Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi minna á það og virðist ekki vera vanþörf á að það voru Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. sem stóðu að samþykkt þeirra laga að hafa hér virðisaukaskatt í einu þrepi. Ég segi þetta vegna ummæla þingmanns Framsfl. hér áðan.
    Í júlí og ágústmánuði sl. lagði ég fyrir ríkisstjórnina tillögur um málamiðlun milli þeirra sjónarmiða að hafa virðisaukaskatt í einu þrepi og að hafa virðisaukaskatt í tveimur þrepum og ég tilkynnti ríkisstjórninni þá að ef menn ætluðu að hafa virðisaukaskatt í tveimur þrepum yrði að taka þá ákvörðun í ágúst eða í síðasta lagi í byrjun septembermánaðar ef skatturinn ætti að taka gildi um næstu áramót. Niðurstaðan í ríkisstjórninni, það málamiðlunarsamkomulag sem flokkarnir stóðu allir að, varð það að virðisaukaskatturinn yrði í einu þrepi, síðan yrði beitt sérstöku endurgreiðslukerfi innan virðisaukaskattsins til þess að lækka verðlag á matvælum, nokkrum algengum innlendum matvælum, í samræmi við að á þeim væri 13% lægra þrep. Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna eru búnir að hafa drög að reglugerð um þessa framkvæmd og lýsingu á henni í sínum höndum í einn og hálfan mánuð. Það er undarlegt að hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir skuli standa hér upp og segja að stjórnarandstaðan hafi ekkert fengið að heyra um þá framkvæmd vegna þess að það er rúmur mánuður síðan fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna fengu í sínar hendur lýsingu á því hvernig það ætti að framkvæma.
    Ég bið menn nú að haga málflutningi sínum þannig að hann sé í samræmi við staðreyndir málsins og þróun.
    Það er líka ljóst að skv. þessum tillögum mun verð á neyslumjólk og hliðstæðum mjólkurvörum lækka um 10% í byrjun janúar. Verð á dilkakjöti, ýmist unnum kjötvörum eða dilkakjöti í heilum og hálfum skrokkum, mun lækka frá 5% og upp í 10% í fyrstu viku janúarmánaðar. Það er líka ljóst að verð á fiski á skv. þessum tillögum að geta lækkað um 10% í fyrstu viku janúarmánaðar og verð á fersku innlendu grænmeti á einnig að geta lækkað um 10% í fyrstu viku janúarmánaðar. Það er þess vegna ljóst að þær virðisaukaskattstillögur sem gerðar hafa verið á vettvangi ríkisstjórnarinnar og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna eru búnir að hafa í sínum höndum í rúman mánuð fela í sér allnokkra verðlækkun á þessum matvælum í upphafi ársins. Menn geta eðlilega óskað eftir því að þær verðlækkanir væru meiri, að þær næðu til fleiri tegunda. Þá umræðu er sjálfsagt að láta fara fram hér. En við skulum ekki ræða málið eins og það liggi ekki nú þegar ljóst fyrir eða hafi ekki legið ljóst fyrir í langan tíma að það verður verðlækkun hér á matvælum með tilkomu virðisaukaskattsins vegna þess að skattlagning matvæla mun breytast með tilkomu virðisaukaskattsins.
    Það er auðvitað líka alveg ljóst að eigi að taka ákvörðun um virðisaukaskatt í tveimur eða fleiri

þrepum þarf umtalsverða breytingu á lögunum sjálfum og á framkvæmdinni og þarf allnokkurn tíma til að undirbúa það. Þetta bið ég nú fulltrúa þeirra flokka sem hér hafa talað í umræðunum, flokka sem hafa hér á Alþingi staðið að lagasetningu um virðisaukaskatt í einu þrepi, að hugleiða í fullri vinsemd.