Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur gefið hér og hans samstarfsmönnum og vil lýsa því yfir að ég er í öllum atriðum sammála þeirri málsmeðferð sem hér hefur verið viðhöfð en kemst þó ekki hjá því að gera að umtalsefni það atriði sem hefur sterklega komið fram í umræðunum, þ.e. að nú skuli farið fram á tvíhliða viðræður við Efnahagsbandalagið.
    Mér hefur fundist í þeim umræðum sem hafa farið fram að hér væri eins og um alveg nýtt mál væri að ræða og það væri eitthvað sem mönnum hefði dottið í hug núna allra síðustu daga. Svo er að sjálfsögðu alls ekki og vildi ég benda hv. þingmönnum á að lesa greinargerð um það mál í því riti sem nefndin, sem fjallar um málefni Evrópubandalagsins á vegum Alþingis Íslendinga, hefur gefið út þar sem er rakið lið fyrir lið með hvaða hætti samskiptin við Efnahagsbandalagið hafa verið. Öll þessi samskipti hafa miðað að því að ná tvíhliða samkomulagi um hin ýmsu mál við Efnahagsbandalag Evrópu. Það hefur tekist í einstaka tilvikum, þó að sjálfsögðu aðallega að því er varðar bókun 6. En síðan hafa átt sér stað viðræður við Efnahagsbandalagið á hinum ýmsu stigum í því skyni að ná fram samningum milli Íslands og Efnahagsbandalagsins um þau mál sem mestu skipta.
    Ég er þeirrar skoðunar að á einhverju stigi þessa máls hljóti að koma til tvíhliða viðræðna. Ég er hins vegar sammála hæstv. utanrrh. um það að hér er ekki um val að ræða heldur hvort tveggja. Það er ekki í okkar valdi að ákveða á hvaða stigi það verður.
    Hins vegar verð ég að segja það alveg eins og er að mér kemur það nokkuð á óvart að talsmenn Sjálfstfl. skuli hafa jafnmikinn áhuga fyrir tvíhliða viðræðum nú miðað við þann málflutning sem var t.d. á sl. ári, en þá talaði hér m.a. hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og gerði mjög lítið úr því að það ættu sér stað viðræður við Efnahagsbandalagið og mátti helst skilja á honum að þær ættu alls ekki að fara fram því að hv. þm. reyndi að gera lítið úr því þegar var verið að tala um hinn svokallaða díalóg sem löngu er ákveðið að fari fram milli Íslands og Efnahagsbandalagsins. Hv. þm. kallaði það rabb og taldi svo sem sjálfsagt að rabba við þessa menn. Núna á þetta rabb hins vegar að breytast í tvíhliða viðræður. Þetta eru út af fyrir sig mjög merkileg sinnaskipti, en ég átti satt best að segja von á því að hv. þm. gerði þá grein fyrir því með hvaða hætti þessar tvíhliða viðræður skyldu upp teknar og hver ætti að vera grundvöllur þeirra. Því að ég veit að hv. þm. er það vel ljóst af hverju þessar ... (Gripið fram í.) Ég er að vitna í ummæli hv. þm. frá sl. ári þar sem hann gerði þetta að umtalsefni. Hann tók það nú að vísu fram að sá aðili sem hann hefði talað við hefði verið kona --- hann tók það sérstaklega fram. ,,Það var nú reyndar kvenmaður,,, sagði hv. þm., hvað svo sem hann átti við með því.
    Hv. þm. veit það jafn vel og allir hér inni af

hverju þessar tvíhliða viðræður sem menn hafa verið að þreifa á í gegnum árin hafa ekki getað orðið að veruleika. Það er vegna þess að Efnahagsbandalagið hefur verið með þá kröfu að í stað frekari tollívilnana hjá bandalaginu komi aðgangur að fiskveiðiauðlindum hér á Íslandi. ( EKJ: Hvar er sú krafa sett fram?) Ég held að hv. þm. ætti að lesa eitthvað af þeim ritum sem hafa verið gefin út um þessi mál og líta á þær kröfur í gegnum tíðina sem koma greinilega fram í öllum þessum skýrslum. Og ég held að hv. þm. ætti líka að lesa drög að samkomulagi milli Íslands og Efnahagsbandalagsins sem eru til frá árinu 1980 eða 1981 og fjalla um tvíhliða samkomulag milli Íslands og Efnahagsbandalagsins á sviði sjávarútvegsmála. Þetta eru gögn sem liggja fyrir og það er náttúrlega leitt til þess að vita að því skuli vera haldið fram af hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni að slíkt sé ekki uppi á borðinu og það sé ekki verið að gera neinar slíkar kröfur. Það er eiginlega með ólíkindum að þingmaður sem hefur verið formaður utanrmn. þingsins skuli halda slíku fram því það er ekkert annað en blekkingar.
    En hvað um það, það er að sjálfsögðu rétt að það er nauðsynlegt á einhverju stigi að taka þessi mál upp og það er að sjálfsögðu verið að því. Og með hvaða hætti er verið að vinna að því? Það er verið að reyna að vinna sjónarmiðum Íslendinga skilning hjá hinum ýmsu þjóðum Efnahagsbandalagsins. Bæði forsvarsmönnum þessara landa, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og jafnframt hef ég sem sjávarútvegsráðherra átt nokkrar viðræður við sjávarútvegsráðherra þessara landa. Og það hefur aldrei verið unnið jafnmikið að þessu máli áður. Það er það sem hv. þm. ætti að vera ljóst, að til þess að skapa skilning fyrir tvíhliða viðræðum er það nauðsynlegt vegna þess að framkvæmdastjórnin í Brussel hefur ávallt haft þessa afstöðu sem ég áðan lýsti, jafnvel þótt hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson virðist ekki hafa gert sér grein fyrir því.
    En það er gott til þess að vita, og ég skil það svo að sú sé nú afstaða Sjálfstfl., hvað svo sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson segir um það, að það beri að leggja áherslu jafnframt á tvíhliða viðræður.
    Ég vil í þessu sambandi vitna í það sem ég sagði fyrir stuttu síðan í ræðu á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna um þessi mál, með leyfi virðulegs forseta, þannig að ljóst sé hvað ég hef sagt um málið opinberlega, jafnvel þótt það hafi ekki vakið mikla athygli þá og enga umræðu. Þar sagði ég m.a.:
    ,,Í mínum huga er ljóst að á einhverju stigi þarf að gera sérstakan samning um sjávarútvegsmál á milli Íslands og Evrópubandalagsins. Samkomulagið verður að byggjast á gagnkvæmum hagsmunum beggja aðila.`` Og nú er ég eingöngu að tala um gagnkvæmt samkomulag á sviði sjávarútvegsmála sem er að mínu mati lykill að því að jafnframt sé hægt að ganga frá samkomulagi á sviði annarra mála. Og þá er spurningin fyrst og fremst sú hvað á að standa í slíkum samningi. Ég sagði m.a.: ,,Í þeim samningi yrði m.a. fjallað um samvinnu á sviði rannsókna og

verndunar fiskistofna. Allar þessar þjóðir eiga mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta að því er varðar rannsóknir og verndun á lífríki hafsins. Þá þarf að setja samræmdar reglur um framboð og gæði á óunnum fiski sem fer til bandalagsins. Loks þarf að semja um sameiginlega stofna og hugsanleg gagnkvæm skipti á veiðiheimildum. Eftir að Grænland yfirgaf Evrópubandalagið er aðeins einn umtalsverður fiskstofn sem er sameiginlegur með Íslandi og bandalaginu. Það er kolmunni. Um nýtingu hans er nauðsynlegt að semja við bandalagið. Ekki virðast miklar líkur á að aðilar telji hagkvæmt að skipta á veiðiheimildum. Í fiskveiðilögsögu Evrópubandalagsins eru allir fiskistofnar ofnýttir og fiskiskipafloti bandalagsríkjanna allt of stór. Hér megum við þó ekki gleyma því að Evrópubandalagið hefur með samningum við Grænlendinga öðlast yfirráð yfir verulegum veiðiheimildum við Austur-Grænland. Í framtíðinni gæti reynst hagkvæmt að skipta við bandalagið á veiðiheimildum úr stofnum sem sameiginlegir eru með okkur og Grænlendingum. Með hliðstæðum hætti hafa Norðmenn samið við bandalagið um skipti á veiði á rækju við Austur-Grænland og botnfiski í Barentshafi. Er ekki nokkur vafi á því að sá samningur hefur verið Norðmönnum mjög hagstæður. Slíkir samningar eru þó varla tímabærir á þessu stigi þegar af þeirri ástæðu að Íslendingar og Grænlendingar eiga ósamið um skiptingu mikilvægra stofna sín í milli. Hér er að sjálfsögðu um viðkvæm mál að ræða, en ekki verður hjá því komist að ræða við Evrópubandalagið um þau. Það er okkur nauðsynlegt að fá sem mest veiðiréttindi úr þeim fiskistofnum sem við eigum sameiginlega með öðrum þjóðum. Við þurfum umfram allt að sýna raunsæi í umfjöllun þessa máls og líta til heildarhagsmuna sjávarútvegsins. Aðalatriðið er að við getum aldrei samþykkt að fyrir aðgang að markaði komi aðgangur að fiskimiðum. Sjávarafurðir eru okkar iðnaðarvörur. Við hljótum að berjast fyrir því að almennar fríverslunarreglur gildi í verslun með þær. Í því felst afnám styrkja og annarra viðskiptahindrana sem koma í veg fyrir eðlilega samkeppni.
    Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það er viðkvæmt mál að tala um gagnkvæmar veiðiheimildir. En ég vil benda hv. þm. á það og öðrum þingmönnum að við höfum samið um nýtingu loðnustofnsins við Grænlendinga og Norðmenn og grundvöllur þess að hægt var að ná því samkomulagi var að fallist var á gagnkvæmar veiðiheimildir. Það er alveg það sama með kolmunnann. En hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson stóð hér fyrir miklu upphlaupi sl. sumar þegar það var nefnt á nafn og vildi fá fund í utanrmn. samstundis út af því máli jafnvel þótt vitað sé að ekki nokkurt skip stundar kolmunnaveiðar hér við Íslandsstrendur.
    Það er að sjálfsögðu gott mál að tala hér um tvíhliða viðræður. En ég held að það sé nauðsynlegt að menn sýni eitthvert raunsæi í því máli og geri það upp við sig um hvað það tvíhliða samkomulag á að fjalla, en það er eitt sem víst er að það mun ekki

eingöngu fjalla um það sem okkur kemur best. Það hefur ekki gengið með þeim hætti ef hv. þm. lesa þessa sögu eins og hún er skráð hér í þessu riti að það sé hægt að reikna með því að það sé allt saman dans á rósum. Hins vegar er það engu að síður nauðsynlegt að ná slíku samkomulagi vegna þeirra miklu tolla- og viðskiptahindrana sem reknar eru innan Efnahagsbandalagsins og það er alveg ljóst að sjávarútvegsstefna bandalagsins byggist á því að vernda hagsmuni fiskimanna og fiskverkafólks innan bandalagsins.
    Ég tel ekki ástæðu til þess, virðulegur forseti, að fjalla mikið frekar um þetta mál. Ég vildi aðeins taka undir það að það er nauðsynlegt að á einhverju stigi þessa máls komi til tvíhliða viðræðna milli Íslands og Efnahagsbandalagsins. Þær umleitanir eru í gangi, hafa ávallt verið í gangi og það er verið að vinna að því af fullum kröftum að reyna að skapa skilning fyrir sérstöðu Íslands í þessu sambandi þó að mér hafi verið sagt að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hafi sagt hér að að sjálfsögðu ætti sjútvrh. landsins alls ekki að standa í því. Menn geta út af fyrir sig haft hvaða skoðun sem er
í þeim efnum. Það er ekki aðalatriðið hverjir gera það heldur að það sé gert. En það verður ekki gert með þeim hætti sem hv. þm. talaði hér áðan af fullkomnu óraunsæi og virðist vera að hann hafi ekki lesið þau plögg sem hafa verið samin á undanförnum mánuðum um þetta mál.