvöru málsins með því að staðfesta ekki olíusamningana.
    Það var borin fram hér á Alþingi mjög hörð og ákveðin gagnrýni á hæstv. viðskrh. sem einnig á við afstöðu hæstv. sjútvrh. eftir að hann hefur stutt ákvörðun viðskrh. og ég hygg að það sé enda almenn skoðun í þjóðfélaginu að þessi mistök hafi fyrst og fremst leitt til þess að sá dráttur varð á sem raun ber vitni. Eftir að þessi gagnrýni var borin fram tók ríkisstjórnin sig á og neitaði frekari viðræðum um endurnýjun hins almenna samnings og undan þeim þrýstingi lét Sovétstjórnin. Þetta staðfestir að gagnrýnin sem fram var borin var rétt og hafði við rök að styðjast. Afstaða hæstv. ríkisstjórnar hefur þess vegna skaðað íslenska sjávarútvegshagsmuni. En eigi að síður er ástæða til þess nú að fagna því að þessi niðurstaða skuli vera fengin. Það er mikilvægt fyrir þá sem við þessa atvinnugrein starfa, mikið fagnaðarefni fyrir þá og reyndar fyrir þjóðina alla, en með skynsamlegri vinnubrögðum hefði verið hægt að draga úr því tjóni sem orðið er og knýja fram samninga fyrr.
    Frú forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar í dag lýtur að framtíðarhagsmunum Íslendinga og framtíðarþróun samskipta Evrópuþjóðanna sín í milli. Engum vafa er undirorpið að þær ákvarðanir sem við tökum nú um tengsl okkar við Evrópu og þær breytingar sem þar eru að gerast geta skipt sköpum um þróun efnahagsstarfsemi og um lífskjör í landinu um langa framtíð. Það er sannarlega svo að tækifærið er núna og við vitum ekki ef úrtöluraddirnar fá að ráða hvenær það kemur aftur. Við vitum ekki nema slík afstaða úrtölumannanna gæti leitt til þess að við mundum dragast aftur úr öðrum þjóðum að því er varðaði þróun efnahagsmála, framfarir og almenn lífskjör. Þess vegna er nú mikilvægt að taka ákvarðanir og móta skýra afstöðu af Íslands hálfu gagnvart þeim fyrirhuguðu samningum sem fyrir dyrum standa.
    Það hafa átt sér stað miklar breytingar á undanförnum árum í efnahagslegu umhverfi þjóðanna. Ég vil í því sambandi minna á fríverslunarsamning

Bandaríkjanna og Kanada sem í raun réttri er miklu meira en fríverslunarsamningur. Það er alhliða samningur um fríverslun og frjáls viðskipti með fjármagn og þjónustu. Þó að þessi samningur hafi ekki bein áhrif nú á hagsmuni Íslands á Bandaríkjamarkaði, þá er nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast með þróuninni í þessum efnum og freista þess svo sem kostur er að tryggja hagsmuni okkar á því markaðssvæði.
    Á hinn bóginn hafa svo átt sér stað miklar breytingar og mjög ör þróun innan Evrópubandalagsins. Þar hafa menn gert sér grein fyrir mikilvægi markaðsbúskaparins, nauðsyn þess að stíga stór og ný skref á fleiri sviðum en áður til þess að gera frjálsan markaðsbúskap að veruleika, leysa úr læðingi þau öfl og þá krafta sem frjáls markaðsbúskapur gerir í þeim tilgangi að örva atvinnustarfsemi og bæta lífskjör.
    Það er ástæðulaust hér að rekja í einstökum atriðum þær ákvarðanir og þau skref sem ríki Evrópubandalagsins hafa stigið í þessu efni og ná reyndar langt út fyrir almenna efnahagslega samvinnu. Á hinn bóginn höfum við svo verið aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu sem fyrst og fremst hafa verið fríverslunarsamtök með iðnaðarvörur. Á sama tíma og örar breytingar og mikil
framþróun hefur átt sér stað innan Evrópubandalagsins hefur ríkt stöðnun innan Fríverslunarsamtakanna. Þar hefur ekki gætt frumkvæðis að útvíkkun eða nýjum skrefum á þeim grundvelli, enda eru þessi tvenn samtök um margt ólík að eðli og uppruna.
    Nú verðum við að horfast í augu við nýja þróun og átta okkur á því með hvaða hætti við viljum tengjast því sem verið hefur að gerast innan Evrópubandalagsins.
    Aðstæður hafa verið að breytast og viðhorf manna og þjóða hafa verið að breytast. Það er ekki svo langt síðan að þjóðir sáu þá kosti helsta til þess að tryggja hagsmuni sína, tryggja aðgang að auðlindum eða frjósömum landsvæðum, tryggja aðgang að siglinga- og flutningaleiðum og mörkuðum að fara í landvinninga, oft með styrjöldum. Nú sjá menn aðrar leiðir. Nú eygja menn aðra möguleika til að tryggja mikilvæga hagsmuni þjóða að þessu leyti. Nú ná menn þessum markmiðum og tryggja þessa hagsmuni með samningum að frjálsum mörkuðum á ýmsum sviðum.
    Þessi grundvallarbreyting í viðhorfum manna hefur auðvitað mjög mikla efnahagslega þýðingu fyrir þær þjóðir sem fetað hafa inn á þessar brautir, en líka almenna pólitíska þýðingu því að með vinnubrögðum af þessu tagi stuðlum við að friðsamlegri sambúð þjóða og tryggjum betur öryggi þjóðfélagsþegnanna. Þess vegna hefur þessi þróun margþættan tilgang og snertir víðtæka hagsmuni í samskiptum þjóða. Það er þess vegna eðlilegt og sjálfsagt að Íslendingar taki afstöðu til þessarar þróunar og frá mínum bæjardyrum séð er alveg einsýnt að við verðum að vera þátttakendur í þessari jákvæðu þróun, gera okkur grein fyrir því fyrst og fremst hvar okkar eigin hagsmunir

liggja og í ljósi þess að freista þess að tryggja þá sem best, en um leið að notfæra okkur þær breytingar í þeim tilgangi að þær verði aflvaki hér á landi sem annars staðar nýrra framfara, nýrra átaka í atvinnu- og efnahagsmálum sem bæta munu lífskjör þjóðanna. Þetta eru grundvallaratriði.
    Við höfum orðið vitni að því síðustu daga hversu skjótar breytingar hafa átt sér stað í Austur-Evrópu. Staðreynd er nú að sósíalisminn er úr sögunni og búinn að vera. Sú heimsmynd sem reynt var að byggja upp innan fangelsismúra Austur-Evrópuþjóðanna um sósíalískt þjóðfélag er hrunin og búin að vera. Áhrifamesta staðfesting þess fékkst þegar Berlínarmúrinn opnaðist, fyrr en nokkurn gat órað fyrir. Auðvitað mátti öllum vera ljóst að slíkt þjóðskipulag gat ekki staðist til lengdar, jafnvel ekki í skjóli vopnavalds. En þróunin hefur verið hraðari og örari en við gerðum okkur grein fyrir. Þessar þjóðir hafa áttað sig á því að það er nauðsynlegt til framfara að byggja upp lýðræðislegt stjórnkerfi og færa efnahagslífið í átt að almennum, vestrænum markaðsbúskap. Því aðeins geta þessar þjóðir losnað úr þeirri örbirgð sem sósíalisminn hefur leitt yfir þær. Og þessi þróun mun eiga sér stað í enn ríkari mæli á næstu missirum og árum.
    Við eygjum nú þann draum að Evrópa öll geti orðið frjáls. Það getur þess vegna vel verið að þau verkefni sem við erum að ræða um hér, samvinna 18 ríkja í Evrópu, verði miklu stærri og viðameiri áður en langt um líður. Og vonandi fer svo að sú þróun í Austur-Evrópu sem nú á sér stað leiði fyrr en síðar til þess að þessar þjóðir geti á lýðræðislegum grundvelli tekið þátt í víðtækri efnahagssamvinnu Evrópuþjóðanna á grundvelli hins frjálsa markaðsbúskapar eins og við erum að tala um hér í dag. Það væri mikill áfangi og stór sigur fyrir baráttumenn lýðræðis og markaðsbúskapar ef og þegar það gerist.
    Við Íslendingar höfum með ýmsu móti tekið þátt í stöðugri þróun til aukins frelsis í efnahags- og atvinnumálum. Við stigum mjög stórt skref í upphafi viðreisnar á sínum tíma með afnámi viðskiptahafta og með því að hverfa frá uppbóta-, styrkja- og gengisfölsunarkerfi fyrri ára. Við stigum annað skref með aðildinni að Fríverslunarbandalaginu og fríverslunarsamningunum við Evrópubandalagið og við höfum á síðustu árum stigið ný skref í þá veru að auka frelsi á íslenskum fjármagnsmarkaði. Þar höfum við verið að stíga skref til samræmis við það sem aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert og reyndar flestar þjóðir Vestur-Evrópu. Allt eru þetta mikilvægir þættir í aðlögun okkar að þeim ákvörðunum sem nú stendur fyrir dyrum að taka.
    Öll hafa þessi skref valdið pólitískum deilum hér heima. Í öll skiptin sem við höfum stigið veigamikil skref fram á við hafa staðið alvarlegar, pólitískar deilur um þær ákvarðanir sem teknar hafa verið. Eftir á að hyggja gera menn sér þó allir grein fyrir, jafnvel andmælendurnir, að skrefin voru óhjákvæmileg og leiddu til framfara á Íslandi. Enginn andmælir því nú

að nauðsynlegt var að afnema höftin þó að margir hafi þá verið andmælendurnir og séð drauga í hverju horni. Enginn andmælir nú nauðsyn aðildar að Fríverslunarsamtökunum þó að andstæðingarnir hafi haft hátt á sínum tíma. Og fæstir andmæla nauðsyn þess að stigin voru hér mikilvæg skref til aukins frjálsræðis á fjármagnsmarkaði fyrir fáum árum.
    Þó er það svo að enn er verið að blása í glæður úlfúðar vegna þeirra ákvarðana sem síðast voru teknar í þessum efnum. En ef við ætlum okkur að feta okkur inn á þá nýju braut með aðild að hinu svonefnda efnahagssvæði Evrópu, þá verða þær ákvarðanir alveg óhjákvæmilegur þáttur í þeirri aðlögun. Allir þeir sem að ákvörðunum munu standa um aðild Íslands að hinu nýja efnahagssvæði Evrópu og tengslum við Evrópubandalagið eru um leið að játast undir þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar, til að mynda á fjármagnssviðinu. Öll stóru orðin sem sumir hafa haft uppi um drauga og ófreskjur og brennandi Róm vegna þessara breytinga verða nú að engu vegna þess að sömu menn verða að játast undir það að það er óhjákvæmilegt fyrir Ísland að tengjast Evrópubandalaginu með þeim hætti sem nú er verið að tala um og þá verða þessar breytingar eðlilegur og sjálfsagður þáttur í hinni nýju skipan efnahagsmálanna og stóryrði þeirra sem ekki höfðu framsýni til þess að sjá nauðsyn breytinganna verða haldlítil og kannski fyrst og fremst til marks um skilningsleysi á nauðsyn framfara á Íslandi.
    Það verður til að mynda athygli vert að fylgjast með afstöðu hv. 1. þm. Norðurl. v. sem hefur verið einn ötulasti talsmaður þess að búa hér til hvers konar grýlur í hópi þeirra manna sem barist hafa fyrir auknu frjálsræði. Sami
þingmaður hefur það að aukastarfi að búa þessar grýlur til meðan hann að aðalstarfi hefur það verk að reiða heim í þverpokum frjálshyggjuboðskapinn frá Norðurlandaráði, fyrirvaralaust. Allt verður þetta mjög athyglisvert og öll var þessi afstaða að staðfestast hér á Alþingi. Og auðvitað er það fagnaðarefni því fleiri sem fylkja sér undir þá almennu stefnumörkun sem hér liggur til grundvallar hinni nýju aðlögun að Evrópusamstarfinu. Það er ekki síst fróðlegt fyrir okkur að fara yfir sögu ákvarðana okkar sjálfra í átt að því markaðsskipulagi sem við erum hér að fjalla um að taka þátt í með öðrum Evrópuþjóðum.
    Það liggur ljóst fyrir að þær viðræður sem fram hafa farið milli EFTA og Evrópubandalagsins að undanförnu hafa farið fram að frumkvæði Evrópubandalagsins og á þeim forsendum sem Evrópubandalagið setti þegar það kallaði til þeirra viðræðna, og það er verið með skýrum hætti að ræða um aðlögun Fríverslunarsamtakanna að þeim lagagrunni sem þegar hefur verið lagður innan Evrópubandalagsins. Þó að frumkvæði og forsendur þessara viðræðna séu með þessum hætti einhliða komnar fram af hálfu Evrópubandalagsins rýrir það ekki á nokkurn hátt gildi þess að við tökum fullan þátt og óhikað í þeim viðræðum sem hér fara fram. Það er miklu fremur ástæða til þess fyrir okkur að

viðurkenna að innan Evrópubandalagsins mörkuðu menn með skýrari hætti nýjar línur til þess að útvíkka efnahagslegt samstarf á grundvelli markaðslögmála.
    Sú skýrsla sem hér liggur fyrir er mjög greinargóð um þær viðræður sem fram hafa farið. Hér hafa átt sér stað óformlegar undirbúningsviðræður, engar samningaviðræður enn sem komið er. Segja má með nokkrum hætti að í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir sé gerð grein fyrir þeirri dagskrá og þeim grundvallaratriðum sem liggja munu til grundvallar formlegum samningaviðræðum.
    Ég held að það fari ekki á milli mála að þeir embættismenn sem fyrst og fremst hafa af hálfu þjóðanna staðið að þessum viðræðum hafi unnið mjög gott verk. Þeir embættismenn sem leitt hafa starfið af okkar hálfu og reyndar síðasta hálfa árið leitt starfið af hálfu Fríverslunarsamtakanna hafa unnið mjög gott starf og auðvitað þá fyrst og fremst ráðuneytisstjórinn í utanrrn. sem mér er kunnugt um að hefur áunnið sér traust og virðingu annarra þjóða sem aðild hafa átt að þessum viðræðum. Það er því ástæða til þess hér að þakka þeim fulltrúum Íslands í embættismannaliðinu sem unnið hafa að þessum undirbúningi. En nú stöndum við á þeim tímamótum að þurfa að taka hinar pólitísku ákvarðanir. Nú er komið að því að stjórnmálamenn þurfa að taka afstöðu og hafa forustu fyrir því sem gerast mun í framhaldi af þeirri niðurstöðu sem þegar er fengin. Það veltur því á Alþingi að taka hér um mikilvægar ákvarðanir.
    Auðvitað er það svo að vöruviðskiptin skipta Íslendinga hvað mestu máli í þeim samkomulagsgrundvelli sem fyrir liggur. Það eru mestir hagsmunir fólgnir í því að á þeim vettvangi fáum við eðlilega og góða samninga um óhindruð viðskipti á hinu stóra markaðssvæði.
    Hagsmunir okkar í þessu efni eru fyrst og fremst bundnir við fisk. Meginhluti okkar útflutningsframleiðslu er sjávarafurðir. Og þó að okkur takist, m.a. með þátttöku í hinni nýju efnahagssamvinnu á næstu árum, að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og skjóta nýjum stoðum undir íslenskt atvinnulíf og treysta það þar með verður sjávarútvegur um langa framtíð undirstaða framleiðslu í þessu landi og undirstaða útflutnings Íslendinga. Þess vegna skiptir mestu máli í þeim viðræðum sem fyrir dyrum standa og þeim pólitísku ákvörðunum sem teknar verða að hafa hagsmuni sjávarútvegsins í huga. Það er réttmæt gagnrýni sem fram hefur komið af hálfu talsmanna sjávarútvegsins að hæstv. ríkisstjórn, og hæstv. utanrrh., hefur ekki að undanförnu gefið þessum sérstöku hagsmunum nægjanlegan gaum. Þess verður þess vegna krafist að í framhaldinu verði lögð önnur og ríkari áhersla á þessa meginhagsmuni Íslands í þeim viðræðum sem fram munu fara.
    Sá árangur náðist að innan Fríverslunarsamtakanna var fallist á sjónarmið og kröfur Íslendinga um fríverslun með fisk. Auðvitað var þetta merkur áfangi og mikilvægur fyrir Íslendinga en þó fyrst og fremst að formi til. Viðskiptahagsmunir okkar með sjávarafurðir hafa ekki verið innan

Fríverslunarsamtakanna heldur miklu fremur innan Evrópubandalagsins og í Bandaríkjunum og á öðrum markaðssvæðum. Þess vegna var þessi samþykkt meira formlegur sigur fyrir Ísland en að hún hefði efnislega þýðingu. Því hygg ég að allir hljóti að gera sér grein fyrir þó að ég ætli ekki hér að gera neitt lítið úr því að Fríverslunarsamtökin gerðu þá samþykkt sem hér um ræðir.
    Við vitum að innan hinna ríkja Fríverslunarsamtakanna er sjávarútvegur og verslun með fiskafurðir ekki sérstakt hagsmunamál og jafnvel Norðmenn eru ekki á neinn hátt jafnháðir sjávarútvegi og við Íslendingar og því fer víðs fjarri að útflutningur þeirra á sjávarafurðum komist hlutfallslega nálægt því sem hann er hér frá Íslandi. Ég hygg að sjávarafurðir séu varla meira en 5--6% af þeirra útflutningi. Það er því augljóst að jafnvel þeir hafa ekki nándar nærri jafnmikilla hagsmuna að gæta á þessu sviði og við og aðrar þjóðir Fríverslunarsamtakanna þeim mun minni hagsmuni. Er þá þess að vænta að þessar
þjóðir muni styðja svo að dugi til þau sjónarmið Íslendinga sem tengjast hagsmununum sem bundnir eru við útflutning á sjávarafurðum? Ég efa ekki að Fríverslunarsamtökin muni standa við sín orð og halda þessum kröfum til streitu, en það er valt á það að treysta að sá þungi verði að baki þessari kröfu af hálfu EFTA-þjóðanna að dugi okkur og okkar sjávarútvegshagsmunum. Það er þetta sem við verðum að hafa í huga.
    Það kemur reyndar skýrt fram í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir að verulegum vandkvæðum verður bundið að knýja fram í þessum viðræðum kröfuna um fríverslun með fisk. Í skýrslunni stendur á bls. 17 í kafla um sjávarafurðir, með leyfi forseta:
    ,,Í vinnuhópi I var afstaða EFTA-ríkjanna sú að komið yrði á sams konar fríverslun með sjávarafurðir milli EFTA-ríkjanna og EB og taka á gildi innan EFTA á næsta ári.
    Fulltrúar framkvæmdastjórnar EB lýstu því að að því er bandalagið varðaði, þá væri slík fríverslun tengd öðrum þáttum hinnar sameiginlegu fiskimálastefnu þess. Fulltrúar EFTA lögðu áherslu á að slík tenging í hverjum þeim samningaviðræðum er síðar færu fram mundi ganga gegn grundvallar þjóðarhagsmunum. Í niðurstöðum stjórnarnefndar viðræðnanna sagði síðan að af þessum ástæðum yrði nákvæmt innihald hverra þeirra ákvæða sem sett væru á þessu sviði augljóslega að verða samningsatriði.``
    Þetta er í raun og veru kjarni málsins. Evrópubandalagið svarar kröfunni um fríverslun með fisk með því að tefla fram fiskveiðistefnu sinni. Er þess einhver von að við og Fríverslunarsamtökin getum knúið Evrópubandalagið til þess að falla frá núverandi fiskveiðistefnu? Ég dreg í efa að það gerist alveg á næstu árum. Auðvitað eru allar líkur til þess að hin sérstaka stefna sem lýtur að fiskveiðum og landbúnaði innan Evrópubandalagsins muni breytast á næstu árum. Ég er sannfærður um að á báðum þessum sviðum muni þróun verða í frjálsræðisátt og til

aukinnar fríverslunar. Og það er eðlilegt að Íslendingar verði þátttakendur í slíkri þróun. Umræður þar um eru þegar hafnar, til að mynda að því er varðar landbúnaðarafurðir, innan almenna samkomulagsins um tolla og viðskipti. Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að þessi þróun hlýtur að taka allmörg ár. Það er ekki fyrirsjáanlegt á næstunni að hún fari af stað svo nokkru nemi og þess er varla að vænta að Evrópubandalagið falli frá styrkjastefnu sinni í sjávarútvegi á næstunni. En það er auðvitað óhjákvæmilegur þáttur almennrar fríverslunar að koma í veg fyrir styrki þannig að samkeppnisaðstaðan sé jöfn.
    Ég hygg að það hafi komið fram að styrkir Evrópubandalagsins til sjávarútvegs á þessu ári séu 26--27 milljarðar íslenskra króna og verði yfir 80 milljarðar á fjögurra ára tímabili. Af þessu má sjá að líkurnar á því að skjótlega verði unnt að breyta þessu eru ekki ýkja miklar og þegar á það er litið að aðrar þjóðir Fríverslunarsamtakanna hafa ekki sömu hagsmuna að gæta og við verðum við sérstaklega að hyggja að okkar aðstöðu.
    Það hafa orðið verulegar breytingar á aðstæðum íslensks sjávarútvegs frá því að fríverslunarsamningurinn við Evrópubandalagið var gerður og bókun 6 gekk í gildi. Í fyrsta lagi hefur bandalagið sjálft tekið miklum breytingum. Í því eru nú mikilvægar viðskiptaþjóðir Íslendinga sem áður stóðu utan þess. Það hafa orðið miklar breytingar í flutningatækni sem gjörbreyta aðstæðum í vinnslu og með sölu sjávarafurða. Við erum smám saman og munum í enn ríkari mæli á næstu árum stefna að því að vinna íslenskan sjávarafla meir og með öðrum og áhrifameiri hætti hér heima en gert hefur verið. Við vitum að sú staða sem uppi er í dag gerir það að verkum að samkeppnisaðstaðan innan sjávarútvegsins hér heima er mismunandi eftir því hvaða fisk menn eru að vinna eða hvernig og hún er jafnvel mismunandi þar af leiðandi eftir byggðarlögum. Allt kallar þetta á sérstakt endurmat á stöðu sjávarútvegsins gagnvart markaði Evrópubandalagsins.
    Í skýrslu sem samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi hefur gefið út segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Í væntanlegum viðræðum við Evrópubandalagið er nauðsynlegt að undirstrika mikilvægi sjávarútvegs á Íslandi. Íslendingar þurfa frjálsan aðgang að mörkuðum bandalagsins þar sem sjávarafurðir eru iðnaðarvörur Íslendinga. Íslendingar fara ekki fram á að Evrópubandalagið breyti fiskveiðistefnu sinni heldur viðurkenni sérstöðu Íslands. Ljóst er að Íslendingar þurfa að leita eftir viðbótarsamningi við fríverslunarsamninginn við Evrópubandalagið ef tollar bandalagsins eiga ekki að hafa varanleg áhrif á lífsafkomu á Íslandi, atvinnu- og byggðaþróun. Neyta þarf allra ráða til þess að tryggja hagsmuni okkar, bæði í væntanlegum viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins og í tvíhliða viðræðum Íslendinga og bandalagsins.``

    Þessi sjónarmið hafa forustumenn í íslenskum sjávarútvegi kynnt á undanförnum mánuðum og missirum og nú með alveg skýrum hætti í þeirri skýrslu sem út hefur verið gefin. Það er hins vegar áhyggjuefni og gagnrýniefni á hæstv. utanrrh. að hafa ekki sinnt eða tekið nægjanlega mikið tillit til þessara sérstöku aðstæðna og óska sjávarútvegsins í þessu efni sem fram hafa
komið, ekki í fyrsta sinn nú, heldur mörgum sinnum áður, og ég minni í því sambandi til að mynda á samþykktir fiskiþings fyrir heilu ári síðan. Það er að mínu viti rangt af hálfu hæstv. utanrrh. að vísa frá eða taka svo dræmt í hugmyndir um samhliða-tvíhliða viðræður eins og hann hefur gert að undanförnu og í viðræðunum hér í dag.
    Ég hygg að það liggi í augum uppi að það verður mjög erfitt að knýja Evrópubandalagið til þess að falla frá fiskveiðistefnu sinni og styrkjastefnu og ná alveg á næstu árum þannig samningum um fríverslun. Og við getum varla vænst þess að aðrar þjóðir Fríverslunarsamtakanna leggi það ofurkapp á sérstöðu Íslands að við þurfum ekki að huga sérstaklega að þessum þætti. Við eigum þess vegna að mínu mati og í samræmi við þær óskir sem fram hafa komið frá sjávarútveginum alveg hiklaust og ákveðið að taka jafnhliða upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið. Það dugar ekki í því efni að vísa til almennra samtala við einstaka ráðamenn Evrópubandalagsins eða almenns samráðsfunds sem hæstv. sjútvrh. átti með þeim aðila í framkvæmdanefnd Evrópubandalagsins sem fer með sjávarútvegsmál. Það eru ekki tvíhliða viðræður af því tagi sem við erum að tala um hér. Ég er ekki að gera lítið úr slíkum samtölum. Þau eru nauðsynleg og óhjákvæmileg til þess að treysta og styrkja samningaviðræður okkar við Evrópubandalagið. Og satt best að segja þurfum við að gera miklu meira af því að eiga slíkar viðræður, bæði við framkvæmdanefnd bandalagsins og forustumenn einstakra ríkja.
    En það sem hér þarf að gerast er það að með ákveðnum hætti verði teknar upp formlegar tvíhliða viðræður til þess að tryggja þessa hagsmuni. Þá segja menn sem svo, eins og hæstv. utanrrh. gerði hér í ræðunni: ,,Það getur ekki gerst vegna þess að Evrópubandalagið gerir þá kröfu til fiskveiðiheimilda innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.`` Um það er algjör samstaða að ég vænti á Alþingi Íslendinga að við ætlum ekki í þessum samningum að taka upp neinar slíkar viðræður. Það hefur aldrei komið til tals af hálfu Íslendinga í þessu efni. Satt best að segja eru engin rök fyrir því af hálfu Evrópubandalagsins að bera fram slíkar kröfur þó að við förum fram á að tollar verði alfarið afnumdir af sjávarafurðum. Þvert á móti má segja að Ísland leggi mikið fram ef við erum reiðubúnir til þess að starfa á markaði Evrópubandalagsins og hins nýja efnahagssvæðis Evrópu á þeim grundvelli einum að fá hindrunarlaust og án
tollahindrana að selja okkar sjávarafurðir sem eru okkar iðnaðarvörur á þessum markaði án þess að gera

jafnhliða kröfu til þess að Evrópubandalagið leggi tafarlaust niður styrkjastefnu sína. Það er býsna mikið framlag af Íslands hálfu að bjóðast til þess að taka með þessum hætti þátt í hinum sameiginlega markaði án þess að gera þá kröfu að styrkirnir verði aflagðir þegar í stað. Það eru engin rök af hálfu Efnahagsbandalagsins að tefla neinum öðrum kröfum fram þegar við óskum eftir viðurkenningu á þessari sérstöðu, að okkar sjávarafurðir eru jafngildar iðnaðarvörum annarra, enda hefur það komið fram í yfirlýsingum af hálfu forustumanna helstu ríkja Evrópubandalagsins að þeir vilja horfa á þessa sérstöðu Íslands og ef eitthvað er að marka þau ummæli og þau eru annað en orðin tóm, sem ég hef enga ástæðu til að ætla, er eðlilegt að við förum fram á að þessar tvíhliða viðræður varðandi hagsmuni íslensks sjávarútvegs á þessum markaði hefjist þegar í stað og fari fram samhliða hinum almennu viðræðum sem grundvöllur hefur verið lagður að.
    Auðvitað þarf í hinum almennu EFTA/EB-viðræðum að halda fríverslunarkröfunni til streitu og við eigum ekkert að gefa eftir í því efni. Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að þar erum við að tala um atriði sem tekur lengri tíma að ná fram en við höfum til þess að tryggja sjávarútveginum algjörlega óhindraðan aðgang að markaði Evrópubandalagsins. Þess vegna verður að gera þessa kröfu og ég vænti þess að jákvæðari og skýrari svör fáist um þetta af hálfu hæstv. ríkisstjórnar áður en þessari umræðu lýkur en fengust í framsöguræðu hæstv. utanrrh.
    Annar þáttur sem hér er verið að fjalla um lýtur að auknu frelsi fjármagns og þjónustu. Ég hygg að það skipti okkur Íslendinga verulegu máli að taka þátt í þeim ákvörðunum sem nú er verið að taka á vettvangi annarra Evrópuþjóða í þeim tilgangi að létta af hömlum á þessu sviði. Það hefur margs konar þýðingu fyrir okkur Íslendinga. Ég er sannfærður um að það mun auðvelda okkur að takast á við ýmsa grundvallarþætti sem hafa verið vandamál í íslenskri hagstjórn. Ég er sannfærður um að það auðveldar okkur að ná fram markmiðum um uppbyggingu á fjölbreyttara íslensku atvinnulífi og yfirleitt að tryggja að við getum tekið þátt í þessari samvinnu og okkar atvinnugreinar og okkar þjónustufyrirtæki geti verið gjaldgeng í alþjóðlegu samstarfi. Það væri of langt mál að fjalla um alla þá hagsmuni sem hér eru í húfi. Auðvitað er það svo að aðstæður eru sérstakar á Íslandi, en við eigum eigi að síður að taka fullan þátt í þeim grundvallarákvörðunum sem hér verða teknar. Það er á hinn bóginn ekkert óeðlilegt að við höfum sérstaka aðgæslu, til að mynda að því er varðar eignaraðild að auðlindum, og það kallar enn á að við tökum ákvarðanir og setjum hér nýja löggjöf, til að mynda um fjárfestingu erlendra aðila. Að því máli var unnið í fyrrv. ríkisstjórn og tilbúin löggjöf þar um, en
framgangur þess máls strandaði þá á Framsfl. sem ekki var tilbúinn til að ákveða nýja löggjöf í því efni, en þar var einmitt sérstaklega gert ráð fyrir því að

fjárfesting erlendra aðila væri takmörkuð þar sem íslenskar auðlindir eru í húfi en að öðru leyti að því stefnt að fjárfesting erlendra aðila hér yrði með sambærilegum hætti við það sem gerist meðal annarra þjóða. Þess vegna eigum við óhikað að taka hér grundvallarafstöðu í ljósi þessara sérstöku íslensku aðstæðna og gera nauðsynlegar breytingar á okkar löggjöf. Að minni hyggju væri það sterkara ef við hefðum áður en þessum samningaviðræðum lýkur afgreitt frá Alþingi nýja löggjöf einmitt um þessi efni þar sem við óhikað samræmdum hina almennu reglu því sem er að gerast innan Evrópusvæðisins en tryggðum okkar auðlindir svo sem ég hygg að almenn samstaða sé um. Ég er sannfærður um að það er sterkara og öruggara fyrir okkur að afgreiða þessa löggjöf áður en formlegar samningaviðræður hefjast.
    Hér koma líka til hagsmunir til að mynda lífeyrissjóða varðandi skuldabréfakaup erlendis, möguleikar okkar til þess að mynda á þann veg eignir erlendis á móti erlendum lánum. Ég hygg að hvar sem borið er niður í þessu efni séu miklir og mikilvægir hagsmunir í húfi. Ég er einnig sannfærður um að það er eðlilegt af okkar hálfu að taka þátt í þeim ákvörðunum er lúta að auknu frelsi varðandi atvinnu- og búseturétt. Við ákváðum fyrir fáum árum að taka þátt í sameiginlegum vinnumarkaði Norðurlandanna með sérstökum heimildum Íslendinga til þess að grípa inn í ef aðstæður yrðu með sérstökum hætti og ég held að þar liggi fyrir sá háttur sem við getum haft á varðandi hið víðtækara samstarf innan efnahagssvæðis Evrópu, þ.e. að taka óhikað þátt í grundvallarbreytingunum sem gerðar eru en um leið að fá viðurkennda þessa sérstöðu Íslands. Eins og kom fram í máli hæstv. utanrrh. eru það aðrir þættir sem hafa haft meiri áhrif í þá veru að hindra það að fólk flyttist hingað í stórum stíl en raunverulega þær heimildir þó að þær séu nauðsynlegar öryggisins vegna. Að sumu leyti hygg ég að við séum í þeim sporum að þrátt fyrir aðild okkar að slíkum breytingum munum við á næstu árum frekar þurfa á því að halda að leita eftir erlendri fjárfestingu hér á landi til nauðsynlegrar uppbyggingar í þeim tilgangi að gera atvinnulífið fjölbreyttara en hitt að við þurfum að standa á móti því að erlendir aðilar komi hér og fjárfesti. Ég hygg að aðstaða okkar á næstu árum verði miklu fremur þessi.
    Þau jaðarmálefni, sem svo eru kölluð og hér er ætlunin að ganga til samninga um, skipta okkur líka mjög miklu máli, hvort heldur við erum að horfa til aðstöðu námsmanna til þess að eiga aðgang að erlendum menntastofnunum, möguleika okkar til þátttöku í alþjóðlegu rannsókna- og vísindastarfi eða samstarfi á sviði umhverfisverndar. Allt skiptir þetta okkur mjög miklu máli og óþarfi er að fara um það mjög mörgum orðum.
    Það hefur svo valdið ýmsum áhyggjum hvort við værum með þessum hætti og samningum af þessu tagi að tengjast alþjóðlegum stofnunum á þann hátt að við yrðum bundnir af yfirríkjaákvörðunum. Fari svo, sem ég vænti, að við förum inn í samninga í þessum

farvegi sem hér hefur verið lagður grundvöllur að er í sjálfu sér ekki mikið að varast í því efni, en eðlilega hljóta að koma upp mjög margar og flóknar spurningar lagalegs eðlis, spurningar um undirbúning ákvarðana og hvernig ákvarðanir fara fram. Það hljóta að koma upp kröfur um skilvirka ákvarðanatöku innan Fríverslunarsamtakanna og eðlilegar kröfur um úrskurðarvald eða dóma þegar ágreiningur kemur upp um framkvæmd þeirra lagareglna sem á verður byggt. Ég þykist vita að sumir líti svo á að dómstóll sem settur yrði upp af þessum sökum skerði sjálfsákvörðunarrétt Íslendinga og auðvitað má teygja hugtök af þessu tagi á ýmsa vegu, skýra þau bæði rúmt og þröngt, en hjá slíkum ákvörðunum verður auðvitað ekki komist og ég sé af þeim sökum ekki ástæðu til þess að setja fram gagnrýni eða efasemdir um ákvörðun um þátttöku í þessum viðræðum. Þvert á móti sýnist mér að í þeim embættismannaviðræðum sem fram hafa farið hafi verið tekið skynsamlega á þessum málum og lagður grundvöllur að samkomulagi sem geti verið og muni verða traust og Íslendingar geta auðveldlega átt aðild að.
    Ég er þess vegna alveg óhikað þeirrar skoðunar að það sé ekki bara eðlilegt heldur nauðsynlegt fyrir Íslendinga að taka þátt í þeim viðræðum milli EFTA og EB sem grundvöllur hefur verið lagður að og grein er gerð fyrir í þeirri skýrslu og embættismenn þjóðanna hafa undirbúið. Samhliða verður auðvitað að gera hina kröfuna að hafnar verði sérstakar tvíhliða viðræður af okkar hálfu við Evrópubandalagið til þess að fá fram óhindruð viðskipti með sjávarafurðir.
    En hver er stefna hæstv. ríkisstjórnar? Ég leyfði mér að skilja orð hæstv. utanrrh. á þann veg að hann væri í grundvallaratriðum þeirrar skoðunar að við ættum að taka ákvörðun um að hefja formlegar samningaviðræður á þeim grundvelli sem hér hefur verið lagður. Þó að vafalaust megi túlka ummæli hans á ýmsa vegu hygg ég að útilokað sé í raun og veru að túlka ræðu hans á annan veg en að af hans hálfu liggi hér fyrir skýr stefna og hann sé tilbúinn til að taka slíka ákvörðun á sameiginlegum ráðherrafundi sem fram á að fara 19. des.
    Það kemur fram í inngangi skýrslunnar að á þeim sameiginlega ráðherrafundi EFTA og EB sem halda á í Brussel 19. des. verði tekin ákvörðun um það hvort
nægur grundvöllur sé til að hefja samningaviðræður á næsta ári. Það er auðvitað stór og veigamikil pólitísk ákvörðun. Það kom hins vegar ekkert fram um það í ræðu hæstv. utanrrh. hver væri afstaða ríkisstjórnar Íslands í þessu máli og hvaða afstöðu ríkisstjórnarflokkarnir hafa til málsins þegar þessi mikla pólitíska ákvörðun verður tekin sem Ísland þarf að gera grein fyrir á ráðherrafundinum 19. des. ef það ætlar ekki að taka áhættu af því að dragast aftur úr í samstarfi Evrópuþjóðanna.
    Ríkisstjórnin hefur haft margs konar fyrirvarapólitík í frammi á undanförnum mánuðum varðandi alþjóðasamstarf á þeim sviðum sem hér er verið að fjalla um. Nægir í því efni að minna á þann fyrirvara um efnahagssamstarf Norðurlandaþjóðanna sem hæstv.

fjmrh. gerði af Íslands hálfu og hefur verið margítrekaður af hálfu fulltrúa og talsmanns Alþb. í alþjóðamálum, hv. 2. þm. Austurl. Ég hef gagnrýnt þessa fyrirvarapólitík og skil ekki hvers vegna ríkisstjórn Íslands getur ekki óhikað tekið þátt í efnahagssamstarfi Norðurlandaþjóðanna á þessu sviði, en á þeim vettvangi hefur verið gerður formlegur fyrirvari að því er varðar frjálsa fjármagnsflutninga og þjónustu. Á hinn bóginn liggja ekki fyrir formlegir fyrirvarar í þeim undirbúningsviðræðum sem fram hafa farið á vegum EFTA og EB, og er það auðvitað grundvallaratriði, ef við eigum að tryggja okkar hagsmuni í þeim viðræðum, að það verði ekki gert. Eftir Oslóarfund leiðtoga Fríverslunarsamtakanna lýsti hæstv. utanrrh. því yfir að Ísland hefði tekið þátt í þeirri ákvörðun sem þar var tekin án nokkurra fyrirvara og hæstv. viðskrh. lýsti því yfir á ársfundi Félags ísl. iðnrekenda að Ísland hefði tekið þátt í þessari lokayfirlýsingu án nokkurra fyrirvara. Hæstv. forsrh. hélt því hins vegar fram að Ísland hefði gert mjög veigamikla fyrirvara og í Morgunblaðinu er þetta haft eftir hæstv. forsrh. á þeim tíma, með leyfi forseta:
    ,,Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra gerði á ríkisstjórnarfundi í gær grein fyrir fundi sínum með öðrum forsætisráðherrum EFTA-ríkjanna í Osló fyrr í vikunni. ,,Það kom fram mikil ánægja með þessa niðurstöðu á fundi ríkisstjórnarinnar, en ég taldi nauðsynlegt að leiðrétta það sem Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra sagði á fundi iðnrekenda um EFTA-samþykktina, án nokkurra fyrirvara. Það er alls ekki rétt,,, sagði forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið. Steingrímur sagði að hann hefði gert mjög ákveðna fyrirvara um framkvæmd þessarar samþykktar. ,,Það eru reyndar allar þjóðirnar með fyrirvara um framkvæmd þessa samkomulags. Svisslendingar gerðu það í sinni ræðu og ég gerði það í minni ræðu. Reyndar má lesa næstum hvað sem er út úr þessu samkomulagi,,, sagði Steingrímur.``
    Er það nú traustvekjandi af Íslands hálfu þegar forsætisráðherra Íslands lýsir því yfir eftir að hafa tekið þátt í samþykkt sem þessari að hún sé ekki merkilegri en það að lesa megi út úr henni hvað sem er? Ummæli sem þessi berast auðvitað til okkar samstarfsaðila og okkar viðsemjenda, og halda menn að þau auki traust á Íslendingum? Halda menn að þau leiði til þess að við eigum betra með að tryggja okkar hagsmuni í þessum viðræðum, þegar hæstv. forsrh. lýsir því yfir að það megi bara lesa hvað sem er út úr þessari yfirlýsingu? E.t.v. er þetta gert vegna þeirrar náttúru hluta Framsfl. að vilja bæði vera með og móti í flestum málum. Það gengur oft upp, ég játa það, í stjórnmálaumræðum hér heima af hálfu framsóknarmanna að tala með þessum hætti. En það getur ekki gengið að ríkisstjórn Íslands beri málflutning af þessu tagi á borð í samskiptum við aðrar þjóðir. Það verður að gera þá kröfu að hér sé kveðið skýrt að og að ríkisstjórn Íslands hafi ákveðna stefnu í þessu efni og sé ekki að gera grín að samþykktum sem við tökum þátt í með öðrum þjóðum

á þann veg að segja að þær geti þýtt hvað sem er.
    Hæstv. sjútvrh. hefur á hinn bóginn lýst miklu ákveðnari og afdráttarlausari skoðunum af sinni hálfu um nauðsyn þess að við tökum óhikað þátt í því samstarfi sem hér fer fram og væntanlega verður að veruleika. Ummæli bæði hæstv. forsrh. og ýmissa annarra talsmanna Framsfl. vekja upp spurningar um það hver er hin eiginlega stefna og afstaða flokksins í þessu efni og ekki síst með því að Framsfl. fer, alltént að forminu til, með forustu fyrir þessari ríkisstjórn og ekki er hægt að ætlast til þess að aðrar þjóðir líti öðruvísi á. Því verður að gera þá kröfu að forsrh. Íslands tali með öðrum hætti um þær mikilvægu samþykktir sem við gerum.
    Það hefur svo komið fram af hálfu Alþb. að þar eru uppi miklu skýrari viðhorf en um leið mjög neikvæð gagnvart því samstarfi sem hér á sér stað. Aðaltalsmaður Alþb. í utanríkismálum, hv. 2. þm. Austurl., sagði í umræðum á aukaþingi Norðurlandaráðs fyrir skömmu, þar sem um þessi mál var fjallað, að hann sæi það ekki sem æskilegan hlut fyrir Norðurlöndin og alltént ekki fyrir Ísland að gera samninga með EFTA-þjóðunum á grundvelli þeirra reglna um innri markað sem settar hafa verið í Evrópubandalagslöndunum. Og hann bætti því við í ræðu sinni að við ættum að leita annarra leiða en að ganga inn í biðsal Evrópubandalagssamstarfsins. Sú ræða sem talsmaður Alþb. í
þessu efni hélt á aukaþingi Norðurlandaráðs var svo grundvöllur þeirra ákvarðana sem landsfundur Alþb. tók nokkrum dögum seinna. Sú stefnumörkun sem
hv. 2. þm. Austurl. lýsti á aukaþingi Norðurlandaráðs varð niðurstaða landsfundar Alþb. og formaður Alþb. hefur, aldrei þessu vant, tekið undir þá stefnumörkun sem hv. 2. þm. Austurl. hefur þannig markað fyrir Alþb. Svo virðist því sem um þessi mál sé, þrátt fyrir allt, góð og mikil samstaða innan Alþb. En í samþykkt þess segir, með leyfi forseta:
    ,,Ekki er hægt að fallast á að á næstu vikum verði knúin fram afstaða um aðild Íslands að formlegum samningaviðræðum EFTA við Evrópubandalagið um myndun evrópsks efnahagssvæðis. Nauðsynlegt er að frekari umræður fari fram áður en til slíkrar ákvörðunar er gengið og að almenningi gefist kostur á að setja sig inn í málavexti.``
    Hér er skýrt og skilmerkilega kveðið að. Alþb., forustuflokkur í núv. ríkisstjórn um mótun stefnu í efnahagsmálum, hefur sagt að á næstu vikum verði ekki knúin fram afstaða um aðild að formlegum viðræðum. Þó liggur það fyrir og kemur fram í skýrslu hæstv. utanrrh. og í máli hans sjálfs að á ráðherrafundi, sameiginlegum ráðherrafundi EFTA og EB 19. des. nk., eigi að taka um það ákvörðun hvort hefja eigi formlegar viðræður, fyrst undirbúning og síðan formlegar viðræður strax í upphafi næsta árs. Það liggur með öðrum orðum í augum uppi að ef við ætlum ekki að dragast aftur úr en verða samferða öðrum þjóðum þá þarf á næstu vikum að taka þá grundvallarpólitísku ákvörðun sem hér er verið að tala um. En áhrifamesti flokkurinn í ríkisstjórninni hefur

sagt: Þessi ákvörðun verður ekki tekin á næstu vikum. Hvað þýðir þetta? Innan ríkisstjórnarinnar er ekki samkomulag um stefnu í þessu efni. Ég veit ekki hvort hæstv. utanrrh. hefur leitað eftir því innan hæstv. ríkisstjórnar að ná samstöðu um afstöðuna í þessu máli, það er mér ókunnugt um. Hitt er ljóst að hann kemur hér til þessarar umræðu án þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn standi að baki túlkun hans á þeim ákvörðunum sem taka þarf. Það leiðir til þess að við stöndum hér frammi fyrir alveg nýjum aðstæðum og ég hygg að allir geri sér grein fyrir því að hér er um að ræða svo veigamiklar ákvarðanir sem hafa svo mikla þýðingu fyrir Ísland og snerta svo framtíð þessarar þjóðar og framtíðarhagsmuni þessarar þjóðar að það verður að gera þá kröfu að utanrrh. hafi alveg skýrt umboð meiri hluta Alþingis til að taka þær ákvarðanir sem teknar eru á alþjóðlegum vettvangi. Svo virðist því sem ekki sé búið að mynda meiri hluta hér á Alþingi fyrir nauðsynlegum ákvörðunum áður en kemur til ráðherrafundarins 19. des.
    Ég veit ekki hvort hæstv. utanrrh. hefur leitað eftir formlegu samstarfi við aðra stjórnarandstöðuflokka, en hann hefur ekki leitað eftir slíku samstarfi við Sjálfstfl. Þess vegna er alveg ljóst að eigi Ísland að taka þátt í ákvörðunum um framhald málsins og formlegar samningaviðræður að hefjast, þarf hæstv. utanrrh. að hafa með skýrum hætti stuðning og umboð frá meiri hluta Alþingis. Þess vegna er óhjákvæmilegt að Alþingi geri hér alveg sérstaka samþykkt um að taka þátt í þessum viðræðum og að mínu mati að hefja um leið tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið. Slíkt skýrt umboð verður að liggja fyrir áður en utanrrh. fer á fundinn 19. des. Útilokað er að Ísland fari þangað án þess að fyrir liggi meirihlutavilji á Alþingi. Það mundi stangast í grundvallaratriðum á við viðtekna þingræðisvenju að svo veigamikil pólitísk ákvörðun verði tekin án þess að staðreynt væri að meiri hluti væri fyrir henni á Alþingi. Hér er því þörf á sérstakri samþykkt og ég vil inna eftir því hvort það er ekki ætlun hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. utanrrh. að leita með skýrum hætti eftir slíkum umboðum. Allt annað er að mínu mati ögrun við þingræðið í landinu, ekki síst í ljósi þess að áhrifamesti flokkurinn innan ríkisstjórnarinnar hefur á svo augljósan hátt hafnað því að á næstu vikum verði ákvörðun tekin af þessu tagi. Sjálfstfl. er þeirrar skoðunar að Ísland eigi að taka þá ákvörðun og gera grein fyrir henni á nefndum ráðherrafundi í næsta mánuði að Ísland muni taka þátt með öðrum EFTA-þjóðum í þessum sameiginlegu viðræðum til þess að koma á því efnahagssamstarfi sem þar er um fjallað með skírskotun til þeirra efnisatriða, almennu grundvallarhugmynda sem fram koma og sérstakra aðstæðna Íslands í þeirri skýrslu sem embættismennirnir hafa lagt fyrir. Jafnhliða telur Sjálfstfl. það ófrávíkjanlega kröfu að hæstv. ríkisstjórn taki þegar í stað upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið til að tryggja hagsmuni íslensks sjávarútvegs og óhindraðan aðgang sjávarafurða að hinum sameiginlega markaði. Sjálfstfl. er fyrir sitt leyti tilbúinn til formlegra viðræðna við aðra flokka í

þinginu, a.m.k. þá flokka sem eru tilbúnir til þess að taka slíkar ákvarðanir á næstu vikum.
    Frú forseti. Það mál sem hér er verið að fjalla um skiptir miklu máli fyrir íslenska hagsmuni. Hér er verið að fjalla um einhverja mestu og mikilvægustu pólitísku ákvörðun sem Ísland hefur tekið um langan tíma. Ég hef þá trú að þetta samstarf muni leiða til góðs fyrir Ísland ef við höldum rétt á okkar málum. Ef við gætum þess að tryggja svo sem frekast er kostur íslenska hagsmuni og okkar sérstöðu vegna sjávarútvegsins, þá er ég sannfærður um að full þátttaka í því mikla frjálsræði sem verið er að ákveða með þessari samvinnu mun styrkja íslenskt efnahagslíf, örva íslenskt atvinnulíf og tryggja betri lífskjör í framtíðinni. Þess vegna verðum við að taka þær mikilvægu
ákvarðanir sem hér liggja fyrir á næstu vikum því að við höfum ekki efni á því að taka þá áhættu að slá þessum málum á frest og hugsanlega að dragast langt aftur úr öðrum þjóðum og einangrast hér í Norður-Atlantshafinu viðskiptalega og efnahagslega.