Fyrirspurn um framfærsluvísitölu
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Á fyrstu dögum þessa þings lagði ég fram fsp. til hæstv. hagstofuráðherra um samsetningu vísitölu framfærslukostnaðar. Svar barst eftir nokkurn tíma og beið ég hinn rólegasti eftir því og reiknaði þá með í mínum rólegheitum að ég fengi viðunandi svar við þessari fsp. Annað hefur komið í ljós. Það svar sem ég hef fengið er alls ekki fullnægjandi og svarar í nánast engu þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hæstv. ráðherra.
    Það er mín skoðun að úr því að forseti heimilaði þessa fsp., þá bæri ráðherra að svara henni eins og hún er lögð fyrir hann. Þar sem það hefur ekki verið gert vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hann geti nú ekki leitast við að fá hæstv. hagstofuráðherra til að svara fsp. á fullnægjandi hátt.