Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Ég held að það hafi fleirum farið svo sem mér þegar birtar voru niðurstöður skoðanakönnunar um afstöðuna til Evrópubandalagsins að mönnum hnykkti við og þeir töldu þá afstöðu byggjast á ónógri umræðu um þessi mál hérlendis. Ég held að nauðsynlegt sé að við þingmenn ræðum þessi mál og tökum til þess tíma og það höfum við reyndar gert nú síðustu dagana og ég leyfi mér að taka þátt í þessari umræðu þó að ég eigi ekki sæti í Evrópunefnd eða sé talsmaður ríkisstjórnar né annað það sem hv. þm. hafa verið að telja upp í sínum ræðum. ( ÞP: Hv. þm. á að vera talsmaður ríkisstjórnarinnar.) Hann er ákafur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar eins og hv. 1. þm. Suðurl. veit og hefur ekki hugsað sér að snúa af þeirri braut í þessari ræðu. En almennar umræður hafa verið miklar um þetta mál nú upp á síðkastið. Það þarf ekki að líta lengra en svona tvö ár aftur í tímann til þess að sjá að þá voru litlar umræður um Evrópubandalagið hér á landi og það þó að hvíta bókin svokallaða um innri markaðinn hafi verið gefin út fyrir fimm árum. Atburðarásin í þessum málum er hröð og eins og hér hefur komið fram stöndum við frammi fyrir afdrifaríkum ákvörðunum nú í lok desember.
    Við höfum fengið það hlutverk að leiða könnunarviðræður EFTA við Evrópubandalagið og efni þessarar umræðu er skýrsla utanrrh. um þær viðræður. Forsrh. hefur fyrr í þessari umræðu lýst skoðun þingflokks Framsfl. á málinu, þeirri að við eigum að ganga til viðræðu við Efnahagsbandalagið með öðrum EFTA-ríkjum. Það er áríðandi að nota vel tímann þangað til til að skilgreina markmið okkar Íslendinga í þeim viðræðum sem best og skýra stefnumörkunina í þeim málum og það sé ljóst hvar takmörkin af okkar hálfu liggja. En það er áríðandi að sem breiðust pólitísk samstaða takist hér heima fyrir um þessa stefnumörkun. Hingað til hefur hún verið fyrir hendi. Það hefur verið samstaða hingað til um þau grundvallaratriði að full aðild að bandalaginu komi ekki til greina, að við skiptum ekki á fríverslun með fisk og veiðiheimildum í íslenskri fiskveiðilögsögu. Full aðild að bandalaginu þýðir, eins og komið hefur fram, sameiginlega stjórn bandalagsríkja yfir auðlindum, þar á meðal fiskistofnum og auðlindum hafsins, og yfirþjóðlega ákvarðanatöku. Fyrir svo litla þjóð með svo mikla sérstöðu eins og okkur Íslendinga kemur slík aðild ekki til greina og ég vona satt að segja að samstaða haldist um þessa afstöðu áfram meðal þjóðarinnar og hún haldist áfram í kjölfar þeirrar umræðu sem nú er um þessi mál og í ljósi þeirra upplýsinga sem nú koma fram daglega um þessa hluti.
    Ég veit að margir kunna að spyrja sem svo hvað sé í húfi fyrir Íslendinga, hvers vegna allt sé á öðrum endanum vegna þessara viðræðna, hver hagur okkar sé af frekari samningum við Efnahagsbandalagið en felast í bókun 6 og felur í sér tollfrelsi fyrir ýmsar mikilvægar sjávarafurðir. Því er til að svara að náist

samningar um evrópskt efnahagssvæði og við verðum ekki aðilar að því samkomulagi og við stöndum fyrir utan er hætt við að sú einangrun verði okkur afar óþægileg og það valdi okkur miklum erfiðleikum að búa við hana, komi jafnvel niður á okkar lífskjörum, þeim sem við viljum búa við.
    Leiðarljós okkar Íslendinga í þessum viðræðum á að vera fríverslun með fisk. Í því felast fyrst og fremst hagsmunir okkar á þessu sviði og í þessu samstarfi. Þeir felast vissulega í mörgum öðrum atriðum, svo sem aðlögun á ýmsum sviðum, t.d. í fríverslun með iðnaðarvörur á sviði mennta og rannsókna, og í aðlögun á fjölmörgum sviðum öðrum eins og komið hefur fram.
    Það hefur verið nokkur svartsýni um það hér í þessum umræðum og hefur komið fram hjá mörgum hv. þm. að fríverslun með fisk verði erfiður hjalli í viðræðunum og ég er þeirrar skoðunar einnig, að það er ekki hægt að ganga að því vísu að þau mál verði leidd til lykta í þessum ferli. Ástæðurnar eru þær að Íslendingar hafa algjöra sérstöðu á sviði sjávarútvegs meðan þessi atvinnugrein er óveruleg í ríkjum Evrópubandalagsins miðað við aðrar atvinnugreinar í þeim ríkjum. Sjávarútvegur nýtur verulegra styrkja í bandalagslöndunum í skjóli sameiginlegrar stefnu í sjávarútvegi sem bandalagið rekur. Það þarf því að taka upp tvíhliða viðræður á einhverju stigi, viðræður við Evrópubandalagið, um samning um sjávarútvegsmál sem byggir á þessari sérstöðu.
    Í umræðum um Evrópubandalagið á vettvangi EFTA og vettvangi Norðurlandaráðs hefur borið mikið á svardögum um að við séum Evrópuþjóð og viljum vera það. Það er vissulega rétt. Við eigum samleið með Vestur-Evrópu á mörgum sviðum, en þrátt fyrir það höfum við mikil samskipti við önnur markaðssvæði og önnur svæði í veröldinni. Við höfum mikil samskipti við Bandaríkin á viðskiptasviðinu auk þess varnarsamstarfs sem við höfum við þá. Viðskipti við Asíulönd og útflutningur til Japans fara mjög vaxandi og við höfum um árabil átt mikil viðskipti við Austur-Evrópuþjóðir þó að blikur séu nú á lofti vegna þeirra miklu breytinga sem þar eiga sér stað og hafa komið berlega fram í atburðum og umræðum síðustu daga.
    Við verðum að sjálfsögðu, og ég tek eindregið undir það sem víða hefur komið
fram hjá hv. þm. í umræðunni, að halda þessari stöðu og við megum ekki vanrækja samskiptin við önnur markaðssvæði þrátt fyrir þá áherslu sem við leggjum núna á þessar viðræður við Evrópubandalagið. Við megum ekki falla í þá gryfju að telja að þessar viðræður séu einhver allsherjarlausn á okkar utanríkisviðskiptum um alla framtíð.
    Innviði Evrópubandalagsins mynda ólíkar þjóðir með ólíka hagsmuni og markmið. Í bandalaginu er að finna þróuðustu iðnríki heimsins og þar eru einnig þjóðir Suður-Evrópu þar sem lífskjör og félagsleg réttindi fólks standa langt að baki því sem gerist í Norður-Evrópu. Því getur áhuginn á samningum við EFTA verið mjög mismunandi hjá aðildarþjóðunum og

því er ekki að neita að þær raddir heyrast að hin ríku lönd norðursins séu að reyna að fleyta rjómann af samstarfi við Evrópubandalagið án þess að láta ýkja mikið í staðinn. Því getur áreiðanlega brugðið til beggja vona í þessum samningaviðræðum þegar þær fara af stað og ekki er loku fyrir það skotið að umræðu um fulla aðild einhverra EFTA-ríkja vaxi ásmegin ef þessar viðræður ganga erfiðlega.
    Í þessum umræðum hefur verið mjög mikið rætt um tvíhliða viðræður. Það hefur verið gagnrýnt að þessar tvíhliða viðræður skuli ekki vera komnar af stað með formlegum hætti. Þessi skoðun hefur verið tekin upp hjá þeim talsmönnum Sjálfstfl. sem hafa talað við þessar umræður og gagnrýnt nokkuð framgang þessara mála.
    Það ber að undirstrika, og það hefur komið fram einnig, að það hefur stöðugt verið unnið að því að plægja jarðveginn fyrir tvíhliða viðræður með viðtölum við ráðamenn einstakra ríkja bandalagsins. Ég held að bjartsýni manna og þar á meðal aðila í sjávarútvegi á framgang og árangur þeirra viðræðna byggist m.a. á þessum undirbúningi. Það verður hins vegar að liggja alveg ljóst fyrir, og það finnst mér ekki hafa komið fram með nógu óyggjandi hætti, hvað á að vera veganestið í þessum tvíhliða viðræðum, hvað hv. þm. eru reiðubúnir að ganga langt. (Gripið fram í.) Ég tek eftir því að talsmenn Sjálfstfl. kalla hér fram í hið almenna orðalag að selja ekki íslenska hagsmuni. Um það er ekkert deilt. Um það hélt ég að væri fullkomið pólitískt samkomulag. Hins vegar hafa talsmenn Sjálfstfl. gagnrýnt hér að það hefur ekki verið gengið til tvíhliða viðræðna án þess að fram kæmi á hverju slíkar tvíhliða viðræður ættu að byggjast. E.t.v. kemur það fram seinna í þessum umræðum.
    Það hefur þróast samstarf hér á Norðurlöndunum um árabil sem líkja má við ýmsa þætti í innri markaðnum sem á að komast á 1992. Flutningur vinnuafls milli Norðurlandanna er frjáls og vegabréfaskylda er ekki fyrir hendi. Gagnkvæm réttindi á þessum vettvangi eru mjög víðtæk. Þetta samstarf hefur þróast í gegnum starf Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar. Grunnur þessa samstarfs og hugsjónagrundvöllur liggur í líkri menningu þessara ríkja. Hann liggur í grasrótinni, ef svo má að orði komast, og líkum lífsháttum á mörgum sviðum. Efnahagslegt samstarf Norðurlanda, jafnnáið og á þessum sviðum sem ég nefndi, hefur ekki orðið að veruleika. Grunnur Evrópusamstarfsins er mjög ólíkur hvað þetta snertir. Grunnurinn að því er fyrst og fremst efnahagslegur og byggir á yfirþjóðlegum ákvörðunum.
    Ég álít að þrátt fyrir þetta efnahagslega samstarf haldi Evrópuþjóðir sinni menningu. Sú menning liggur mjög djúpum rótum í lífsháttum þessara þjóða. Hins vegar hefur þetta samstarf vissan hugsjónagrundvöll sem hefur verið komið hér inn á af ýmsum ræðumönnum. Hann liggur í því að menn vilja koma í veg fyrir að þjóðir Vestur-Evrópu berist á banaspjótum, að það komi aldrei fyrir aftur. Þeirri von

vex nú ásmegin að þessi hugsun gildi fyrir Evrópu alla, en friður í álfunni hefur stuðst við spjótsodda eins og menn vita. Þeir múrar sem skilja þjóðirnar að eru að hrynja í bókstaflegri merkingu og járntjaldið að rifna. Margir óttast að þessar breytingar verði til þess að auka óróa í álfunni og setji menn út af laginu í þeim ferli sem menn hafa verið að vinna að hingað til. Vonandi verður ekki svo, en hinir miklu breytingatímar sem nú eru eiga eftir að reyna á þolrifin. Eftir gleðina og hátíðastemninguna koma hin hversdagslegu vandamál og spurning hins venjulega manns, hvernig aukið frelsi geti fært honum betri lífskjör fyrir sig og sína. Dráttur á slíku getur reynt á þolrifin.
    Virðulegi forseti. Að lokum: Sá tími sem fer í hönd er reynslutími fyrir okkur Íslendinga og það hefur sjaldan riðið eins mikið á að skilgreina stöðu
okkar vel í alþjóðlegu samhengi og taka réttar ákvarðanir á réttum tíma í utanríkismálum. Þær ákvarðanir verða að taka mið af því að halda okkar sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti, en þær eiga jafnframt að miða að því að taka þátt í því starfi sem nú er unnið og miðar að því að styrkja stöðu Evrópu í þjóðfélagi framtíðarinnar.