Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda frumkvæði hans í þessu máli, en sú staða sem upp er komin um þessa milliþinganefnd er enn eitt dæmið um hroka og valdníðslu og að sjálfsögðu tvískinnung. Hvers vegna er verið að skipa hér nefndir án þess að láta fara þar fram eðlileg skoðanaskipti og málefnavinnu sem nefndum sem þessum er ætluð? Það hefur sýnt sig að eins er ástatt um virðisaukaskattinn og gildistöku laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem hér var rædd í gær. Undirbúningur er mjög skammt á veg kominn og þetta dynur yfir landsmenn að því að sagt er eftir nokkrar vikur og án þess að búið sé að ganga frá fjölmörgum lausum endum.
    Ég vil aðeins minnast á það hér og nú vegna þess að hér hefur farið mikil umræða fram um söluskatt í blöðum og milli stjórnarflokkanna undanfarna daga að Alþfl. mótmælti harðlega í upphafi þegar lagt var fram frv. á árinu 1986. Sama gerði Alþb. Það taldi að skatturinn kæmi illa niður á lágtekjufólki. Og hvað skyldi verða nú eins og ástandið er í þjóðfélaginu? Ég ætla ekki að rifja upp umræðuna sem varð hér 1987, en vil aðeins minnast á það að margir Reykvíkingar muna eftir ,,karlinum á kassanum`` sem boðaði trúna af hugsjón og sannfæringu. Margir minntust hans er þeir sáu núv. hæstv. fjmrh. uppi á kassa í Miklagarði þar sem hann hafði uppi stór orð gegn matarskattinum og mótmælti kröftuglega. Nú spyrja menn sig: Hvar er sannfæring hans og hver var hugsjónin? Hvernig má vera að sami maður sem nú er í þeirri stöðu að geta afnumið þennan óréttláta skatt á nauðþurftir fólks, þverskallast við að hugleiða þann möguleika og hefur ekkert samráð? Það er undarlegt að verða vitni að því hvað hann er áfram um að koma þessum skatti á upp á sitt eindæmi.