Gildistaka virðisaukaskatts
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Geir H. Haarde:
    Virðulegur forseti. Þessar umræður leiða það ótvírætt í ljós að þetta mál er í fullkomnu uppnámi og þessi merka kerfisbreyting í skattamálum er í hættu vegna þess ágreinings sem upp er kominn í stjórnarliðinu.
    Hv. málshefjandi bar hér fram eina einfalda spurningu: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar? Hvernig verður þetta mál um áramótin þegar lögin taka að óbreyttu gildi? Við hverju eiga þúsundir aðila úti í þjóðfélaginu að búast og undir hvað eiga þeir að búa sig? Svarið við þessu hefur ekki komið fram. Hæstv. fjmrh. hefur sagt: ,,Ég tel skynsamlegast ...`` Forsrh. hæstv. hefur sagt: ,,Ég tel skynsamlegast ...`` Og hæstv. utanrrh. flutti ræðu um það að hans stefna, sem er allt önnur en hinna tveggja, sé það sem rétt sé, sem sagt að fresta málinu.
    Þetta auðvitað gengur ekki, hæstv. forseti. Það eru fjórar starfsvikur eftir af þinginu til jóla. Hér eru ýmis önnur tímafrek mál á ferðinni og það verður ð fást niðurstaða í þetta mál. Ríkisstjórnin hefur hleypt þessu máli í uppnám. Stjórnarflokkarnir, með yfirlýsingum á alla enda og kanta, hafa stefnt þessu máli í hættu og það verður að fást botn í málið. Ríkisstjórnin hefur sýnt að hún er ófær um að komast að frambærilegri niðurstöðu í þessu máli. Það liggur alveg fyrir að þar er hver höndin upp á móti annarri. Það er þess vegna rétt sem fram kom hjá talsmanni Sjálfstfl. í þessu máli hér um daginn, að úr því sem komið er, vegna þeirrar réttaróvissu sem ríkisstjórnin hefur skapað, er óhjákvæmilegt að fresta þessu máli um sex mánuði.
    Virðulegi forseti. Þessi hálftímatakmörk á umræðu um mál sem þetta eiga auðvitað illa við og við þurfum að fá hér miklu lengri tíma í umræður um þetta mál. Ég vildi bara ljúka máli mínu, virðulegur forseti, með því að rifja upp í tilefni af ræðu hæstv. utanrrh. að Alþfl. berst nú með kjafti og klóm fyrir því að hér verði komið á virðisaukaskatti með einu 26% þrepi. Fyrir þremur árum stóð hæstv. utanrrh. núv., þá sem óbreyttur þingmaður, hér í þessum ræðustól og andmælti því harðlega þegar þáv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson flutti hér frv. um 24% virðisaukaskatt og lét þess sérstaklega getið að Alþfl. gæti aldrei samþykkt virðisaukaskatt sem væri svo hár sem 24%. Allt er þetta gleymt og grafið. Allt er þetta í mótsögn hvað við annað, bæði innan einstakra stjórnarflokka og á milli þeirra.