Gildistaka virðisaukaskatts
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það hefur smám saman verið að koma í dagsljósið og æ betur með hverjum deginum sem liðið hefur að hæstv. fjmrh. er allsendis ófær um að vinna að nauðsynlegum undirbúningi á gildistöku virðisaukaskatts um næstu áramót svo sem lög segja fyrir um. Fyrir skömmu samþykkti flokksstjórn Alþfl. að fresta mætti gildistöku virðisaukaskatts. Með þessari samþykkt var flokksstjórn Alþfl. að lýsa yfir vantrausti á hæstv. fjmrh., vantrausti sem tekið er undir af öllum almenningi og forustumönnum atvinnuvega í þessu landi, vegna hins lélega undirbúnings að gildistöku virðisaukaskattsins, vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur ekki fram til þessa getað leitt ríkisstjórnarmeirihlutann til sameiginlegrar niðurstöðu um það með hvaða hætti skatturinn á að taka gildi sem þó hefur verið lögfestur. Á undanförnum vikum hefur svo komið í ljós að hluti Framsfl. a.m.k. hefur tekið undir þá stefnumörkun sjálfstæðismanna að skatturinn skuli vera í tveimur þrepum með lægra þrepi fyrir matvæli.
    Nú er nýafstaðinn miðstjórnarfundur Framsfl. Mér skilst að á þeim fundi hafi komið fram að hluti þingmanna Framsfl. vill að virðisaukaskattur taki gildi þegar um áramót með tveimur þrepum, annar að hann taki gildi í einu þrepi um áramót en verði svo settur í tvö þrep einhvern tíma síðar á árinu, og hæstv. forsrh. hefur þar að auki komið fram með hugmyndir um það að athuga þurfi sérstaklega að hann verði í einu þrepi og hætt verði öllum niðurgreiðslum og að skatthlutfallið verði enn lægra og kórónar það nú enn þessa sápuóperu sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett á svið um þennan virðisaukaskatt, það sérstaka viðtal við hæstv. forsrh. Þótt þær hugmyndir séu góðra gjalda verðar hlýtur að þurfa að koma fram hér á hinu háa Alþingi hvort þessi formlegi oddviti ríkisstjórnarinnar er þar að tala fyrir hönd stjórnarflokkanna og hvort stjórnarflokkarnir eru í alvöru að tala um breytingar af því tagi.
    Í morgun mun það svo hafa gerst að alþýðuflokksmenn hafa sett upp nýjar spurningar í þessu efni, og í útvarpi í hádeginu lýsti formaður Alþfl. því yfir að eins og málum væri komið gæti virðisaukaskatturinn tæpast tekið gildi um áramót. Hæstv. fjmrh. lýsti því á hinn bóginn yfir að eins og sakir stæðu mundi hann taka gildi um áramót.
    Vinnubrögð af þessu tagi, sápuópera sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett á svið um þessa einhverja viðamestu skattkerfisbreytingu sem gerð hefur verið, sem snertir hagsmuni allra atvinnufyrirtækja í landinu og heimilanna í landinu, er auðvitað óþolandi. Þess vegna verður að ætlast til þess að hæstv. fjmrh. gefi um það skýr svör, og ég vænti þess og trúi því að hann hafi notað þá stund sem gefist hefur nú síðdegis til þess að ákveða hvað hann ætlar að segja Alþingi Íslendinga og Íslendingum, um það með hvaða hætti virðisaukaskattur á að taka gildi um áramótin eða hvaða afstöðu og stefnu hæstv. ríkisstjórn hefur í þessum efnum. Lengur verður ekki dregið að gefa

skýr svör þar um.