Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu utanrrh. um könnunarviðræður EFTA-ríkja við Evrópubandalagið. Skýrslan varðar viðskipti okkar og tengsl við Evrópubandalagið. Sjálft eðli, hlutverk og tilgangur Evrópubandalagsins setur okkur Íslendinga í sérstakan vanda vegna sérstöðu okkar í hópi fullvalda ríkja. Öll viðskipti okkar við Evrópubandalagið verða að taka mið af þessari staðreynd. En skýrsla utanrrh. sem ég held hér á og við nú ræðum leiðir þetta höfuðatriði um of hjá sér sem er grundvöllurinn sem við höfum á að byggja,
hvort sem við höfum eitthvert samflot við hin EFTA-ríkin eða ekki í samningum við Efnahagsbandalagið. Hæstv. utanrrh. gerði ekki frekar í ræðu sinni í gær en í skýrslunni grein fyrir forsendum sem við þurfum að gefa okkur og vera okkur meðvitandi um í afstöðunni til Evrópubandalagsins. Hæstv. ráðherra er þegar kominn á kaf í framkvæmdaratriði fyrirhugaðra sameiginlegra samninga EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið frekar en að draga sérstaklega fram rökin fyrir því hvort Ísland á samstöðu með hinum eða ekki.
    Málið er vissulega vandasamt. Á öllu veltur að fara með gát, flana ekki að neinu. Þegar lagt er upp í tvísýna ferð hefur löngum þótt skynsamlegt að gá til veðurs, líta til allra átta. Þessi skýrsla hæstv. utanrrh. og framsöguræða hans gefur vissulega ástæðu til þess.
    Höfum í huga að í lok heimsstyrjaldarinnar síðari blasti við Evrópumönnum ófögur sjón. Tvær styrjaldir, sem höfðu átt upptök sín í Evrópu en urðu að heimsstyrjöldum, höfðu leikið Evrópu grátt og skilið hana eftir í flakandi sárum. Margir litu svo á að þessar tvær styrjaldir hefðu verið fyrir þjóðir Evrópu sem borgarastyrjaldir, en þær eru allra styrjalda verstar þar sem bræður berjast.
    Mönnum var ljóst eftir síðari heimsstyrjöldina að staða Evrópu var ekki hin sama og áður. Menn fundu köllun hjá sér til þess að stöðva hnignun glæsilegrar menningar, sem hafði skapað svo mikla tign, fegurð og auð. Menn töldu að leiðin til þess væri að koma á nýrri pólitískri skipan í Evrópu svo að hún mætti á ný skipa sinn rétta sess í heimsmálunum. Þessir menn voru sannfærðir um að framtíðarinnar biðu hinar stóru ríkisheildir. Þeir höfðu í huga að Bandaríki Norður-Ameríku og Sovétríkin voru orðin tvímælalaust forusturíki heimsins í krafti stærðar sinnar.
    Það var þetta ástand og þessar voru þær hugmyndir sem lágu til grundvallar fyrir myndun Evrópuhreyfingarinnar, The European Movement, en það var áhrifamikil nefnd borgara sem átti frumkvæðið að því að Evrópuráðið var stofnað. Það féll í hlut mestu þjóðarleiðtoga og stjórnmálaskörunga Vestur-Evrópu að berjast fyrir þessum hugsjónum og það leiddi til stofnunar Evrópuráðsins.
    Á fyrstu árum Evrópuráðsins kom strax upp sú spurning hvernig aðildarríkin ættu að koma á nánari samstöðu og hvaða form sú samstaða ætti að hafa. Um þetta voru háðar miklar umræður á þingi

Evrópuráðsins og hefur raunar verið svo fram til þessa.
    Tvö andstæð sjónarmið komu strax fram. Í samræmi við upphaflega hugmynd Evrópuhreyfingarinnar voru annars vegar þeir sem lögðu áherslu á stofnun eins konar sambandsríkis eða bandaríki Evrópu. Hins vegar voru þeir sem kusu fremur samvinnu milli sjálfstæðra ríkja. Hér var um djúpstæðan skoðanamun að ræða. Aftur á móti töldu allir stofnun Evrópuráðsins vera mikilvæga og frumlega tilraun til að styrkja einingu Evrópu. Viðfangsefnið var að viðhalda þeirri einingu sem þegar var komið á með stofnun Evrópuráðsins. Það þurfti að vinna að því að þau lönd sem lengst vildu ganga fjarlægðust ekki þau sem skemmra vildu ganga. Þróun Evrópuráðsins hefur mótast af þessari viðleitni. Ráðið hefur því myndað ágætan ramma fyrir evrópska samvinnu.
    En spurningin um stofnun sambandsríkis Evrópu varð fljótt áleitin. Upp úr umræðunum um ríkisstofnun kom fram hugmyndin að evrópsku yfirvaldi með takmörkuðu starfssviði en raunverulegum völdum eða yfirþjóðlegu valdi. Það var í framhaldi af þessu svo sem kunnugt er sem sexveldin stofnuðu Kola- og stálbandalagið með sterku framkvæmdarvaldi á sínu sviði. Og síðan mynduðu sömu ríki Efnahagsbandalag Evrópu með afar víðtæku starfssviði en ekki jafnsterku framkvæmdarvaldi í bili. Jafnframt komu þessi ríki á fót Kjarnorkubandalagi Evrópu með framkvæmdarvaldi á sinn hátt.
    Það sem hér var að gerast var einstakur atburður í sögu sjálfstæðra ríkja. Þessi ríki afsöluðu sér veigamiklum hluta af fullveldi sínu og sögðu sig undir yfirþjóðlegt vald. Þetta er kjarninn í Evrópubandalaginu sem er samheiti þessara þriggja stofnana í dag eins og við gerum okkur grein fyrir. Og þegar við hér á Alþingi ræðum mál sem varða samband okkar Íslendinga við Evrópubandalagið verðum við að ganga út frá þessari tilurð þess.
    Samkvæmt Rómarsáttmálanum er ákveðinn einn sameiginlegur markaður og samhæfing á efnahagsstefnu aðildarríkjanna. Bandalagið á að vera ein efnahagsleg heild líkt og eitt ríki væri. Og hlutverk bandalagsins er ekki einskorðað við efnahagssviðið. Það felur í sér pólitískt samráð. Hinn
efnahagslegi grundvöllur og samruni hefur þann pólitíska tilgang að tryggja frið og náin tengsl aðildarríkjanna. Það er sterkur vilji í ýmsum aðildarríkjum bandalagsins að stíga skrefið til fulls og stofna bandaríki eða sambandsríki Evrópu. En aðrir eru því ósammála og vilja halda sem mest í fullveldi aðildarríkjanna.
    Enn sem áður greinir menn þannig á um hve langt á að ganga í sameiningu Evrópu. Og ekki þarf að minna á að það hefur líka verið ágreiningur og sums staðar mikið deilumál innan þeirra ríkja sem gengið hafa í Evrópubandalagið um réttmæti þess að gerast aðili að bandalaginu. Þar hefur vegið salt afsal fullveldis í efnahagsmálum og hagurinn af yfirþjóðlegu valdi. Þar hefur ekki síst ráðið úrslitum hvernig

væntanleg aðildarríki hafa metið stöðu sína til áhrifa og hagsmunagæslu í bandalaginu eftir efnahagsstöðu sinni, náttúruauðlindum, landfræðilegri stöðu og fólksfjölda.
    Evrópubandalagið hlýtur að varða Ísland miklu þar sem landið tilheyrir Evrópu landfræðilega, sögulega, menningarlega og stjórnmálalega. Samt sem áður hefur það aldrei komið til greina að Ísland sækti um aðild að bandalaginu. Það hefur verið talið útilokað að Ísland gengi í Evrópubandalagið. Allar ríkisstjórnir landsins hafa frá því bandalagið kom til haft þessa stefnu. Það hefur verið samstaða á Alþingi og milli stjórnmálaflokka landsins um þessa afstöðu til Evrópubandalagsins.
    Ástæðurnar fyrir þessu liggja í augum uppi. Við Íslendingar höfum ekki tekið í mál að gangast undir samstjórn í efnahags-, atvinnu- og viðskiptamálum með háþróuðum iðnaðarstórveldum Evrópu. Það jafngilti því að afsala sér alveg yfirráðum í þeim málum sem samstjórnin fjallaði um því að augljóst væri að Íslendingar gætu alls engin áhrif haft vegna smæðar sinnar í stjórn þessa tröllaukna bandalags.
    Við Íslendingar höfum ekki tekið í mál að gangast undir það jarðarmen bandalagsins að opna auðlindir landsins fyrir útlendingum og allra síst þá mikilvægustu, fiskimiðin sem eru grundvöllur velmegunar þjóðarinnar og skapar okkur möguleikann til að halda uppi frjálsu, fullvalda ríki. Við höfum verið okkur þess meðvitandi að þjóðin hefur rétt nýlega heimt sjálfstæði sitt til baka eftir aldalanga kúgun og erlend yfirráð sem höfðu nær riðið henni að fullu. Við Íslendingar höfum aldrei haft það jafngott og nú þegar við höfðum heimt frelsi okkar aftur. Frelsið verður að varðveita. Frelsið er fjöregg þjóðarinnar.
    En afstaðan til Evrópubandalagsins þýðir ekki að við Íslendingar höfum verið fráhverfir Evrópu. Við höfum sýnt áhuga í þessum efnum og verið virkir aðilar í evrópskri samvinnu. Við höfum lagt áherslu á tryggð okkar við þau andlegu og siðferðilegu verðmæti sem eru sameiginleg arfleifð Evrópuþjóðanna. Ég minni á þátttöku okkar í Evrópuráðinu. Og ég nefni einnig þátttöku okkar í EFTA með aðild okkar að efnahagslegri samvinnu.
    Sannleikurinn er sá að við Íslendingar höfum verið fullgildir aðilar í evrópskri samvinnu. Að vísu höfum við ekki skipað okkur í flokk þeirra sem stefna á sambandsríki Evrópu heldur höfum við Íslendingar fyllt flokk þeirra sem hafa lagt áherslu á samvinnu milli frjálsra ríkja Evrópu. Samvinna ríkja er öllum mikilvæg en þó, og það skulum við hafa rækilega í huga, ekki síst smáríkjunum. Með samvinnu og samtökum getur smáríkjum verið gert mögulegt að afreka það sem stórþjóðunum einum er fært óstuddum. Þess vegna er evrópsk samvinna engri þjóð mikilvægari en Íslendingum. Hins vegar veldur smæð þjóðarinnar því að engin þjóð þarf að taka svo mikinn vara á evrópskri samvinnu sem við Íslendingar. Af þessari staðreynd hefur mótast afstaða okkar til Evrópubandalagsins.

    Nú á síðustu missirum hefur komið upp hér á landi gagngerð umræða um afstöðu okkar Íslendinga til Evrópubandalagsins með tilliti til áforma bandalagsins um ,,óskiptan innri markað`` sem skyldi myndaður fyrir árslok 1992 samkvæmt svonefndri ,,Hvítbók`` framkvæmdastjórnar bandalagsins frá 1985. En við skulum hafa hugfast að óskiptur innri markaður var frá upphafi markmið Evrópubandalagsins, áður Efnahagsbandalagsins. Það er aðeins stóraukin áhersla á að flýta framkvæmd þessa markmiðs sem hefur sett svip á allt starf bandalagsins síðustu árin. Og þess ber að gæta að þetta breytir í engu þeirri sérstöðu Íslands sem hefur verið grundvöllur þeirrar afstöðu okkar Íslendinga að landið gæti ekki bundist aðild að Evrópubandalaginu. Það sem skeð hefur er að við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir þeirri þróun Evrópubandalagsins sem
gerir það ótvíræðara en nokkru sinni fyrr að við Íslendingar getum ekki slegið af fullveldi landsins með aðild að þessu bandalagi.
    Um þessar mundir hefur gætt nokkurra misvinda í afstöðunni til Evrópubandalagsins. Hefur það komið fram í umræðunni um hugmyndirnar að sameiginlegum markaði Evrópubandalagsins og EFTA. Sumir eru með alls engar vífilengjur og halda fram að Íslandi beri að gerast beinn aðili að Evrópubandalaginu og að það sé að minnsta kosti framtíðardraumurinn. Allir eiga sér sína drauma. Einu sinni var nefnt Sovét-Ísland. Aðrir láta sér nægja vegleiðina gegnum EFTA. Grunntónninn í fortölum þessum er sá að nú sé okkur
Íslendingum voðinn vís, já, voðinn vís, ef við verðum ekki með í þeirri þróun sem nú gengur yfir hjá þeim þjóðum sem næst okkur standa. Því er haldið fram að við Íslendingar munum einangrast á næstu árum og dragast aftur úr efnahagsþróun heimsins ef við ekki tökum fullan þátt í samningum EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins. Ekki má nú minna gagn gera og til áherslu er sagt að ekki þýði að vera með neitt múður. Það á ekki, segja þessir herrar, að setja af okkar hálfu fyrir fram almenna fyrirvara við þessum samningum. Við eigum að sjá síðar hvað setur. Við eigum að taka fullan þátt í þessum samningum, segja þeir. Sumir segja að vísu að náttúruauðlindunum verðum við að halda. Aðrir hafa minni áhyggjur af því þegar þeir mæla bót kvótakerfinu á þeirri forsendu að slík fiskveiðistefna geti falið í sér fast form fyrir sölu veiðileyfa sem henti ekki síður fyrir útlendinga en landsmenn þegar Ísland hefur gengið í hinn sameinaða evrópska markað. Það skal tekið fram að svo mæla ekki þeir sem ábyrgð bera á fiskveiðistefnunni nú. Nóg er nú samt.
    Það má nú segja að þeim sé mikið niðri fyrir formælendum Evrópubandalagsins beint eða óbeint. Það er hvorki meira né minna í húfi en starfsskilyrði íslensks atvinnulífs í samanburði við starfsskilyrði atvinnulífs í ríkjum Evrópubandalagsins. Það geta allir tekið undir nauðsyn þess að búa atvinnulífinu sem best starfsskilyrði. Þó það nú væri. Hvað er nauðsynlegra? En það þurfum við alltént að gera hvað

sem líður Evrópubandalaginu. Málið snýst um að skapa íslenskum fyrirtækjum sömu starfsskilyrði og erlendum keppinautum, hvort sem er í ríkjum Evrópubandalagsins, EFTA-löndunum, Bandaríkjunum, Japan eða öðrum löndum. Þessu viðfangsefni hljótum við Íslendingar að vinna að undir öllum kringumstæðum. Innganga í Evrópubandalagið eða sameinaða Evrópumarkaðinn er engin forsenda þess. Hér er þess vegna ekki að finna nein sérstök rök eða haldbær fyrir aðild okkar að Efnahagsbandalaginu. Hins vegar ræður sköpum að móta efnahagslíf okkar og viðskiptahætti í átt til þess frjálsræðis sem samsvarar þróuninni í Evrópubandalaginu svo að við getum komið á og viðhaldið þeim viðskiptatengslum við bandalagið sem okkur hentar og okkur er lífsnauðsyn. Þetta orkar ekki tvímælis því að þetta hlýtur að vera höfuðatriði í stöðu okkar gagnvart Evrópubandalaginu við tvíhliða samningsgerð. Hins vegar breytir þetta í engu þeirri staðreynd að við getum ekki slegið af fullveldi landsins með aðild að bandalaginu.
    Nú skulum við hafa í huga að fram til þessa hefur samvinna EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið verið að mestu á tvíhliða grundvelli þannig að hvert EFTA-ríkjanna hefur átt sjálfstæð samskipti við bandalagið. Þannig gerði Ísland fríverslunarsamninginn við Evrópubandalagið á sínum tíma. Um var að ræða fríverslun með svipuðum hætti og áður hafði verið innan EFTA og tók einkanlega til iðnaðarvara. Ísland fékk aðlögunartíma til að afnema tollvernd sína á vörum frá Evrópubandalaginu eins og áður hafði verið samið um gagnvart EFTA-löndunum. Ýmislegt fleira má að sjálfsögðu telja upp, að ógleymdri bókun 6 sem varðaði mestu þar sem þar var um að ræða fríverslun með sjávarafurðir þó að þar væri of skammt gengið frá sjónarmiði okkar Íslendinga og of lítil trygging til frambúðar. En samt fól bókun 6 í sér kjör sem talin voru hagstæð Íslandi. Þannig náði Noregur ekki jafngóðum kostum fyrir sínar sjávarafurðir, þegar hann hvarf frá aðild að Evrópubandalaginu og samdi um fríverslun í staðinn. Það má vissulega segja að vel hafi gengið í tvíhliða samningum Íslands og Evrópubandalagsins þó að endurskoðunar og breytinga sé nú þörf.
    Við Íslendingar getum ekki verið búnir að segja okkar síðasta orð um tvíhliða samninga við Evrópubandalagið. Það gefur auga leið að sérstaða Íslands er svo gagngerð að henni verður ekki mætt með öðrum hætti. Meira að segja nú sömu dagana og verið er að fjalla um þátttöku okkar í samningsgerð um sameiginlegan Evrópumarkað leggja samtök sjávarútvegsins áherslu á að teknar verði upp viðræður um tvíhliða samninga við Evrópubandalagið um sjávarafurðir. Og auðvitað er ekki önnur fær leið fyrir okkur í þessu efni. Ég leyfi mér að fara fram á að hæstv. utanrrh. gefi í þessum umræðum ótvíræða yfirlýsingu um að hann vilji þegar fara fram á þessar tvíhliða samningaviðræður við Efnahagsbandalagið. Það mun líka koma á daginn að svo verður á fleiri sviðum. Tvíhliða samningar hafa reynst okkur vel og

svo verður áfram.
    Nú er hins vegar verið að gera því skóna með viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins að EFTA-ríkin og þar með Ísland hverfi frá tvíhliða samningum við bandalagið. Í staðinn skuli gengið til mun víðtækara samstarfs en áður hefur verið talið að komi til greina og samstarfið gert virkara með sameiginlegum stofnunum og ákvörðunum og lögð áhersla á hinn pólitíska þátt á sviði efnahagsmála, félagsmála, fjármála og menningarmála. Það er lýst yfir því markmiði að koma á einu samræmdu evrópsku efnahagssvæði með óhindraðan flutning á vöru, þjónustu, fjármagni og fólki.
    Hæstv. forseti, ég spyr: Hvort má nú hæstv. utanrrh. heyra mál mitt eða ekki? Mér þykir ekki við hæfi að halda lengra áfram í ræðu minni nema hann sé hér viðstaddur eins og hann hefur verið fram að þessu. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess að láta hæstv. utanrrh. vita. Hann gengur nú í
salinn.)
    Þegar þessar hugmyndir eru skoðaðar frá sjónarmiði okkar Íslendinga verðum við að hafa hugfast að hvað sem um þær má segja breyta þær engu um sérstöðu Íslands í evrópskri samvinnu. Og við höfum byggt það á sérstöðu landsins að ljá ekki máls á því að gerast aðilar að Evrópubandalaginu. Það verður naumast séð annað en að það geti nálgast að jafnast að einhverju leyti við inngöngu í Evrópubandalagið að taka upp þau tengsl sem hér er talað um að EFTA-ríkin geri. Ef Ísland væri þátttakandi í þessu mætti því ef til vill segja að það stæði í bakdyri Evrópubandalagsins í stað þess að fara um fordyrið. En þá væri líka tekin upp ný stefna í afstöðu Íslands til Evrópubandalagsins.
    Nú gleymast fyrirvararnir og undanþágurnar sem boðað er að Ísland muni gera í fyrirhugaðri samningagerð EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins, kann einhver að segja. Og víst er það, það má ekki gleyma fyrirvörunum. Ég geng út frá því að innganga Íslands í Evrópubandalagið sé ekki á dagskrá. Af því leiðir að Ísland getur ekki bundist svo rammgerðum og víðtækum tengslum við Evrópubandalagið sem er grundvöllur viðræðna milli þess og EFTA-ríkjanna. Þátttaka Íslands í þessum umræðum hlýtur því að byggjast á fyrirvörum og undanþágum. Já, hvílíkir fyrirvarar og hvílíkar undanþágur mundu það ekki verða ef gæta ætti sérstöðu Íslands svo sem gert hefur verið hingað til. Hin EFTA-ríkin hafa ekki að gæta slíkrar sérstöðu sem við Íslendingar. Sum þeirra horfa meira að segja til þess að gerast formlegir aðilar að Evrópubandalaginu. En það breytir í engu sérstöðu Íslands, meira að segja gagnvart EFTA-ríkjunum. Höfum í huga að það EFTA-ríki sem stendur Íslandi næst að stærð er tuttugu sinnum fjölmennara.
    Eitt er víst. Samningaviðræður þessar hljóta að verða vandmeðfarnar af hálfu Íslands. Við Íslendingar hljótum að þurfa að standa í baráttu fyrir sérsjónarmiðum okkar, sérhagsmunum okkar vegna sérstöðu okkar í samfélagi samningsríkjanna. Við þurfum ekki einungis að sækja mál okkar gegn

Evrópubandalaginu heldur og með tilliti til hinna EFTA-ríkjanna. Hin EFTA-ríkin geta viljað ná samkomulagi þó að Ísland nái ekki fram sínum fyrirvörum. Ef þeir fyrirvarar gætu stofnað viðræðunum í hættu svo að engir samningar yrðu gerðir gæti Ísland orðið undir miklum þrýstingi frá hinum EFTA-ríkjunum um að slá af sínum sjónarmiðum og fyrirvörum. Hættan væri þá sú að Ísland gengi lengra en góðu hófi gegndi til samkomulags, en með örlagaríkum afleiðingum þar sem ekki væri nægilega gætt sérstöðu landsins. Allt þetta mál verður vandmeðfarnara fyrir það að við Íslendingar gegnum forustuhlutverki í EFTA um þessar mundir.
    Hæstv. utanrrh. bindur sérstakar vonir við þetta mál og í áhuga sínum og skeleggri framgöngu fyrir málstaðnum er svo að sjá að hann reikni með að ná langþráðu marki með því að koma á heildarsamningum milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins. Það liggur við að hæstv. utanrrh. sé farinn að tala eins og þetta liggi á borðinu. Víst er það virðingarvert og lofsvert að hæstv. utanrrh. okkar haldi á málefnum EFTA af myndugleik og reisn meðan hann fer með forustu í ráðherranefnd þeirra samtaka. En hæstv. ráðherra er engu að síður utanrrh. Íslands og sem slíkur ber honum ekki síður hagsmunagæsla fyrir Ísland sem hér felst í því að gæta sérstöðu landsins í hópi EFTA-ríkjanna gagnvart Evrópubandalaginu. Það hvarflar ekki að mér að hæstv. utanrrh. vilji ekki hafa
varðstöðu um íslenska hagsmuni. En ég vík að þessu vegna þess að í málafylgju hans um þessi efni ber meira á heildarviðhorfum EFTA-ríkjanna en sérstöðu Íslands. Þetta kemur fram í skýrslu þeirri sem hér er til umræðu og þetta kom fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra.
    Ég verð að segja það að eftir að hafa hlýtt á hæstv. utanrrh. í gær get ég ekki varist þeirri hugsun að mér finnst málatilbúnaður hans bera nokkurn keim af fullyrðingum þeirra sem eiga sér drauminn um fulla aðild Íslands að Evrópubandalaginu eða líti á sameiginlegan markað sem skref í þá átt. Hann hefur á takteinum orðskrúð þessara manna. ,,Nú er tækifæri`` heitir það. ,,Þjóð sem þorir að bera höfuðið hátt`` skal það vera. Og svo heilræðið að byggja ekki um sig múr eins og þjóðir gerðu austantjalds þar sem múrinn er nú að hrynja. Ég viðurkenni það fúslega að ég kann ekki að meta slíkar upphrópanir og geðjast raunar ekki að þeim. En svo brýst sólin fram úr skýjunum. Hæstv. utanrrh. segir að innganga í Evrópubandalagið sé ekki á dagskrá, hann sé á móti aðild að Efnahagsbandalaginu, ef ég skil hann rétt. Þetta er gott svo langt sem það nær.
    En hæstv. utanrrh. kemst ekki hjá því að gera nánari grein fyrir stefnu sinni og ríkisstjórnarinnar í hinum formlegu viðræðum, sem nú eru fyrirhugaðar milli EFTA og Evrópubandalagsins. Upplýst er að niðurstaða könnunarviðræðnanna sé sú að til þess að ná eins og hægt væri óhindruðum vöruskiptum, þjónustu- og fjármagnsviðskiptum ásamt atvinnu- og

búseturétti ætti að fella viðeigandi reglur bandalagsins inn í samninginn fyrir það evrópska efnahagssvæði sem komið yrði á. Aðalatriðið er að það skuli farið eftir reglum Evrópubandalagsins. Það eru aðeins undantekningar frá þessu sem gætu verið samningsatriði. Þessar undantekningar mundu þá byggjast á sérstöðu einstakra
EFTA-ríkja.
    Ég bið hæstv. utanrrh. að skýra frekar en gert hefur verið hvaða augum hann, hann sjálfur, lítur almennt á sérstöðu Íslands, sérstöðu gagnvart Evrópubandalaginu og sérstöðu gagnvart öðrum ríkjum EFTA. Ég geri mér grein fyrir að álit á þessu efni hlýtur að fara annars vegar eftir þeirri áherslu sem lögð er á aðild að Evrópumarkaðnum og hins vegar eftir þeim vara sem menn vilja hafa á því að setja landið undir yfirþjóðlegt vald. Það er nauðsynlegt að verða einhvers vísari um viðhorf í þessu efni til þess að geta betur áttað sig á og metið hvert hæstv. ráðherra stefnir með tilliti til fyrirvara og undanþága í sjálfri samningsgerðinni sem hlýtur að skipta sköpum fyrir okkur Íslendinga í bráð og lengd.
    Hæstv. forseti. Við skulum ekki ganga þess dulin að við ræðum nú mál sem örlögum getur valdið fyrir land og þjóð. En við skulum umfram allt halda ró okkar. Við skulum varast að taka einhver gönuskeið í fljótræði. Evrópsk samvinna er af hinu góða. Í þeirri samvinnu veljum við okkur það hlutskipti sem hæfir landi og þjóð. Við erum veitendur í evrópsku samfélagi með sérstöku framlagi til evrópskrar menningar sem er ómissandi hlekkur, ómissandi hlekkur í þeirri arfleifð sem er grundvöllur evrópskrar samvinnu. Það er þetta framlag Íslendinga sem í senn er forsenda og líftaug sjálfstæðrar tilveru okkar sem sérstakrar þjóðar. Við verðum ekkert, ekki neitt í framtíðinni nema dropi í hafinu nema okkur takist að halda á þessari arfleifð og þá getum við haldið áfram að ávaxta og auðga evrópska menningu.
    Það verða alltaf slíkir leiðtogar og forustumenn í Evrópu sem bera skynbragð á mikilvægi sjálfstæðrar tilveru íslensku þjóðarinnar fyrir evrópska menningu, hvað sem kann að líða kerfiskörlum Evrópubandalagsins. Gifta okkar Íslendinga liggur í hinni menningarlegu arfleifð, menningarlegu arfleifð, en ekki aðild að Evrópubandalaginu.
    Umræða um afstöðu okkar til evrópskrar samvinnu er mikilvæg. En það er ekki nægilegt að takmarka þær umræður við könnunarviðræður EFTA-ríkja og Evrópubandalagsins. Þessi mál verður að taka fyrir í miklu víðtækara samhengi en fram kemur í skýrslunni sem við nú ræðum og lýsti sér í ræðu hæstv. utanrrh. Ég hef viljað ræða málin út frá víðari sjónarhring. Það er það sem ég hef kallað að gá til veðurs og líta til allra átta í þessu þýðigarmikla máli fyrir okkur Íslendinga í bráð og lengd. Og, hæstv. forseti, ég hef viljað ræða þessi mál út frá því grundvallarsjónarmiði að vegna sérstöðu Íslands eigi engin þjóð meira undir evrópskri samvinnu en við Íslendingar og jafnframt að engin þjóð hefur meir að varast í þeim efnum.