Gildistaka virðisaukaskatts
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Enn einu sinni er rætt hér um virðisaukaskatt og ekki að ástæðulausu. Við höfum nú heyrt hæstv. ráðherra, fjmrh. og utanrrh., lýsa misjöfnum skoðunum. Annar segir að það sé nákvæmlega ekkert mál að setja virðisaukaskattinn á um áramót. Hinn kemur hér og boðar það að söluskattskerfið núverandi verði fram á næsta ár. Síðan koma þessir menn og reyna að telja þingi og alþjóð trú um að það sé eining innan ríkisstjórnarinnar.
    Auðvitað er bullandi ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um þetta mál, enda segir, með leyfi forseta, í Dagblaðinu í dag: ,,Í samþykkt Alþýðuflokksins segir að samstarfsflokkar Alþýðuflokks í ríkisstjórn hafi brotið ákvæði málaefnasamnings ríkisstjórnarinnar með yfirlýsingum sínum og samþykktum.`` Þarna er verið að fjalla um virðisaukaskattinn. Ég sé ekki annað en að stjórnarslit séu hér í vændum. Þau hljóta að vera í farveginum.
    Hæstv. utanrrh. kemur hér upp í stól og setur ákveðnar kröfur og tillögur fram til þess að Alþfl. geti fallist á virðisaukaskattinn í þeirri mynd sem hæstv. ráðherra boðar. En þær kröfur og þær tillögur eru þannig að það er greinilega ekki hægt að ganga að þeim. Það er ekki hægt að verða við þeim. Í mínum huga boðar þetta ekkert annað en að menn eru að reyna að koma sér út úr ríkisstjórn. Hins vegar er það alveg ljóst að velflestir vilja þó gjarnan sitja áfram þó að það þýði það að sitja með skömmina í hattinum, hæstv. utanrrh.