Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár vegna vinnubragða ríkisstjórnarinnar við undirbúning þess að virðisaukaskattur verði tekinn upp um áramót. Forsaga málsins er sú að milliþinganefnd var skipuð sl. vor undir forsæti fjmrh. svo fulltrúar stjórnarandstöðunnar gætu fylgst með undirbúningi málsins og komið athugasemdum sínum á framfæri til að auðvelda og flýta fyrir meðferð málsins á Alþingi. Í upphafi virtist fjmrh. vilja rækta þetta samstarf en sá vilji hefur reynst endasleppur. Síðustu vikur hefur fulltrúum stjórnarandstöðunnar ekki gefist kostur á að fylgjast með framvindu málsins og tólfunum kastaði sl. miðvikudag þegar fjölmiðlar virtust hafa aðgang að frumvarpsdrögum fjmrh. sem haldið var leyndum fyrir fulltrúum stjórnarandstöðunnar í milliþinganefndinni. Slík vinnubrögð eru forkastanleg á síðasta stigi málsins. Ærlegra hefði verið að láta skipan milliþinganefndarinnar vera úr því að aldrei stóð til að hafa samráð og samvinnu við fulltrúa stjórnarandstöðunnar um lokafrágang málsins. Þessi vinnubrögð munu að sjálfsögðu tefja fyrir afgreiðslu málsins á Alþingi.
    Í sjónvarpsþætti sl. miðvikudag, þar sem frumvarpsdrög fjmrh. voru kynnt, komu fram misvísandi upplýsingar og í sumum greinum rangar. Það er rangt að ég hafi á fundi milliþinganefndar sett fram tillögu um það fyrir hönd Sjálfstfl. að virðisaukaskattur yrði 25% eins og hæstv. fjmrh. lét í veðri vaka. Ég skýrði honum frá því á fundum nefndarinnar að við legðum til 22% virðisaukaskatt. Það er rangt hjá hæstv. fjmrh. að 26% virðisaukaskattur skili minni tekjum í ríkissjóð en 25% söluskattur. Það er rangt hjá hæstv. fjmrh. að staðið hafi verið við áætlun um undirbúning virðisaukaskatts. Þvert á móti fór vinnan við undirbúning virðisaukaskattsins úr böndunum þannig að útgáfa reglugerða er á síðustu stundu til ómælds óhagræðis fyrir fyrirtækin og fólkið í landinu. En þessi seinagangur skýrist af því að stjórnarflokkarnir hafa ekki komið sér saman um ýmis grundvallaratriði við framkvæmd virðisaukaskatts.