Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Hæstv. forseti. Ég vil láta þjóðina sjálfa taka ákvörðun í þessu máli, hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um málið þegar að því kemur. Og ég skal segja af hverju.
    Við stöndum líklega frammi fyrir stærstu ákvörðun sem við höfum þurft að taka og varðar sjálfstæði landsins, hvernig við eigum að nálgast Efnahagsbandalag Evrópu. Spurningin er nú hvorki meiri né minni. Okkur er nauðsynlegt að ganga hægt um gleðinnar dyr, vega og meta kostina og gallana sem okkur bjóðast, gefa okkur góðan tíma. Við þurfum að stilla þessu upp sem einföldu reikningsdæmi, debet og kredit. Spurningin er einföld þó að svarið sé í rauninni flókið. Hvað græðum við og hverju töpum við?
    Til þess að meta þessa stöðu þarf aðgát og varfærni og ég held umfram allt hreinskilni. Við okkur blasir í fyrsta lagi að taka ákvörðun um hvort við viljum frjáls vöruviðskipti. Hvað fáum við og hvað látum við af hendi? Þurfum við að afsala okkur fiskinum í sjónum? Þurfum við, almenningur á Íslandi, í rauninni að velta vöngum yfir því? Erum við ekki þegar búnir að afhenda hann fáeinum útgerðarmönnum sem versla með hann sín á milli áður en þeir flytja hann úr landi? Er kannski mikill munur á því að selja fiskinn í sjónum beint til útlanda heldur en fara þessa leið með hann? Þetta er eitt af því sem við þurfum að velta fyrir okkur. Við kaupum hvort sem er skipin okkar öll að utan. Við smíðum þau ekki hér heima. Munum við kannski loks opna landið fyrir ódýrum og innfluttum landbúnaðarafurðum? Við þurfum að velta því fyrir okkur líka. Verða gerðar kröfur til þess að við flytjum inn landbúnaðarafurðir?
    Fríverslun er góð og gild og alls góðs makleg svo lengi sem hún er fríverslun, en ef hún leiðir til tollabandalags, þá er víglínan breytt og við töpum strax réttindum og möguleikum til þess að versla við þriðja aðila. Þetta er nánast kjarni málsins.
    Í öðru lagi stöndum við frammi fyrir frjálsu fjármagni á milli landa. Og hvað þýðir það? Mun landið fyllast af útlenskum peningum? Verður meiri ásókn útlendinga hingað með peninga? Eða munu margir Íslendingar láta gamlan draum rætast og flytjast til sólarlanda með sína peninga? Flytjast út með sinn höfuðstól? Þetta eru hlutir sem við þurfum að velta fyrir okkur. Hvað gerist?
    Hvað með vexti og skatta af vöxtum? Hvað með sjálfan virðisaukaskattinn? Í löndunum í Evrópu er mun lægri virðisaukaskattur. Þetta þýðir þá að ef virðisaukaskatturinn verður kominn á, þá verðum við að samræma hann og lækka hann sem út af fyrir sig hlýtur að vera gleðiefni. Hvað með hið sameiginlega myntkerfi sem er til umræðu í Evrópu? Þýðir þetta að við verðum að láta krónuna okkar fyrir róða?
    En einn plús sé ég strax í þessu samstarfi. Og hann er sá að frelsið með peninga, að frjálsir peningar munu ganga af vísitölunni dauðri og það eitt út af fyrir sig er þess virði að íhuga nánar. Og annar kostur blasir við. Samstarf við önnur Evrópuríki kallar á

gjörbreytta peningastefnu, gjörbreytt vinnubrögð. Við verðum þá að halda okkur á svipuðu plani og aðrar þjóðir ef við ætlum að geta gengið til samstarfs við þær. Það út af fyrir sig er stór kostur og ómaksins vert, þó það væri ekki út af öðru, að velta því nánar fyrir sér.
    Í þriðja lagi stöndum við frammi fyrir frjálsri búsetu og atvinnu. Það má aftur spyrja: Er hættan á að Ísland tæmist af Íslendingum? Að Íslendingar leiti til annarra landa til að freista gæfunnar eftir að hafa búið við það efnahagslíf og það atvinnulíf sem hér hefur verið árum saman, þær sveiflur og það öryggisleysi? Mun hinn stóri atvinnumarkaður Evrópu freista manna? Að Íslendingar fari hópum saman yfir á meginlandið að freista gæfunnar? Eða mun Evrópumarkaðurinn með sínum samningum við önnur fjarlæg lönd verða til þess að hingað streymi fólk af öðru bergi brotið en við Íslendingar, fólk með allt annan hugsunarhátt? Nú er út af fyrir sig ekkert við
blóðblöndun að segja, hún er nauðsynleg og æskileg. En 250 þúsund manna þjóð er óhætt að ganga hægt um gleðinnar dyr í þeim efnum. Hún þolir ekki marga tugi þúsunda af fólki úr fjarlægum löndum án þess að það bitni á þjóðareinkennum. Þetta er mál sem lítið hefur verið rætt, en fullkomin ástæða er til að ræða af hreinskilni. Erum við að hætta því að þjóðareinkenni okkar afmáist smátt og smátt eins og er að gerast í hinni stóru veröld sem alltaf er að ná meira og meira saman. Síðasta dæmið hér að heiman er það að við erum að leggja niður gamla góða bílnúmerakerfið. Það er eitt séreinkenni þjóðarinnar sem ég hef alltaf verið hrifinn af. Við skulum bara velta því fyrir okkur og við skulum ræða það opinskátt. Getum við átt það á hættu að hingað streymi fólk tugþúsundum saman þó að menn sjái það ekki fyrir í dag? Því hér er þó þrátt fyrir allt ýmislegt að sækja. Hér getur fólki liðið vel. Þetta þurfum við að ræða án öfga.
    Og það eru fleiri spurningar. EFTA-löndin eru ein heild í dag. En hvernig munu þau ganga til samninga? Munu þau semja sem ein heild við EB eða mun verða samið við hvert land fyrir sig? Þetta er stórt mál fyrir litla þjóð. Leiða samningar EFTA-ríkjanna við EB til samruna þjóðanna seinna? Flýta þeir fyrir
slíkum samruna?
    Í dag er allt of snemmt að taka ákvörðun um þetta mál. En við stöndum frammi fyrir valkostum áður en langt um líður því að auðvitað eru valkostir og sá á kvölina sem á völina. Við eigum t.d. um einn annan kost að ræða. Við getum mótað okkur sérstöðu og boðið upp á eitthvað af því sem aðrar Evrópuþjóðir eru núna að láta af hendi við það að ganga í eina sæng. Við getum t.d. komið hér upp á Íslandi okkar eigin fríverslunarsvæði með peninga, verslað með peninga, með tölvutækninni án þess að peningarnir komi inn í sjálft efnahagskerfi landsins. Við getum boðið upp á peningageymslu hér. Við eigum marga möguleika á því sviði, sérstaklega þar sem lokast fyrir þá möguleika hjá þeim Evrópuþjóðum sem boðið hafa upp á þessa þjónustu ef samningar verða um stórt Evrópufríríki. Þarna er möguleiki. Við eigum líka

möguleika á fríverslunarsvæði með vörur í tengslum við Keflavíkurflugvöll og væntanlegan varaflugvöll. Við getum verslað á báða bóga, við getum haft hér heimsmiðstöð. Við erum það vel í sveit sett.
    Við megum ekki einblína á Vestur-Evrópu. Við getum auðveldlega horft til Asíu, til Vesturheims, til Afríku og síðast en ekki síst til Austur-Evrópu, en þar eru nú að gerast merkilegir hlutir eins og allir vita. Járntjaldið er að hrynja. Það er alls staðar að hrynja nema ef vera skyldi á Neskaupstað. Við okkur blasir að versla við Austur-Evrópu því að fólkið í Austur-Evrópu mun krefjast sömu lífskjara og eru annars staðar á Vesturlöndum. Það mun sækjast eftir erlendri efnahagsaðstoð og síðbúinni Marshall-aðstoð. Þar verður mikill markaður í framtíðinni.
    Við megum ekki gleyma því. Við getum reynt að skapa okkur sérstöðu hér í Atlantshafi og verslað á báða bóga, samið við bandalög, samið við aðrar þjóðir, samið við Japani. Við þurfum ekki svo mikil alþjóðleg viðskipti fyrir jafnlitla þjóð. Við erum það fámenn. 250 þúsund manns þurfa ekki stóra peninga til þess að öllum líði vel. Við skulum taka okkur önnur smáríki til fyrirmyndar þar sem skattar eru allt niður í 4% og búið. Við skulum ekki einblína á risaveldin. Við erum bara af allt annarri stærðargráðu. Það eru ótal dæmi um lítil ríki um allan heim sem kunna að nota sér smæð sína því að smæðin getur verið risavaxin ef rétt er á henni haldið.
    Við getum auðveldlega látið peningana vinna með okkur í eitt skipti. Við höfum hingað til unnið fyrir peningum og Íslendingar hafa ekki talið það eftir sér. En það er allt í lagi að láta peningana aðeins hjálpa til og vinna svolítið fyrir okkur. Ég gæti trúað að þessi þjóð hafi vel fyrir því unnið. A.m.k. er vinnudagurinn með því lengsta sem þekkist. Fríríkið Evrópa er vissulega ekki eini kosturinn sem við okkur blasir.
    Þá óttast ég einna mest að allt of margir stjórnmálamenn líti á Evrópuríki sem þægilega lausn sem kemur svona af sjálfu sér. Að þeir þurfi ekki að hafa neina sérstaka skoðun á því eða taka ákvörðun, þjóðirnar bara renni inn í þetta fríríki og þannig sé það best. Þá þurfum við ekkert að rífast um þetta lengur, ekkert að deila, ekkert að skoða þetta nánar, ekkert að hafa fyrir því að kynna okkur þetta mál. Þetta bara kemur allt af sjálfu sér og við því er ekkert að segja. Þetta er þægilegasta lausnin. Þetta sé eiginlega einfaldasta lausnin fyrir íslenskt þjóðfélag því þar eru helst ekki teknar neinar ákvarðanir. Ég óttast að einhver svona viðhorf eigi eftir að móta stefnuna hjá okkur og jafnvel ráða ferðinni.
    Hæstv. forseti. Þingmenn hafa oft á orði að hér sé um pólitískt mál að ræða. Það er rangt. Sennilega er það sagt til þess að leggja á það áherslu að þeir einir eigi að fjalla um þetta, að það sé þingmanna og stjórnmálamanna að taka þessa ákvörðun. Það sé ráðherranna að móta stefnuna og okkar þingmanna og annarra stjórnmálamanna að taka undir. Að mínu mati nær ekki nokkurri átt að stjórnmálamenn einir fái að ráða ferðinni í þessu stóra máli. Þetta er efnahagslegt

mál en ekki pólitískt mál í þeim skilningi. Þó að efnahagsmál séu að sjálfsögðu stjórnmál, þá er þetta fyrst og fremst efnahagslegt mál sem varðar alla þegnana. Þess vegna á öll þjóðin að greiða atkvæði um þetta mál. Við þurfum þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Það eru bæjar- og sveitarstjórnarkosningar í vor og næsta sumar á eftir verður væntanlega kosið til Alþingis og hugsanlega fyrr. Þangað til hlýtur það að vera hlutverk Alþingis að upplýsa þjóðina betur um hvað þetta mál snýst því að eins og fram hefur komið verða því miður allt of margir Íslendingar sem hafa ekki einhverra hluta vegna kynnt sér eðli málsins og hvað þá brotið það til mergjar. En það hlýtur að vera hlutverk Alþingis að hafa forgöngu um að kynna þjóðinni málið, leggja allar staðreyndir fyrir hana, rekja gang mála í þessum könnunarviðræðum sem núna eru. Og ef við tökum þá ákvörðun að ganga til samninga, þá að sjá til þess að fréttir berist jafnóðum þannig að hvert einasta mannsbarn í landinu geti fylgst með málum og tekið sína eigin ákvörðun á hlutlausan hátt.
    En við skulum ekki ganga tómhent til samninga. Við skulum ganga með þá hótun á lofti að við getum vel hugsað okkur að mynda okkar eigið fríríki þar sem við nýtum okkur smæð okkar og nýtum okkur legu landsins, nýtum okkur þá möguleika
að reka héðan fríverslun með peninga, fríverslun með vörur og versla við alla þá sem vilja við okkur versla. Við skulum ganga til samninga með það að vopni. Og þegar valkostirnir eru orðnir skýrir, þá skulum við bera þá undir atkvæði, atkvæði þjóðarinnar. Aðrir geta ekki tekið ákvörðun í þessu máli.