Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að gera örstutta athugasemd.
    Við skulum fyrst fara rækilega yfir fréttaflutning fjölmiðla í sumar og haust af skoðunum og yfirlýsingum Sjálfstfl. áður en við fullyrðum það hér að ekki hafi komið fram af hálfu talsmanna Sjálfstfl. í sumar eða haust að Sjálfstfl. vildi 25% virðisaukaskatt og 15% lægri á matvælum. Það mun ég skoða rækilega. Komi í ljós að það sé misminni hjá mér þá er alveg velkomið að biðjast afsökunar á því. En fyrr en ég er búinn að fara rækilega í gegnum blöð og fjölmiðla frá þessum tíma þá ætla ég ekki að fullyrða hér og nú eins og hér hefur verið gert að þetta sé rangt. Ég hef þetta í mínu minni og við skulum skoða gögnin áður en dómur er felldur. Ég skil hins vegar að þetta sé mikið viðkvæmnismál hjá Sjálfstfl. í dag ef hann hefur í sumar ályktað um annað.
    Það er líka rangt að í fjmrn. hafi ekki verið skoðað mjög rækilega hvað fælist í tveggja þrepa virðisaukaskatti. Það var skoðað í sumar, það var farið yfir það hvers konar breytingar þyrfti að gera og hvaða tíma þyrfti til þess og eins og ég sagði hér áðan þá var ljóst að þá ákvörðun hefði þurft að taka í ágúst og septembermánuði ef slíkur skattur ætti að koma til framkvæmda um áramótin.
    Ég vil svo einnig geta þess hér að athuganir sem hafa farið fram í fjmrn. sýna það að með upptöku virðisaukaskattsins um næstu áramót mun framfærsluvísitalan lækka eða hækka minna en ella hefði orðið vegna virðisaukaskattsins sjálfs, þannig að þær fullyrðingar sem hér hafa verið settar fram um að virðisaukaskatturinn sem slíkur muni hækka almennt verðlag í landinu eru rangar. Almennt verðlag í landinu mun lækka u.þ.b. 0,5--1%, kannski 1,5%, með tilkomu virðisaukaskattsins og vegna hans sérstaklega. Við skulum hafa það sem réttara er í þessum efnum, um nóg annað er nú að tala.