Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Við höfum hér fengið ábendingar hæstv. fjmrh. um að best sé að fjalla um þetta mál sem önnur með því að hafa staðreyndirnar í heiðri. Þá er það lágmarkskrafa til þessa hæstv. ráðherra að hann hvorki halli réttu máli né beri fram óljósar staðhæfingar sem staðreyndir sem eiga svo að vera rök fyrir máli hans. Það er auðvitað rangt að Sjálfstfl. hafi samþykkt eða gefið þá yfirlýsingu nú í sumar að það ætti að vera 25% virðisaukaskattur og auk þess hallaði ráðherrann réttu máli þegar hann sleppti því að geta þess að það var krafa formanns Sjálfstfl. fyrir stjórnarslitin í fyrra að virðisaukaskatturinn væri í tveimur þrepum. Rétt var það að hann beitti sér fyrir því ásamt öðrum þáv. stjórnarsinnum að það væri aðeins eitt þrep vegna hagræðisins sem fælist í því en á þeim umþóttunartíma sem leið fram að því að stjórnarslit urðu þá sannfærðust bæði hæstv. forsrh. sem og Sjálfstfl. um það að það bæri, vegna kjara heimilanna í landinu, að hafa virðisaukaskattinn í tveimur þrepum. Þetta m.a. var ein af þeim ástæðum sem ollu því að núv. ríkisstjórn varð til. Það var ekki vegna þess að ljóst væri að hæstv. núv. fjmrh. og formaður Alþb., sem beitti sér gegn virðisaukaskatti í einu þrepi, hefði skipt um skoðun, þó að svo væri látið í veðri vaka, heldur var þá einfaldlega búið að semja um stofnun þessarar ríkisstjórnar sem nú situr og keppist við að skerða kjör fólksins í landinu. Og þess vegna spyr ég, þegar hæstv. ráðherra segir að það verði vitanlega séð um það að verð á matvælum lækki m.a. með því að sérstakt endurgreiðslufyrirkomulag verði haft við í þessu skyni. Ég tel að við eigum fullan rétt á því að vita hvers konar endurgreiðslufyrirkomulag það er sem skilar sér til neytendanna á sama hátt og yrði ef skatturinn væri lægri. Mér þykir alveg lágmarkskrafa að við fáum að vita þetta. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að koma þessu svo fyrir?