Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Á vetrarmánuðum 1987, þegar var verið að fjalla um stofnun fiskmarkaða, voru uppi raddir um það og margir héldu að með því að hér yrði komið á fiskmörkuðum mundu eiga sér stað mikil tímamót í sambandi við vinnslu og meðferð sjávarafurða. Þeir sem voru bjartsýnastir bjuggust við að fiskmarkaðir mundu byggjast upp hringinn í kringum landið og þessi aðferð, þ.e. verðlagning á fiski með því að selja fiskinn á mörkuðum, mundi verða það sem yrði ríkjandi innan stutts tíma.
    Þróunin hefur ekki orðið sú, kannski orðið svipuð því sem þeir sem voru svartsýnastir á uppbyggingu þessa þáttar í íslenskum sjávarútvegi gerðu ráð fyrir, að það mundu komast á fót fiskmarkaðir á takmörkuðum svæðum sem mundu koma fáu af því til leiðar sem hinir bjartsýnu reiknuðu með, þ.e. að það mundi ekki breyta miklu í sambandi við verðlagningu sjávarafurða, það mundi ekki breyta miklu í sambandi við gæði sjávarafurða og það mundi ekki jafna í einu eða neinu aðstöðu fiskframleiðenda eða þeirra sem sæktu sjóinn þó að þessir fiskmarkaðir kæmu upp. Þetta hefur orðið reynslan á síðustu tveimur árum.
    En þrátt fyrir það geri ég ráð fyrir og ég veit að þeir sem bjuggust ekki við neinu stóru töldu þó eðlilegt og sjálfsagt að samþykkt yrðu lög og það voru samþykkt lög hér á hv. Alþingi með stuðningi held ég meginþorra þingmanna, ég man ekki eftir að þar væri nein andstaða sem héti --- og menn töldu það eðlilegt að þessi þáttur kæmi og yrði að veruleika hjá íslenskum sjávarútvegi, m.a. kannski til þess að það væri ekki alltaf verið að tala um það að möguleikar væru á þessum vettvangi sem ekki væru nýttir. Reynslan hefur sem sagt sýnt það að þarna er ekki um stóra hluti að ræða en þó þannig lagaðan hlut sem eðlilegt er að sé til staðar.
    Ég tel þess vegna að frv. sem hér er lagt fram og er til umræðu sé beint framhald af því sem samþykkt var hér 1987. Þá voru þau lög með sólarlagsákvæði
en eðlilegt verður að telja að þessari starfsemi sé skapaður vettvangur innan lagaramma og þá með ótímabundnu marki eins og hér er lagt til.
    Ég geri ekki ráð fyrir því að fiskmarkaðir leiði til mjög mikilla breytinga í náinni framtíð í sambandi við íslenskan sjávarútveg. Staðreyndin er sú, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra og kemur hér fram í grg. frv., að á árinu 1988 fóru aðeins um 8% þess fisks sem landað var í gegnum fiskmarkaðina. Það er aðeins um 1 / 4 af þeim ferskfiski sem fluttur var til útlanda á sama tíma, þannig að greinilegt er að þessi þáttur hefur ekki náð að keppa við beinan útflutning og markaði erlendis.
    Það virðist sem sagt að þessir markaðir, sem eru fyrst og fremst Reykjavíkurmarkaðurinn og Hafnarfjarðarmarkaðurinn og markaðurinn á Suðurnesjum, séu að stórum hluta til markaðir fyrir soðmatinn hér á Reykjavíkursvæðinu. Mikill hluti þess fisks sem fer í gegnum Reykjavíkur- og Hafnarfjarðarmarkaðinn fer fyrst og fremst til neyslu

hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu og svo til þess að sjá ýmsum smáfiskverkunarstöðvum sem hafa kannski vaxið upp vegna markaðarins fyrir hráefni.
    Það var gert ráð fyrir að markaðirnir mundu frekar hamla gegn því að upp risu nýjar og nýjar fiskvinnslustöðvar, en ég held að þróunin hafi verið á hinn veginn, að þeim hafi fjölgað. Og ég tel að þau áhrif fiskmarkaðanna séu af hinu góða, ekki kannski endilega fjölgunin, heldur það að þessar stöðvar, ýmsar hverjar, hafa farið inn á sérverkunarsvið og farið að gera tilraunir með ýmiss konar verkun sem annars væri varla grundvöllur fyrir. Þetta eru aðilar sem kaupa tiltekið magn á fiskmarkaðnum aðeins til þess að gera takmarkaðar prufur, eru ekkert að binda sig við ákveðið fiskiskip, að tryggja því löndun um ákveðinn tíma, heldur eru þetta fyrirtæki sem skammta sér hráefni til vinnslu inn á þann hugsanlega markað sem þeir hafa tryggt sér. Það er af hinu góða.
    Aftur á móti hefur verðmyndunin verið, að mínu mati, mjög neikvæð. Á stundum hefur verð rokið upp á mörkuðunum vegna þess, eins og ráðherrann nefndi hér reyndar áðan, að það hefur verið takmarkað magn á mörkuðunum. Þetta hefur orðið til þess að alls konar samanburður hefur átt sér stað og að vissu leyti truflað eðlilega verðmyndun og eðlilega samninga milli kaupanda og seljanda sjávarafurða. Verðmyndunin hefur að mínu mati verið neikvæð.
    Ég endurtek það svo að ég mun standa að samþykkt þessa frv. og verða við ósk ráðherra um að stuðla að því að þetta mál fái eðlilega og sem fljótasta leið hér í gegnum deildina.