Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir gagnrýni á vinnubrögð við undirbúning þessarar kerfisbreytingar. Hún er ein af mörgum sem á að steypa yfir þjóðina án þess að undirbúningur hafi verið nógu mikill, án þess að gengið hafi verið nægilega vel frá málum til að breytingin verði sem átakaminnst og skilji eftir sig sem minnstan slóða mistaka sem þarf að leysa síðar.
    Ég vil enn og aftur vekja athygli hæstv. fjmrh. á þeim skilaboðum, sem hann hlýtur sjálfur að hafa fengið frá þjóðinni og Kvennalistinn fékk vissulega í sumar, að matarskatturinn er afar íþyngjandi fyrir venjulegt launafólk á Íslandi. Svo íþyngjandi að það finnur verulega fyrir honum. Í undirbúningi síðustu stiga, eins og hann greindi frá áðan, þar sem er verið að ákveða veigamikla þætti eins og t.d. þá sem varða matarskatt --- og fegnastar yrðum við kvennalistakonur ef hann yrði afnuminn og réttlátast væri að taka hann af. Ef á að gera á honum einhverjar breytingar þá verður að hafa stjórnarandstöðuna með í því máli. Vitanlega á Alþingi allt að taka um það ákvarðanir. Ég vek athygli hæstv. ráðherra á nýjum niðurstöðum úr könnun Félagsvísindastofnunar þar sem segir að fjölskyldutekjur hafi rýrnað um 6% á einu ári og kaupmáttur teknanna hafi rýrnað um 9%. Ég tel það mjög alvarlegt ef síðan á að fara að bæta við einum hæsta virðisaukaskatti í Evrópu og þar á ofan matarskatti sem flestar þjóðir hafa ekki valið að hafa með þessum hætti. Einmitt vegna þess hve illa það kemur við daglegan heimilisrekstur venjulegs fólks, svo ég tali ekki um láglaunafjölskyldur og barnmargar fjölskyldur.