Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég verð því miður að árétta hér aftur nokkra hluti sem ég var með í fyrri ræðu minni. Það er fyrst að það er alveg rétt að Framsfl., ásamt þeim sem voru í stjórn, stóð að því að setja söluskatt á öll matvæli þegar það var gert. Ég varði þá ákvörðun þá. Reynslan hefur hins vegar kennt mér að það var röng ákvörðun. Og þegar reynslan kennir okkur slíka hluti þá eigum við að læra af henni. Þetta var að mörgu leyti rangt.
    Og bara í mestu vinsemd, hæstv. fjmrh., varðandi það að engin könnun hafi farið fram, þá hef ég ekkert annað fyrir því en orð tveggja háttsettra embættismanna á þingflokksfundi okkar framsóknarmanna.
    Ég vil líka benda fjmrh. á það í mestu vinsemd að skoða nú þau drög að endurgreiðslureglugerð sem fyrir okkur liggur. Þegar framsóknarmenn féllust á að ná lægra þrepinu með því að greiða þetta niður, um 13% á vinnslustigi, þá sáu menn ekki fyrir framkvæmdina á því. Ég þekki verðlagskerfi landbúnaðarins kannski betur en margir aðrir sem hér eru inni, þannig að ég var fljótur að átta mig á því hvað fólst í þessum reglugerðardrögum. Ég ætla bara að benda á eitt atriði: Ég vil sjá framan í þann fjmrh. sem gengur lengra en að greiða mjólk niður í 13% virðisaukaskatt eins og stendur í því sem fyrir okkur liggur núna. Ég vil sjá þann fjmrh. Það gæti gerst að í einhverja mánuði eftir næstu áramót yrði lækkunin meiri meðan þær niðurgreiðslur sem nú eru í gildi að krónutölu eru að núllast út. Síðan stæðu bara 13% eftir. Ég vil líka benda fjmrh. á annað, varðandi verð á hvítu kjöti og svínakjöti. Þegar menn segja: Það á að lækka það með því að endurgreiða grunngjaldið á fóðurbætisgjaldinu --- er þess að gæta að það er allt saman endurgreitt í dag þannig að með því verður ekki lækkað verð á þessu kjöti.