Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Þingflokkur sjálfstæðismanna óskaði eftir því á fundi núna síðdegis að utanrmn. yrði kölluð saman til þess að ræða frekar málsmeðferð í væntanlegum samningaviðræðum. Ég þakka fyrir það að ákveðið hefur verið að verða við þessari ósk. Auðvitað er óhjákvæmilegt að ræða málið þar ítarlegar áður en þessari umræðu lýkur. Og ég ítreka þakkir fyrir tiltölulega skjót viðbrögð við þeirri ósk.
    Hitt vekur meiri furðu í ræðu hæstv. forsrh. þegar hann lýsir því yfir um málsmeðferðina frekari af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að það eigi ekki að flytja hér þáltill. þannig að fyrir liggi skýrt umboð til hæstv. utanrrh. Slík ummæli af hálfu hæstv. forsrh. vekja meiri háttar undrun og ég er yfir mig hlessa eins og hann stundum að slík yfirlýsing skuli vera gefin. Það liggur fyrir að hér hafa komið fram í umræðunum margar hugmyndir um það hvernig eigi að halda þessum viðræðum áfram. Engin ein þeirra nýtur meirihlutastuðnings eins og mál standa í dag hér á hinu háa Alþingi. Þó að hæstv. ríkisstjórn hafi meiri hluta til þess að verja sig vantrausti þá hefur þegar komið fram að í ýmsum veigamestu málum er ekki þingræðismeirihluti fyrir ýmsu af því sem ríkisstjórnin hefur á prjónunum. Og það liggur fyrir í þessari umræðu að engin af þeim hugmyndum sem hér hafa komið fram um málsmeðferð nýtur meirihlutastuðnings á Alþingi. Þess vegna er alveg óhjákvæmilegt að fá úr því skorið hvert framhaldið á að vera. Hæstv. utanrrh. getur ekki tekið þátt í fundi 19. des. þar sem ákveða á formlegar samningaviðræður eins og segir í hans eigin skýrslu, þar sem ákveða á áframhald formlegra samningaviðræðna, nema fyrir liggi skýrt umboð og skýr meiri hluti á hinu háa Alþingi. Þetta vil ég ítreka hér vegna þessarar furðulegu yfirlýsingar hæstv. forsrh.
    Það er útilokað að hæstv. utanrrh. bindi Ísland án þess að það sé þingræðislegur meiri hluti á bak við þá ákvörðun, gjörsamlega útilokað. Og ég trúi því ekki að hæstv. forsrh. ætli að verja frekari málsmeðferð af þessu tagi.
    Ég vil svo, frú forseti, minna á að hv. 2. þm. Reykv. bar hér fram skýrar fyrirspurnir í umræðunni í dag vegna þess að hæstv. viðskrh. hafði lýst því yfir að það væri full samstaða í ríkisstjórninni um túlkun hæstv. utanrrh. á framhaldi málsins. Þó hefur hér margsinnis verið vitnað í nýlega samþykkt landsfundar Alþb. sem gengur þvert á þessa stefnu. Hv. 2. þm. Reykv. óskaði eftir svörum formanns Alþb., hæstv. fjmrh., um það hvort það væri rétt sem hæstv. viðskrh. hefur haldið fram að hann fylgdi ekki nýlegri samþykkt Alþb. í þessu efni. Ég óska eftir því að fundinum verði ekki fram haldið fyrr en hæstv. fjmrh. kemur til fundar og svarar svo skýrum spurningum þingmanna sem nauðsynlegt er að fá svör við áður en umræðan heldur áfram.