Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Virðulegi forseti. Þó að ég vilji leggja áherslu á það að ég held að fulltrúar fjmrn. og þeir embættismenn sem þar vinna séu á fullri ferð við að undirbúa tilkomu virðisaukaskattsins, þá verð ég að taka hér undir að hluta gagnrýni stjórnarandstöðunnar á undirbúning þessa máls. Það hefur legið ljóst fyrir nú í fleiri vikur að sífellt stærri hluti þm. vill skoða það í botn að það verði tvö þrep á virðisaukaskattinum á lokastigi. Þess vegna hafa það orðið mér mjög mikil vonbrigði að þegar gengið er á embættismenn fjmrn. kemur í ljós að það hefur ekki verið kannað, það hefur ekki verið lögð nein einasta vinna í að kanna hvernig það kæmi út í framkvæmd. Embættismenn fjmrh. segja einfaldlega: Það þýðir sex mánaða undirbúningsvinnu, en þegar spurt er í hverju sú undirbúningsvinna liggur, þá verður fátt um svör. ( Gripið fram í: Þeim er ekki falið að kanna það einu sinni.) Þeim er ekki falið að kanna það einu sinni.
    Ég ætla að upplýsa hér það sem kannski margir vita af að nú í morgun, laust fyrir hádegi, héldu Stéttarsamband bænda, Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Neytendasamtökin sameiginlegan blaðamannafund. Þar lýstu þau yfir mjög ákveðinni skoðun sinni á þessu máli í þá veru að það beri að vera tvö stig á lokaþrepi skattsins.
    Þetta eru þau efnisatriði sem ég vil koma hér fram og ég treysti því enn þá að fjmrh. láti fara fram þá vinnu og láti kanna á hvern hátt þessu verði komið við, þessum meirihlutavilja þjóðarinnar og ég vil fullyrða miklum meirihlutavilja þingheims.