Gildistaka virðisaukaskatts
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það er alveg greinilegt að uppi eru margar skoðanir innan ríkisstjórnarinnar varðandi þetta mál, en maður getur þó alltaf vonað að þessi hringlandi sem þarna er á ferðinni verði til einhvers góðs. Það getur vel verið að þetta verði þó til þess að mennirnir átti sig á því að það er náttúrlega alveg óverjandi að setja söluskatt, eða virðisaukaskatt eftir atvikum, á matvæli og nauðsynlega þjónustu, og ég get fullvissað hæstv. utanrrh. um það að bæði nauðsynlegasta þjónustan og matarverð mun lækka ef söluskatturinn verður felldur af matvælunum og að sjálfsögðu gildir það sama um virðisaukaskattinn. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hætta við að taka upp virðisaukaskatt og það virðist vera greinilegt að fleiri eru þeirrar skoðunar að það þurfi a.m.k. að fresta gildistöku virðisaukaskattslaganna. Ég gef mjög lítið fyrir loforð um að hann verði e.t.v. lækkaður á næsta ári, í síðasta lagi um áramót. Við vitum nákvæmlega hversu loforð ríkisstjórnarinnar hafa reynst og ég held að það sé ákaflega hæpið að treysta henni í þessu máli frekar en öðrum.