Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Það er vissulega hægt að taka undir það sem þeir þingmenn hafa sagt sem tekið hafa til máls í þessari umræðu að hér er um afar mikilvægt mál að ræða, sennilega eitt það mikilvægasta sem þetta Alþingi kemur til með að fjalla um og þess vegna ekki óeðlilegt að þingmenn gefi sér góðan tíma til að ræða stöðu þess og átta sig á hvernig líklegt er að mál muni þróast í nánustu framtíð.
    Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessa skýrslu. Þetta er ágæt skýrsla um gang mála og stöðu undirbúningsviðræðna milli EFTA og EB. Hins vegar vantar í þessa skýrslu, og það vil ég gagnrýna, greinargerð um hina pólitísku stöðu þessara mála hér á Íslandi. Hver er raunverulega stefna hæstv. ríkisstjórnar varðandi þær viðræður sem líklegt er að fari fram á næstunni? Þess vegna hefði verið alveg nauðsynlegt að fyrir lægi í þessum umræðum nánari úttekt á hinni pólitísku stöðu okkar Íslendinga í þessu máli.
    Það er skammt til þess að sameiginlegur fundur ráðherra EFTA og Evrópubandalagsins fari fram og þar á að taka mjög mikilvægar ákvarðanir um þær viðræður sem til stendur að fari fram milli EFTA og Evrópubandalagsins og jafnframt á hvaða grundvelli þær viðræður eigi fram að fara. Við þingmenn hljótum þess vegna að spyrja okkur: Hvaða umboð hefur hæstv. utanrrh. í þessum umræðum? Hvaða grundvöll kemur hann til með að leggja að þeim ákvörðunum sem hann hyggst taka fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar og fyrir hönd Alþingis í þessum mikilvægu viðræðum sem fyrir dyrum standa?
    Hér hafa verið haldnar margar ræður um þetta mál og í rauninni er niðurstaða umræðnanna sú að innan ríkisstjórnarinnar er allt á tjá og tundri um stefnu í þessum málum, um það á hvaða grundvelli Ísland vilji taka þátt í sameiginlegum viðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið. Ég skal aðeins vitna í nokkrar ræður sem fluttar hafa verið, máli mínu til stuðnings.
    Hæstv. utanrrh. vill hefja þessar viðræður innan EFTA-rammans og á þeim grundvelli sem fyrir liggur og hann lýsti í sinni ræðu. Hann lauk ræðunni með því að tilgreina 15 atriði sem væru sameiginlegar niðurstöður ráðherra
EFTA-ríkjanna varðandi þessar viðræður sem hér eiga fram að fara. Ég ætla aðeins að rifja upp nokkur þessara atriða, með leyfi forseta:
,,1. Við ætlum okkur sameiginlega að standa fast við markmið og skuldbindingar leiðtogafundarins í Osló frá því í mars.
    2. Það er sameiginlegt pólitískt mat okkar [þetta eru ráðherrar EFTA-ríkjanna] á niðurstöðum stjórnarnefndarinnar að þær séu vissulega jákvæðar. Við erum sammála um að nægjanlegur sameiginlegur grundvöllur til samningsgerðar sé fyrir hendi og erum einhuga um að halda áfram af fullum krafti.
    3. Við vonumst til að sameiginlegur fundur EFTA-ríkja og Evrópubandalags, sem haldinn verður þann 19. des., lýsi yfir skýrum pólitískum vilja um að

undirbúningsviðræður um víðtækan samning um sameiginlegt evrópskt efnahagssvæði geti hafist sem fyrst og í framhaldi af þeim samningaviðræðurnar sjálfar snemma á árinu 1990.
    4. EFTA-ríkin munu hér eftir sem hingað til tala einum rómi í þessum viðræðum.``
    Þetta eru fjögur fyrstu atriðin af þeim 15 atriðum sem hæstv. utanrrh. tilgreindi að væri sameiginleg niðurstaða ráðherra EFTA-ríkjanna um grundvöll fyrir þessum viðræðum. Ég held að það fari því enginn í grafgötur með það hver sé skoðun hæstv. utanrrh. á þessu máli og að hverju hann vilji stefna.
    Hæstv. forsrh. lýsti þeirri skoðun sinni að hann teldi rétt að ganga til samninga á grundvelli þeirrar vinnu sem unnin hefði verið. En það var mjög athyglisvert að hæstv. forsrh. hóf ræðu sína með því að gefa þá yfirlýsingu að þingflokkur Framsfl. teldi rétt að ganga ætti til samninga á grundvelli þeirrar vinnu sem unnin hefði verið. Hæstv. forsrh. talaði sem sagt fyrir hönd þingflokks Framsfl. í þessu máli. Hann gaf ekki neina yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar. Þess vegna hlýtur maður að spyrja: Hver er stefna hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli?
    Hv. 2. þm. Austurl. hélt hér athyglisverða ræðu og andmælti sterklega með vísun í ályktun nýafstaðins landsfundar Alþb. að farið yrði í þessar samningaviðræður. Ég vil leyfa mér að vitna í nokkur atriði í hans ræðu máli mínu til stuðnings.
    Hann sagði t.d. að Alþb. teldi nauðsynlegt að yfir þessi mál væri farið með öðrum hætti en fyrir liggur af framkominni skýrslu hæstv. utanrrh. Hann sagði einnig á öðrum stað í sinni ræðu --- og ég vitna hér, með leyfi forseta, í ræðu hv. 2. þm. Austurl.: ,,Ég gæti haft um þetta, herra forseti, mörg orð en ég tel nægja að vitna til þess sem hér liggur fyrir í skýrslu hæstv. ráðherra um þessi efni þar sem allt er í þoku varðandi þessa þætti, hina stofnanalegu þætti, eftirlit og dómstóla.`` Á enn öðrum stað í ræðu sinni sagði hv. 2. þm. Austurl. að málsmeðferðin varðandi þessa þætti væri andstæða lýðræðislegra vinnubragða.
    Ég vek sérstaka athygli á því, virðulegi forseti, að þetta er eini talsmaður Alþb. sem hefur talað í þessari umræðu. Það vekur sérstaka athygli að af hálfu Framsfl. hafa tveir ráðherrar tekið þátt í umræðunni, hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. Af hálfu Alþfl. hafa tveir ráðherrar tekið þátt í umræðunni, hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh. En hv. 2. þm. Austurl. er eini málsvari Alþb. í þessari umræðu og hæstv. ráðherrar Alþb. láta ekki sjá sig hér í þingsölunum á meðan þessi umræða fer fram.
    Ég vil því, virðulegi forseti, eindregið fara þess á leit að þess verði óskað að hæstv. fjmrh., formaður Alþb., verði viðstaddur þessa umræðu og geri sem formaður flokksins og ráðherra í þessari ríkisstjórn grein fyrir skoðun og stefnu ráðherra Alþb. í ríkisstjórninni. ( Forseti: Forseti mun tafarlaust verða við þessari ósk.) Ástæðan fyrir því að ég fer fram á þetta er sú að hæstv. viðskrh. lýsti því yfir hér í sinni ræðu á föstudaginn var að um þetta mál væri samstaða innan ríkisstjórnarinnar. Með öðrum orðum:

Ef sú yfirlýsing hæstv. viðskrh. er rétt þá flytur hv. 2. þm. Austurl. ekki stefnu ráðherra Alþb. hér í þessu máli.
    Hv. 2. þm. Austurl. styðst að vísu við ályktanir landsfundar Alþb. í þessu máli, hefur lesið þær upp og byggði sinn málflutning á þeim grundvelli. Mér er það fullkomlega ljóst en það vekur athygli og ég ítreka það að hæstv. ráðherrar Alþb. hafa ekki treyst sér til að vera í þessari umræðu og maður hlýtur að spyrja sjálfan sig: Eru hæstv. ráðherrar Alþb. annarrar skoðunar en hv. 2. þm. Austurl.? Er það hugsanlegt að hv. 2. þm. Austurl., sem talsmaður Alþb. í þessari umræðu, sé hér mættur og sendur til þess að túlka skoðanir Alþb. en hæstv. ráðherrar ætli síðan að hegða sér öðruvísi innan ríkisstjórnarinnar? Mér sýnist satt að segja að eins og þessi málflutningur allur er byggður upp séu miklar líkur til að þetta sé raunin. Og þess vegna er það afar mikilvægt áður en þessari umræðu lýkur að hæstv. fjmrh. komi í þennan ræðustól til að skýra rækilega hver sé stefna ráðherra Alþb. í þessu máli.
    Það er stutt í þennan fund milli ráðherra EFTA og Evrópubandalagsins og það er auðvitað nauðsynlegt að hæstv. utanrrh. hafi alveg kristaltært umboð frá ríkisstjórninni og frá Alþingi um það hvað hann eigi að samþykkja þegar á þennan fund kemur. Eins og málin standa í dag eftir þessar umræður, ef maður dregur af þeim ályktanir, þá er hæstv. ráðherra umboðslaus í málinu. Auðvitað er mér ljóst að hann verður að mæta á þessum fundi sem formaður ráðherranefndar EFTA-ríkjanna og gegna þar skyldum sínum sem slíkur. En það umboð sem hann hefur frá hæstv. ríkisstjórn og frá Alþingi, það er allt á huldu um efni þess.
    Ég verð að segja að mér kemur óneitanlega í hug umboð það sem biskupinn í Kristnihaldi undir Jökli gaf umboðsmanni sínum þegar hann sendi umboðsmanninn, Umba, í hina frægu för vestur undir Jökul og ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að vitna í þetta umboð og lesa það upp:
    ,,Biskupinn segir: Bara segja og gera sem fæst. Hafa augun hjá sér. Tala um veðráttu. Spyrja hvurnin sumarið hafi verið í fyrra og hittifyrra, segja að
biskupinn hafi gikt. Ef menn hafa gikt spyrja hvar hún liggi í þeim. Ekki reyna að laga neitt --- það er okkar mál í kirkjumálaráðuneytinu, svo fremi við vitum hvað er að. Vér biðjum um skýrslu, það er allt og sumt. Má einu gilda hvaða kreddur og fabúlur þeir koma upp með, þér eigið ekki að snúa þeim. Ekki reformera neitt eða neinn. Lofa þeim að tala, þræta ekki. Og ef þeir þegja, um hvað þegja þeir? Nótera það sem skiftir máli, ég gef yður upp umgerðina í erindisbréfinu. Ekki dreifa úr sér sjálfur. Skrifa þurt! Við viljum ekkert heyra broslegt að vestan, við hlæum upp á kostnað sjálfra okkar hér fyrir sunnan. Skrifa sem mest í þriðju persónu. Akademiskur, já, en í hófi. Læra af hljóðritanum.``
    Svona hljóðaði umboð biskups og eins og málin standa hér nú eftir þessa umræðu er umboð hæstv. utanrrh. á engan hátt víðtækara en það umboð sem

biskupinn gaf umboðsmanni sínum í hina frægu för vestur undir Jökul. Þess vegna er auðvitað nauðsynlegt að þetta verði nánar skýrt áður en þessari umræðu lýkur.
    Þingmenn Sjálfstfl. hafa allnokkrir lýst sínum sjónarmiðum hér í þessari umræðu og ég þarf ekki að hafa mörg orð um það að við erum fylgjandi því að Ísland taki þátt í þeim viðræðum sem að er stefnt milli EFTA og Evrópubandalagsins og við viljum að í þeim viðræðum sé lögð áhersla á okkar sérstöðu. Við höfum hins vegar jafnframt lagt áherslu á það að fram fari tvíhliða viðræður milli Íslands og Evrópubandalagsins, ekki viðræður við framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins eins og sumir hafa viljað skilja okkar málflutning, heldur hina pólitísku leiðtoga bandalagsins.
    Hvers vegna er það sem við þingmenn Sjálfstfl. leggjum áherslu á að jafnframt EFTA/Evrópubandalagsviðræðunum fari fram tvíhliða viðræður milli Íslands og Evrópubandalagsins? Ég ætla aðeins að fara um það nokkrum orðum.
    Frelsi í viðskiptum Evrópubandalagslanda er fyrst og fremst frelsi með iðnaðarvörur. Það er vissulega mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga. EFTA-aðildin á sínum tíma gerði það að verkum að íslenskur iðnaður fékk harða
samkeppni frá iðnaði EFTA-ríkjanna og seinna frá EB-ríkjunum eftir að við gerðum sérstakan samning við Evrópubandalagið og ég er ekki í neinum vafa um það að það hefur hert okkar iðnað og styrkt og hann hefur sýnt það að vera vel samkeppnishæfur við iðnað annarra landa. Það er hins vegar alveg ljóst að Evrópubandalagið hefur ekki viljað ræða um sjávarafurðir þegar rætt er um þessi svokölluðu fjögur frelsi. Frjáls viðskipti með sjávarafurðir tíðkast ekki innan ... ( Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að genginn er í salinn einn af ráðherrum Alþb. Fjmrh. mun koma í salinn kl. 4.) Ég þakka virðulegum forseta fyrir og sætti mig fullkomlega við þá meðferð mála. --- Ég var að minnast á að frjáls viðskipti með sjávarafurðir tíðkast ekki hjá Evrópubandalaginu. Það er gríðarlega mikil styrkjastefna í gangi innan Evrópubandalagsins. Það er talið að á árunum 1987--1992 verði veitt 70 milljörðum íslenskra króna af hálfu Evrópubandalagsins í styrki til sjávarútvegs og að auki styrkja einstök lönd og jafnvel einstök héruð sjávarútveg með ýmsu tagi. Við skulum nefna dæmi.
    Nú er fullkomin síldarverksmiðja í byggingu í Cuxhaven í Vestur-Þýskalandi. 25% þeirrar fjárfestingar eru greidd af Evrópubandalaginu og 25% af því ríki innan þýska sambandslýðveldisins sem Cuxhaven tilheyrir. Með öðrum orðum: 50% af fjárfestingarkostnaði þessarar einu verksmiðju eru greidd af Evrópubandalaginu eða þýska ríkinu í einu eða öðru formi. Það má nefna fleiri slík dæmi og þeir sem gerst þekkja telja að það sé útilokað að reikna með að þessi styrkjastefna, sem gengur auðvitað þvert á fríverslunarhugmyndir, verði aflögð innan Evrópubandalagsins.

    Stefna Evrópubandalagsins í fiskveiðum hefur verið kynnt okkur, m.a. af samtökum atvinnurekenda í sjávarútvegi, og meginatriði sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu bandalagsins eru: Að tryggja verndun fiskstofna og úthluta fiskkvótum. Að efla sjávarútveginn með nýrri tækni, bættri hafnaraðstöðu og innri uppbyggingu og tryggja að útgerð og fiskvinnsla sé ávallt samkeppnisfær. Að tryggja nægilegt framboð af fiski af þeirri tegund og gæðum sem eftirspurn er eftir og tryggja fjárhagslega afkomu þeirra sem við sjávarútveg starfa, að semja við lönd utan bandalagsins um veiðiréttindi á áður hefðbundnum miðum bandalagsríkjanna og um veiðiréttindi, annaðhvort gegn viðskiptafríðindum eða gegn kaupum á veiðiréttindum. Þetta er sem sagt hin sameiginlega sjávarútvegsstefna bandalagsins og það eru ekki neinar líkur á því að mati manna að viðræðurnar milli EFTA og Evrópubandalagsins muni að nokkru leyti breyta þessari innri stefnu bandalagsins.
    Hin mikla sérstaða okkar Íslendinga, þar sem sjávarútvegsvörur eru okkar mikilvægasta útflutningsgrein, gerir það að verkum að það er nauðsynlegt fyrir okkur að ná tvíhliða samningi við Evrópubandalagið án þess að þurfa að láta nokkuð af okkar fiskveiðiréttindum af hendi og ég hygg að um það séu allir sammála. Sérstaða okkar er því mikil gagnvart Evrópubandalaginu og sérstaða okkar er einnig mikil innan EFTA. Það hefur verið minnst á það hér í umræðunum að fiskútflutningur Norðmanna, sem er stærsta fiskútflutningsþjóðin í EFTA-ríkjunum, sé einhvers staðar á bilinu 6--7% af árlegum útflutningi þeirra þegar okkar útflutningur liggur einhvers staðar á bilinu 75--80% frá ári til árs. Við hljótum því að draga það mjög í efa að við fáum innan EFTA þann stuðning sem við þurfum til þess að sérstaða okkar varðandi sjávarútveg komist í gegn í þeim viðræðum. Um það skal ég þó ekkert fullyrða. Ég skal engu spá um það. En það þarf greinilega ansi mikið til að koma til að þessi sérstaða okkar náist í gegn í þeim viðræðum. Það er af þessum ástæðum sem við þingmenn Sjálfstfl. höfum lagt á það áherslu að jafnframt verði óskað eftir tvíhliða viðræðum.
    Mér finnst að hin öra þróun sem orðið hefur síðustu vikur í Evrópu styðji þetta sjónarmið okkar. Austantjaldslöndin hafa nú verið að hrista af sér ok sósíalimans eins og kunnugt er og þarf ekki að hafa mörg orð um það. Það kemur glögglega fram í umræðum í evrópskum blöðum einmitt nú þessa dagana og þessar vikurnar að áhugi Evrópubandalagsins sé nú meir að færast yfir í austantjaldslöndin, sem sagt frá EFTA-viðræðunum. Menn draga það í efa hvað Evrópubandalagið geti lagt mikla orku í viðræður af þessu tagi og það séu meiri líkur á því að nú, eftir þessar öru breytingar í Austur-Evrópu, verði áherslan lögð á viðræður við Austur-Evrópuríkin frekar en EFTA. Ég skal engan dóm á þetta leggja en þetta les maður dag eftir dag í evrópskum blöðum.
    Ég vil líka benda á að í upplýsingum sem okkur

birtust í fræðsluriti Félags ísl. iðnrekenda um málefni Evrópu segir, með leyfi forseta:
    ,,Þá er líka rétt að hafa í huga að margt bendir til þess að áhugi EFTA og Evrópubandalagsins á þeim viðræðum sem nú standa yfir séu í öfugu hlutfalli við stærð þeirra. Hér má nefna sem dæmi að samskiptin við EFTA hafa ekki verið á dagskrá ráðherraráðsins síðan einhvern tíma í vor, en á hverjum fundi er fjallað um Austur-Evrópu.`` --- Þetta er úr blaði sem kom út nú í nóvember.
    Það bendir því mjög margt til þess að þessar heildarviðræður EFTA við Evrópubandalagið muni dragast á langinn og á meðan verður þróunin varðandi sölu á okkar sjávarútvegsvörum óhagstæðari.
    Því hefur verið haldið fram í þessum umræðum að sú áhersla sem við þingmenn Sjálfstfl. höfum lagt á tvíhliða viðræðurnar feli í sér tvískinnung. Hæstv. viðskrh. orðaði þetta þannig í sinni ræðu hér á föstudaginn að þetta fæli í sér tvískinnung hjá okkur þingmönnum Sjálfstfl., þetta væri andstætt fyrri málflutningi og aðgerðum ráðherra flokksins. Síðan spurði hæstv. viðskrh.: Er Sjálfstfl. að leggja til að við rjúfum samstarf við EFTA-ríkin? Þetta er ótrúlegur barnaskapur að spyrja þannig. Ég get í rauninni ekki fundið neitt orð í minni orðabók sem hæfir betur spurningu eða málflutningi af þessu tagi en barnaskapur. Þetta er ekki svo. Það veit auðvitað hæstv. viðskrh. Við höfum lýst því yfir að við viljum að þessar viðræður fari fram innan EFTA þó að við jafnframt teljum að fara eigi í tvíhliða viðræður. Það hefur enginn af okkur þingmönnum Sjálfstfl. haldið því fram að við viljum rjúfa þetta samstarf við EFTA-ríkin. Við höfum hins vegar lagt áherslu á tvíhliða viðræður og þá segja sumir hæstv. ráðherrar: Þessar tvíhliða viðræður eru í gangi --- og benda á viðtöl sem fram fara milli einstakra ráðherra íslenskra og einstakra ráðherra eða leiðtoga í Evrópubandalagslöndum. Það er allt gott um slík viðtöl að segja og ég tek það fram að ég held að við gerum aldrei nóg af því að kynna okkar sérstöðu og kynna okkar málstað í viðræðum við stjórnmálamenn og stjórnmálaleiðtoga í Evrópu-ríkjunum. En slíkar viðræður eru auðvitað ekki neinar formlegar viðræður. Það sem við eigum við er að óskað verði eftir formlegum viðræðum. Ég legg áherslu á að við erum ekki með framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins í huga í þeim efnum, heldur hina pólitísku leiðtoga eða leiðtogaráðið sem menn kalla svo innan Evrópubandalagsins sem er nú að gera sig æ meira gildandi eins og fréttir hafa komið um í blöðum.
    Menn segja að þetta sé óraunsæi og beri vott um litla þekkingu á málefnum Evrópubandalagsins og þessara mála eins og sérfræðingur Framsfl. í utanríkismálum, hv. 1. þm. Norðurl. v., sagði í sinni ræðu hér áðan. Það kann vel að vera að hann meti það svo að við vitum ekki hvað við erum að tala um eða við höfum ekki þekkingu á þessum málum Evrópubandalagsins eða EFTA. Ég vek hins vegar athygli á því að hagsmunasamtök í landinu hver á fætur öðrum eins og t.d. hagsmunasamtök

sjávarútvegsins hafa núna lagt þunga og vaxandi áherslu á að þannig verði að þessum málum staðið.
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins áður en ég lýk máli mínu minnast á eitt atriði sem skiptir miklu máli í þessu sambandi en er nokkuð annars eðlis en það sem ég hef rætt til þessa, en það er hversu mikil nauðsyn er á því hjá okkur að ná samkomulagi við Evrópubandalagslöndin um menningar- og menntamál. Ég lít á þetta mál sem tvíþætt, þ.e. í fyrsta lagi aðgang að menntastofnunum innan Evrópubandalagsins. Það er staðreynd að á síðasta hausti var fjöldamörgum íslenskum námsmönnum vísað frá skólum í Evrópubandalagslöndunum, m.a. dönskum skólum, vegna nýrra reglna sem þegar eru komnar í framkvæmd. Það er ekkert sem menn eru að bíða eftir að gerist árið 1992 í því sambandi. Þetta eru reglur sem þegar eru komnar í framkvæmd innan Evrópubandalagsins, að þrengja að því að námsmenn utan bandalagsins geti sest í evrópska skóla. Og jafnvel í Danmörku, okkar gamla samstarfsríki, hefur þetta gerst í stórum stíl á sl. hausti. Þeir sem voru svo skynsamir að skrifa til baka og sættu sig ekki við neitunina og létu þess getið að foreldrarnir væru fæddir í hinu sameiginlega dansk-íslenska ríki fyrir 1944 virðast að vísu hafa fengið einhverja betri úrlausn og fengu aðgang í skóla á grundvelli þeirra raka, en það er enginn vafi á því að þetta er vaxandi vandamál. Það er afar slæmt fyrir okkur Íslendinga að þurfa að sæta því að vera þannig í vaxandi mæli lokaðir frá háskólum í Evrópu.
    Hinn þáttur málsins er --- og ég skal ekki gera hann mjög að umtalsefni í þessari umræðu --- um undirbúning íslenska menntakerfisins sem ég hygg að við höfum ekki hugsað nægilega um, sérstaklega varðandi iðn- og verkmenntun. Það er verið að breyta alls kyns stöðlum og alls kyns matsreglum varðandi hæfni manna til þess að stunda ýmiss konar störf sem snerta tækni- og verkmenntun. Við höfum greinilega ekki fylgst nægilega vel með í því, Íslendingar, og hættan er því sú að okkar tæknimenn verði innan örskamms tíma ekki gjaldgengir á hinum evrópska markaði sem er auðvitað mjög slæmt. Það er hins vegar mál sem fyrst og fremst snýr að okkur sjálfum en ég vildi þó gera að umtalsefni í þessari ræðu.
    Virðulegi forseti. Það væri vissulega tilefni til að ræða þetta ítarlegar og reyndar fleiri hliðar á þessu mikilvæga máli, en ég læt hér staðar numið. En ég ítreka þá eindregnu ósk og ég vil segja kröfu okkar, þingmanna Sjálfstfl., til formanns Alþb. að hann stígi í þennan ræðustól áður en þessi umræða er á enda til þess að lýsa því hver afstaða ráðherra Alþb. er.