Gildistaka virðisaukaskatts
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Ástæða þess að illa gengur að láta hálftímann nægja er auðvitað sú að menn tala lengur en þingsköp leyfa, hver og einn. Ég skal reyna að halda mig við tvær mínútur.
    Nú hafa talsmenn allra aðila ríkisstjórnarinnar talað í þessum umræðum og ljóst er að frekari svör fást ekki við þeim spurningum sem hér voru bornar fram. Og svörin eru þessi ef ég má draga þau saman í örstuttu máli:
    Hæstv. fjmrh. segir að ekkert sé því til fyrirstöðu og ekkert mæli gegn því að lögin um virðisaukaskatt taki gildi um áramót. Hæstv. utanrrh. segir að hann meti málið þannig að það verði að fresta gildistöku laganna eitthvað fram eftir næsta ári. Hv. þm. Stefán Valgeirsson tekur ekkert mark á loforðum stjórnarflokkanna, a.m.k. ekki Alþfl., alls ekki neitt, og segir að annaðhvort verði að fresta þessu eða láta standa loforðið um að þrepin skuli vera tvö eins og hæstv. fjmrh. mun hafa lofað honum og bætir raunar við að það hafi aldrei verið talað um annað en að þrepin verði tvö. Svo kemur hæstv. forsrh. og segist tilbúinn að standa við það að innleiða söluskatt í einu þrepi, en eftir að hann heyrði hvernig landið lá á miðstjórnarfundi Framsfl. flutti hann tillögu um tvö þrep og sjálfsagt að skoða það, eins og það heitir á góðu máli, og bætir svo við að virðisaukaskatturinn sé afskaplega flókin aðgerð, og vissu nú sumir en þögðu þó. Svo kemur hæstv. ráðherra Hagstofu og hefur miklar efasemdir um að það sé nú eitthvert vit í því að taka upp virðisaukaskatt. En hann gefst upp fyrir ofureflinu og situr áfram, auðvitað, í ríkisstjórn.
    Það kom fram hjá einum ræðumanni áðan að þetta ósamkomulag sem hér hefur birst hlyti að boða að ríkisstjórnin væri að falla. Menn væru að koma sér út úr stjórninni. Það er ekki mitt mat. Þessi ríkisstjórn er ekkert að falla. Menn munu éta hér allt ofan í sig til að ríkisstjórnin sitji áfram. Það er nefnilega svo komið að afstaða hv. þm. Stefáns Valgeirssonar skiptir engu máli lengur.