Löggæsla í Reykjavík
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Enda þótt skammt verði komist í tveggja mínútna svari í jafnviðamiklu máli og hér er vakið máls á, um löggæslu og öryggi borgaranna, vil ég svara hv. 14. þm. Reykv. svo sem mér er unnt innan þeirra marka sem hér eru sett.
    Augljóst er að efling og aukning löggæslu á mesta þéttbýlissvæði landsins hefur ekki orðið í sama hlutfalli og þéttbýlisaukningin og fjölgun afbrota á því sama svæði, hvað þá ef höfð er í huga breytingin á eðli afbrotanna. Þetta sést best á því að heildarstöðufjöldi lögreglu í Reykjavík, fastar stöður og afleysingastöður, hefur verið óbreyttur frá árinu 1983 að undanskildum fjórum stöðum sem bættust við í ávana- og fíkniefnadeild 1986 og einu stöðugildi árið 1989.
    Úr því þessi mikilvægi málaflokkur varð svo undir í samkeppni um fjármagnið á veltiárunum er út af fyrir sig skiljanlegt að baráttan sé ekki léttari þegar syrtir í álinn um almennan þjóðarhag. Engu að síður er gert ráð fyrir fjölgun um sex ný stöðugildi skv. því fjárlagafrv. sem nú er til meðferðar hjá hv. fjvn. Dómsmrn. hefur mælt með beiðni lögreglustjórans í Reykjavík um 14 ný stöðugildi að auki og mun leita eftir því við hv. fjvn. að fjölgun stöðugilda fáist samþykkt.
    Á undanförnum árum hefur verið unnið að margs konar hagræðingu í löggæslustörfum hér á landi og þá ekki síst á Reykjavíkursvæðinu og Lögregluskóli ríkisins hefur verið gerður að sjálfstæðri stofnun. Hins vegar tel ég að margt megi enn bæta í þessu efni auk þess sem þegar er getið.
    Í fyrsta lagi með því að breyta beitingu mannafla og tækjakosts enn frekar en þegar er orðið til forvarna og fyrirbyggjandi starfs.
    Í annan stað með því að einbeita löggæslunni með samræmdum aðgerðum og í flestum deildum hennar að virku samstarfi við hinn almenna borgara í samfélaginu, hvort sem er í skólum, í atvinnulífinu eða annars staðar í þjóðfélaginu. Ég tel að ná mætti betri árangri til raunhæfra, jákvæðra afbrotavarna er byggðust á sömu grunnhugsun og hér hefur verið beitt við skipulag almannavarna, þ.e. að virkja þau öfl til árangursríks samstarfs sem fyrir eru á vettvangi á hinum ýmsu sviðum samfélagsins. Í þessa átt mun dómsmrn. beina áhrifum sínum á næstunni og leitast á þann hátt við að fylgja því fordæmi sem Lögreglufélag Reykjavíkur og Landssamband lögreglumanna hafa sýnt í þessu efni m.a. alveg nú nýverið með tveggja daga ráðstefnu um löggæslu næstu framtíðar.
    Ég hef undanfarið rætt við fjölda manna á ýmsum stigum þessa starfs og fundið mikinn vilja til heils samstarfs í þessu efni. Og vissulega bind ég vonir við að slíkt samstarf gefi jákvæðan árangur.