Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Við lifum nú mikla breytingartíma. Þjóðir Vestur-Evrópu búa sig af kappi undir sameiginlegt evrópskt markaðs- og efnahagssvæði á sama tíma og þjóðir Austur-Evrópu taka örlagarík skref í átt til frelsis og lýðræðis. Á hverjum degi berast okkur fréttir af lýðræðishreyfingum í ríkjum Austur-Evrópu. Bárur frelsis hafa brotið sjálfan Berlínarmúrinn og rofið skörð í járntjaldið. Þess verður vonandi ekki langt að bíða að skipting Evrópu í vestur og austur heyri sögunni til af því að lýðræðisskipulagið hafi haft sigur með friði. Það segir sig sjálft að í þessum miklu sviptingum í stjórnarfari og þjóðskipulagi Evrópuríkja sé mikilvægt fyrir Íslendinga að fylgjast vel með. Íslendingar styðja að sjálfsögðu lýðræðis- og frelsisþróunina í Austur-Evrópu og við eigum að leggja okkar af mörkum til að styrkja hana.
    Við verðum einnig að gæta hagsmuna okkar í þeim breytingum á viðskiptum og viðskiptaháttum sem fylgja því að sameiginlegur evrópskur markaður myndast og sameiginlegt evrópskt efnahagssvæði. Þetta er auðvitað aðalefni þessarar umræðu um samskipti EFTA og Evrópubandalagsins og hlut Íslendinga í þeim. Við þurfum að ákveða hvernig við stöndum að viðræðum okkar við Evrópubandalagið í framhaldi af þeim umfangsmiklu könnunarviðræðum sem fram hafa farið á undanförnum mánuðum og utanrrh. hefur gert þinginu grein fyrir í sérstakri skýrslu og kynnt í yfirgripsmikilli ræðu. En þetta tvennt, skýrsla og ræða utanrrh., er grundvöllur þessarar mikilvægu umræðu.
    Það verður stöðugt ljósara að þessar könnunarviðræður hafa verið mjög mikilvægar og reyndar mikilvægari en sést í fljótu bragði. Þær hafa sýnt að EFTA-ríkin, sem eru að mörgu leyti ólík innbyrðis, geta náð samstöðu um stefnu gagnvart Evrópubandalaginu, stefnu sem virðist skynsamlegur grundvöllur að frekari viðræðum og síðar formlegum samningum um stöðu okkar í Evrópu framtíðarinnar. En við skulum ekki blekkja okkur á því að þetta framhald verði auðvelt. Þvert á móti munu mörg álitamál koma upp og lausn á þeim mun ekki liggja fyrir að nokkrum mánuðum liðnum. Við skulum gera ráð fyrir því að framhaldsviðræðurnar taki ár fremur en mánuði. Innan Evrópubandalagsins og það jafnvel hjá þeirri bandalagsþjóð sem stendur okkur næst, Dönum, heyrast nú háværar raddir um það að ekki komi til greina að EFTA-ríkin fái aðgang að sameiginlegum innri markaði bandalagsins án þess að greiða fyrir aðganginn, t.d. með framlögum í þróunarsjóði Suður-Evrópuríkjanna. Við eigum án alls efa eftir að smeygja okkur fram hjá ýmiss konar hindrunum áður en greiður aðgangur að hinum sameiginlega markaði blasir við. Og það er líka hætt við að dynurinn frá umbyltingunni í Austur-Evrópu að undanförnu kunni að yfirgnæfa bank EFTA-ríkjanna á dyr Evrópubandalagsins, a.m.k. um stundarsakir.
    Ég ætla hér, virðulegur forseti, að fjalla sérstaklega um þjónustu- og fjármagnssviðið, en í

könnunarviðræðum milli EFTA og Evrópubandalagsins hefur verið mikið rætt um afnám viðskiptahindrana á sviði þjónustuviðskipta. Hér er mikið í húfi fyrir okkur Íslendinga. Sameiginlegur markaður fyrir þjónustuviðskipti færir okkur bæði nýja möguleika og ný vandamál. En þetta á í sjálfu sér ekki bara við okkur heldur á þetta við öll Evrópuríkin sem þarna eiga hlut að máli, enda er hvers konar þjónustustarfsemi gildur og vaxandi þáttur í efnahagslífi þeirra allra.
    Það er rétt að geta þess sem kemur fram í skýrslu hæstv. utanrrh., að um þessar mundir fara einnig fram afar mikilvægar viðræður milli aðildarríkja GATT um aukið frelsi á sviði þjónustuviðskipta og fjármagnsflutninga. Þar hefur einnig verið fjallað sérstaklega um fjármálaþjónustu, vátryggingar, samgöngur, fjarskiptaþjónustu, rekstur gagnabanka, mynd- og hljóðtækniþjónustu (audio-visual Services eins og það er kallað á ensku máli). Það er því ekki bara á sviði samskipta EFTA og Evrópubandalagsríkjanna sem rætt er um að opna heimamarkaðina fyrir samkeppni um þjónustuviðskipti og mynda þannig sameiginlegt markaðssvæði á þessu sviði.
    Eins og skýrsla utanrrh. ber glöggt með sér og tölur sem þar eru fram settar eru útflutningstekjur Íslendinga af þjónustu nálægt því að vera 30% af heildargjaldeyristekjum okkar. Á sama tíma eru útgjöld okkar fyrir þjónustu um þriðjungur af gjaldeyrisútgjöldum. Við höfum lengi glímt við nokkurn halla á þjónustujöfnuði. Vextir af erlendum skuldum okkar eru mjög hátt hlutfall í okkar greiðslum til annarra landa. Það er þessi mynd af þjónustuviðskiptunum sem við þurfum að hafa fyrir hugskotssjónum þegar við nú fjöllum um þær viðræður sem fram hafa farið um óhindraða þjónustu og viðskipti með þjónustu á hinu sameiginlega evrópska efnahagssvæði. Samgöngur og ferðamálaþjónusta skipta okkur verulegu máli og sama er að segja um vaxtagreiðslurnar. Íslenska þjóðarbúinu er nauðsyn á auknum útflutningi á þjónustu og ráðstöfunum til þess
að auka fjármagnstekjur og tekjur af fjármálaþjónustu erlendis frá til að koma til móts við greiðslur okkar sjálfra af þessu tagi til annarra ríkja. Þarna eigum við hagsmuna að gæta, að taka þátt í þeirri frjálsræðisþróun sem nú er að stefnt í Evrópu.
    Varðandi frelsi á sviði viðskipta í fjármálaþjónustu má segja að jarðvegurinn hafi verið undirbúinn að nokkru með stofnun Verðbréfaþings Íslands og nýrri löggjöf um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Þá mun samruni banka í færri og öflugri stofnanir einnig vafalaust styrkja stöðu íslenska bankakerfisins gagnvart erlendri samkeppni sem óhjákvæmileg mun verða í framtíðinni. Við höfum til þessa ekki veitt erlendum bönkum heimild til að starfa hér á landi þótt í lögunum um Útvegsbanka Íslands hf. sé heimild til þess að erlendir bankar eða fjármálastofnanir geti átt allt að fjórðungi hlutafjár í Útvegsbankanum. Ég tel skynsamlegt að við stefnum að því að fallast á

gagnkvæmar heimildir til reksturs erlendra banka hérlendis og íslenskra banka erlendis og sama gildi um önnur fjármálafyrirtæki. Á hvaða tíma þetta gerist vil ég ekki tala um í nákvæmum greinum, en ég tel að þróunin hljóti að ganga í þessa átt og hún kunni að verða örari en margur hyggur.
    Við þurfum að sjálfsögðu einnig að halda áfram endurbótum á íslenska bankakerfinu og þar tel ég fyrsta þá breytingu að fella niður ríkisábyrgð á rekstri banka og lánasjóða og stefna að samruna fjárfestingarlánasjóðanna í landinu. Samkeppni á sviði fjármálaþjónustu mun að sjálfsögðu færa íslenskum
lánastofnunum vandamál, en hún mun líka styrkja þær. Starfslið íslensku bankanna og íslensku lánastofnananna mun án efa gert lært sitthvað af bankaþjónustu eins og hún er rekin á meginlandi Evrópu í miklu harðari samkeppni. Þegar íslensku bankarnir hafa lært að mæta erlendri samkeppni á öllum sviðum er þeim ekkert að vanbúnaði að færa sína bankaþjónustu út til annarra ríkja í einhverjum mæli. Á Íslandi eru að ýmsu leyti hagstæð skilyrði til þess að stunda alþjóðlega bankaþjónustu og ég nefni þar fyrst sem mestu skiptir: Rótgróið réttarríki, vel menntað starfslið, fullkomin fjarskipti, góðar samgöngur til allra átta. Þetta eru kostir sem Ísland býður. Þetta eru tækifæri sem Íslendingar geta fært sér í nyt.
    Að mörgu leyti gilda lík sjónarmið um starfsemi vátryggingafélaga og rekstur banka og lánastofnana. Vegna þess að íslenski markaðurinn er smár, of smár til þess að tryggja nægilega áhættudreifingu, hafa íslensk vátryggingarfélög jafnan sótt sér styrk á erlendan tryggingamarkað. Ég tel því að frjáls þjónustuviðskipti á sviði trygginga að forminu til mundu ekki breyta hér miklu um efnið. Almennar neytendatryggingar yrðu án alls efa í höndum þeirra tryggingafélaga sem standa næst neytendum, væntanlega íslenskra, en ýmsar atvinnurekstrartryggingar og stórar áhættutryggingar gætu lent í höndum innlendra og erlendra tryggingarfélaga eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni, eins og í raun gildir í dag. Nýleg sameining vátryggingafélaga hér á landi styrkir stöðu þeirra gagnvart erlendri samkeppni líkt og ég nefndi um bankana áðan og gefur þeim e.t.v. í fyllingu tímans tækifæri til að afla sér viðskipta á erlendum mörkuðum í einhverjum mæli. En það gildir um þetta eins og vöruviðskiptin að við verðum þá að gerast aðilar að frjálsari samskiptum milli ríkja til þess að geta notið þessara tækifæra.
    Ég kem þá að sviði samgangna. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum hversu samgöngurnar skipta Íslendinga miklu máli. Þar hefur gætt verulegrar verndarstefnu Evrópubandalagsríkja, m.a. með beitingu svokallaðra ,,cabotage`` eða strandflutningareglna um flutninga í lofti og á legi milli bandalagsríkjanna. Þetta er útilokunarstefna fyrir aðra sem vilja stunda flutningastarfsemi innan vébanda bandalagsins. Það er því afar mikilvægt fyrir okkur að flutningamarkaðurinn á evrópska efnahagssvæðinu

verði opinn og sameiginlegur fyrirtækjum og einstaklingum í öllum ríkjum Evrópu. Með því móti tryggjum við best hagsmuni íslenskra flugfélaga og skipafélaga. Flutningar milli meginlandsins og Íslands hafa í raun verið opnir flutningaaðilum frá öllum ríkjum, en vegna takmarkaðs flutningamagns á þessari leið hefur ekki mikið reynt á samkeppni við íslenska flutningaaðila. Hins vegar er flutningamarkaðurinn að sjálfsögðu margfalt stærri í öðrum ríkjum Evrópu og þar liggja án efa ónýttir möguleikar fyrir flugfélög okkar og skipafélög ef við fáum að keppa þar á jafnréttisgrundvelli sem ekki er í dag.
    Ég kem þá að mjög mikilvægu sviði þeirra breytinga í frjálsræðisátt sem nánari samvinna við ríki Evrópubandalagsins á þessu sviði gæti fært með sér, þ.e. fjárfestingar erlendra aðila hér á landi og íslenskra aðila í öðrum ríkjum evrópska efnahagssvæðisins. Á þessu sviði höfum við gert skýra fyrirvara varðandi fjárfestingar erlendra aðila í náttúruauðlindum okkar eða atvinnurekstri sem tengist þeim, fiskveiðum, fiskvinnslu og orkuverum. Þessir fyrirvarar eru ótímabundnir. Við höfum jafnframt gert fleiri fyrirvara eins og fram kemur í skýrslu utanrrh. sem hér er rædd. Við þurfum að takast á um þessa fyrirvara í samningum við Evrópubandalagið, en við þurfum einnig að skilgreina þá betur en við höfum gert til þessa. Hvar liggja hinir íslensku hagsmunir? Ég tel því afar brýnt að við setjum sem fyrst, og helst á þessu þingi, almenna löggjöf um fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri en ég minni á, eins og reyndar hv. 1. þm. Suðurl. gerði, að frv. um þetta efni var lagt fyrir 110. löggjafarþing en því miður var ekki mælt fyrir því þá. Lög af þessu tagi, sem hæstv. forsrh. hefur boðað að hann muni flytja frv. um, hljóta að
taka til ýmissa þeirra atriða sem nú eru óljós. Um leið mætti fella niður ýmis bönn og hindranir sem í gildi eru samkvæmt margvíslegri og brotakenndri, eldri sérlöggjöf sem erfitt er að rökstyðja á okkar dögum.
    Hin hliðin á þessu máli er að sjálfsögðu fjárfesting íslenskra aðila erlendis en um það mál er að segja að fjárfesting í fyrirtækjum á erlendri grund hefur verið leyfð í allmörgum tilfellum og hefur þar einkum verið um að ræða fyrirtæki sem hafa átt að auðvelda útflutning á íslenskri vöru og þjónustu. Nú starfa 1500 eða 1600 manns við fyrirtæki erlendis sem eru í íslenskri eigu eins og kemur fram í skýrslu utanrrh. Ef vandlega er skoðað er erfitt að finna ástæður fyrir því að miklar breytingar yrðu á fjárfestingarstraumum þótt formlegar heimildir yrðu veittar til þeirra með almennum hætti en ekki háð sérstökum leyfum eins og nú er. Slíkar heimildir milli Íslands og annarra ríkja á evrópska efnahagssvæðinu, ef það myndast, til að kaupa eða eiga í fyrirtækjum, tel ég að mundu fyrst og fremst styrkja íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Sá ótti að erlendir aðilar muni kaupa upp allt íslenskt atvinnulíf virðist mér fullkomlega ástæðulaus og ekki á rökum reistur. Við skulum jafnan muna það að íslenski markaðurinn er frekar smár og freistar fárra þegar fjárfestingar í fiskveiðum og orkuvinnslu eru

ekki leyfðar. Við skulum gera okkur það ljóst að erlend fyrirtæki standa alls ekki í biðröð eftir því að komast hér að. Í mörgum tilvikum yrði beinlínis að því hagur að fá erlent áhættufjármagn til uppbyggingar atvinnulífsins í stað lánsfjár. Fjárfesting íslenskra aðila erlendis yrði væntanlega, eins og hingað til, einkum bundin við þau fyrirtæki sem styrkja stöðu sína á erlendum markaði.
    Hvað varðar heimildir til verðbréfaviðskipta milli Íslands og annarra ríkja er það mitt álit að stjórnvöld þurfi að búa sig undir vaxandi þrýsting innan lands um rýmkun þeirra heimilda. Ég nefni þar lífeyrissjóðina sem hafa þörf fyrir ávöxtun fjármuna í einhverjum mæli óháð sveiflum í íslenskum þjóðarbúskap vegna skuldbindinga sinna við lífeyrisþega.
    Ég nefni líka að fjárstraumar til ávöxtunar erlendis héðan gætu að einhverju leyti komið á móti fjárstraumum vegna erlendrar lántöku íslenskra aðila sem Íslendingar hafa mjög hneigst til. Þannig mundu slíkar heimildir geta stuðlað að jafnvægi í efnahagsmálum. Sama er að segja þar sem þetta snýst við, að vaxtatekjur og ágóði af íslenskum fjárfestingum erlendis gætu komið á móti vaxtaútgjöldum þjóðarbúsins í öðrum löndum. Ég held að menn mikli mjög fyrir sér hætturnar sem slíkum viðskiptum fylgja. Ég bendi á að reynsla annarra Evrópuríkja sem leyft hafa verðbréfaviðskipti yfir landamæri hefur víða verið sú að ríki sem talið var að mundu opna fyrir fjárstraum frá sér hafa í reynd getað selt sín skuldabréf í öðrum löndum með góðum árangri. Þá gætu kaup erlendra aðila á íslenskum verðbréfum einnig orðið efnahags- og atvinnulífinu til framdráttar og stuðlað að betri jöfnuði í gjaldeyrismálum. Spákaupmennska við skilyrði óvissu í efnahagsmálum gæti þá tekið það form að menn keyptu erlend verðbréf fremur en erlendar vörur. Í mjög mörgum dæmum má halda því fram að þetta mundi, þegar horft er til langs tíma, styrkja íslenskt efnahagslíf og gera það stöðugra, en ekki hið gagnstæða.
    Í öllum ríkjum EFTA og Evrópubandalagsins er nú verið að afnema hindranir á verðbréfaviðskiptum milli ríkja og ég tel að við Íslendingar eigum einnig að gera þetta en í nokkrum varkárum áföngum. Takmarkanir á fjármagnsflutningum milli ríkja Evrópubandalagsins verða að mestu felldar niður að fullu á næsta ári, ef það samkomulag stendur sem þau hafa gert með sér. Þau ríki sem eru skemmst komin í efnahagsþróun hafa þó frest fram til ársins 1992, þó með hugsanlegri framlengingu fyrir Grikkland og Portúgal á nánar tilteknum fjármagnshreyfingum til ársins 1995. Norðurlöndin, önnur en Ísland, hafa þegar ákveðið að koma á alfrjálsum fjármagnshreyfingum fyrir mitt næsta ár. Íslendingar munu að sjálfsögðu móta sínar reglur á þessu sviði á grundvelli íslenskra hagsmuna en einnig á grundvelli þeirrar reynslu og þeirra áforma sem uppi eru hjá þeim þjóðum sem við höfum mest samskipti og samstarf við. Hér er spurningin fyrst og fremst hvenær hlutirnir gerast,

ekki hvort þeir gerast.
    Ég vek athygli á því að hér er um atriði að ræða sem varðar samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Íslensk fyrirtæki verða að geta aflað sér fjármagns á sama hátt og með sömu kjörum og keppinautar þeirra í nágrannaríkjunum. Íslenskt efnahagslíf er nátengt efnahagslífi grannþjóðanna og við getum ekki til lengdar búið við sérstakar, íslenskar hindranir á sviði fjármagnsflutninga sem við auk þess getum alls ekki stutt þeim rökum að í þeim takmörkunum felist trygging fyrir bættum lífskjörum á nokkurn hátt. Einu rökin sem ég heyri sem borin eru fram gegn frjálsum fjármagnsflutningum milli ríkja virðast mér vera þau að slíkt frelsi setji efnahagslíf okkar undir strangari agareglur en gilt hafa til þessa. Það eru ekki mikilvæg rök, það eru ekki rök sem hægt er að fallast á. Ég tel raunar ávinning að því fremur en áhættu að fá slíkt aukið aðhald að innlendri hagstjórn sem fylgja mundi nánari tengslum milli íslenska fjármagnsmarkaðarins og alþjóðlegra peningamarkaða.
    Hæstv. forseti. Sú spurning sem við þurfum að svara er hvernig við eigum að haga málum okkar gagnvart EFTA og Evrópubandalaginu á næstu mánuðum og
missirum. Í mínum huga er svarið skýrt. Á sameiginlegum ráðherrafundi EFTA og Evrópubandalagsins 19. des. n.k. eigum við að beita okkur fyrir því að samningaviðræður hefjist milli EFTA og Evrópubandalagsins á næsta ári um sameiginleg málefni. Ég tel að full samstaða sé um þetta innan ríkisstjórnarinnar, þ.e. að halda málinu áfram á þennan hátt.
    Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið vil ég taka fram að ég sé enga þörf fyrir formlegt umboð fyrr en á lokastigi eiginlegra samninga. Hins vegar er að sjálfsögðu afar mikilvægt að hafa sem nánast samráð við þingið á öllum stigum málsins. Það hefur hæstv. utanrrh. sannarlega líka haft.
    Í viðræðunum sem fram undan eru eigum við að halda fram kröfum okkar um fullkomna fríverslun með fisk og fiskafurðir á hinu sameiginlega evrópska markaðssvæði í samræmi við Oslóaryfirlýsingu leiðtoga EFTA-ríkjanna frá því í mars á þessu ári. Ég vil líka leggja þunga áherslu á að samstarf okkar með EFTA-ríkjunum í þessum viðræðum kemur ekki í staðinn fyrir að við leitumst við að ná tvíhliða samkomulagi við Evrópubandalagið sem tryggi hagsmuni helstu útflutningsgreina okkar til Evrópu. Auðvitað eigum við að leita slíkra tvíhliða samninga ef einhver von er til að þeir náist.
    Ég vek líka athygli á því sem kom fram í máli hæstv. sjútvrh. að ýmsir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa átt slíkar tvíhliða viðræður að undanförnu. Fundir hafa verið haldnir með einstökum ráðherrum og fulltrúum fyrir ýmsa málaflokka í framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins. Þeir fundir og þau tvíhliða samskipti munu halda áfram. Þetta tel ég að hafi ekki komið nægilega skýrt fram í málflutningi þeirra sem nú mæla hvað mest með tvíhliða samstarfi. Hins vegar verða menn að átta sig á því að mestar líkur eru á að

Evrópubandalagið kjósi helst að semja við EFTA-ríkin sem mest sameiginlega á næstunni. Við höfum mikið gagn af þeirri samleið af því að við eigum þar hagsmunasamleið á mörgum sviðum. Við eigum að grípa það tækifæri, eins og hæstv. utanrrh. komst að orði hér áðan, og ekki er víst að annað slíkt tækifæri eða betra gefist á næstunni.
    Málflutningur sjálfstæðismanna í þessum viðræðum, þar sem tvíhliða viðræður eru settar efstar á blað og virðast settar fram eins og einhvers konar valkostur við samstarfið við EFTA-ríkin, lýsa að mínu áliti furðulegum tvískinnungi og virðast ekki í samræmi við efnisrök eða framvindu málsins eða fyrri afstöðu ráðherra Sjálfstfl. í ríkisstjórn. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og menn hljóta að spyrja: Eru málsvarar Sjálfstfl. að leggja til að við rjúfum samstarfið við EFTA-ríkin?
    Þá vil ég einnig benda á að fleiri leiðir liggja til samstarfs við ríki Evrópubandalagsins en tvíhliða viðræður og samstarf við EFTA-ríkin. Ég bendi á að norrænt samstarf á sviði félagslegra réttinda, neytendaverndar, umhverfisverndar og vinnuverndar er vænlegur farvegur til að fá framgengt íslenskum hagsmunamálum. Samstarfsráðherrar Norðurlanda samþykktu í júní sl. víðtæka samstarfsáætlun til þess að treysta stöðu Norðurlanda í Evrópusamstarfinu. Ég nefni þetta sérstaklega hér vegna þess að ég tel að á þessum vettvangi getum við unnið að framgangi margra okkar mála. Ég bendi t.d. á umfangsmikla samstarfsáætlun á sviði hvers konar framleiðslustaðla og gæðaprófunar til þess að færa þetta nær vettvangi lífs og starfs í okkar framleiðslugreinum.
    Það þarf ekki að endurtaka hér en skal þó gert að við Íslendingar höfnum því afdráttarlaust að láta veiðiheimildir í skiptum fyrir aðgang að mörkuðum fyrir sjávarafurðir. Við eigum lífsafkomu okkar undir því að sitja einir að takmörkuðum fiskstofnum umhverfis landið. Við þurfum að vinna þessu sjónarmiði aukinn skilning og ég tel að okkur hafi orðið nokkuð ágengt í þeim efnum einmitt með tvíhliða viðræðum, samtölum við fulltrúa einstakra Evrópubandalagsríkja og fulltrúa framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins. Það sem verður erfiðast við að fást er að sjálfsögðu sú aflögun á samkeppnisskilyrðum í Evrópu sem fólgin er í umfangsmiklum styrkja- og niðurgreiðslukerfum í sjávarútvegi þessara ríkja. Þeim fáum við ekki breytt í skyndingu, en þurfum að leita leiða til þess að tryggja að fríverslun með fisk verði raunveruleg fríverslun sem ekki verði skekkt af slíkri íhlutun. En okkur hættir kannski til að reka þetta mál gagnvart Evrópubandalaginu og Evrópuríkjunum of mikið út frá þrengstu sérhagsmunum. Það er ekki síður mikilvægt að líta til þess, og það er sjónarmið sem auðvelt er að vinna skilning á, að Íslendingum sem eyþjóð og strandríki ber skylda til þess skv. hafréttarsáttmálanum að nýta skynsamlega þær auðlindir sem undir okkar lögsögu heyra, öllu mannkyni til gagns. Þetta er það sjónarmið sem ég tel að verði heilladrýgst fyrir utan það sem okkur er nú tamast að tala um,

menningarlega sérstöðu okkar meðal Evrópuríkja til þess að vinna skilning á sérstöðu Íslendinga. En sérstaða Íslendinga verður líka að vera mörkuð því að við viljum hafa samstöðu með Evrópumönnum.