Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Feluleikur hæstv. fjmrh. í virðisaukaskattinum er með eindæmum og minnir helst á vinnubrögð félaga hans í föllnum ríkisstjórnum austantjalds. Milliþinganefndin hefur að stórum hluta verið sniðgengin nú undanfarið. Stjórnarandstaðan hefur ekki nema takmarkaðar upplýsingar undir höndum um ýmis mikilvæg atriði sem þetta mál varða, hvað þá þeir aðilar sem þessi kerfisbreyting kemur til með að mæða á. Og því spyr ég hæstv. fjmrh.: Hvað er hann að fela? Eða er svo mikill ágreiningur í ríkisstjórnarflokkunum um ýmis veigamikil atriði, svo sem matarskattinn, að hann þori ekki að leggja frv. fram hér á Alþingi af ótta við að þetta getuleysisbandalag, eins og ríkisstjórnin er nú kölluð, klofni í frumeindir sínar og efna verði til nýrra kosninga?
    Frjálslyndi hægriflokkurinn mótmælir vinnubrögðum hæstv. fjmrh. við undirbúning og kynningu virðisaukaskattsins. Stjórnarandstaðan krefst þess að hafa a.m.k. sama aðgang að reglugerðum og tillögum um virðisaukaskattinn og fjölmiðlar. Það er lágmarkskurteisi við þm. sem hér eru kosnir. 26% virðisaukaskattur er enn fremur nánast ögrun við alþýðu þessa lands til viðbótar við þá skattpíningu sem hæstv. fjmrh. hefur þegar lagt á almenning í landinu. Það er því krafa að það verði lagt sem allra fyrst fram frv. til laga um virðisaukaskatt og það verði hreinar línur um það hvert skattþrepið á að vera og sérstaklega komi það fram varðandi matarskattinn. Við krefjumst þess, Frjálslyndi hægriflokkurinn, að fá allar upplýsingar þegar í stað um málið.