Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Ég fagna þessu frv. sem er í meginatriðum eins og þau lög eru sem nú gilda, lög sem voru með takmarkaðan gildistíma þar sem litið var á fiskmarkaðina sem nýjung sem væri á tilraunastigi. Ég tel að tilkoma fiskmarkaðanna hafi breytt mjög miklu í okkar þjóðfélagi þótt það hefði gjarnan mátt vera meira. Ég tel að þeir hafi verið mjög jákvætt spor í þróuninni og komi til með að verða það enn frekar.
    Það kom hér fram hjá einum ræðumanni að fiskmarkaðirnir hefðu ekki náð því sem bjartsýnustu menn þorðu að vona á sínum tíma og má það rétt vera. En ég vil vekja athygli því að það eru ýmsar ástæður fyrir því að ekki hefur tekist eins vel til og bjartsýnustu menn töldu. Það eru ástæður sem snerta önnur lög og aðra þróun, t.d. það að útflutningur fisks í gámum hefur aukist svo hrikalega að það er með ólíkindum, að fjölgun frystitogara hefur verið mjög hröð og svo fram eftir götunum.
    Ég tel að sú þróun sem þarna hefur átt sér stað sé í sjálfu sér neikvæð. Við sjáum það fyrir okkur að hundruð manna eru atvinnulaus víða um land og tel ég að stór þáttur í því hve starfstækifærum í landi hefur fækkað mjög sé að gámaútflutningur hefur aukist. Menn eru margir með þá skoðun að verkafólki komi það ekkert við hvernig þessum málum er háttað. En það er ástæða til að vísa í lög um stjórnun fiskveiða hvar stendur að fiskimiðin og auðlindin sjálf sé eign allrar þjóðarinnar. Það gengur ekki til lengdar að fáir hafi mjög mikið en aðrir ekki neitt nema atvinnuleysið sjálft. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að takmarka útflutning á fiski í gámum og það verði að gera með tvennu: Með því að lögbinda að allur fiskur sé vigtaður hér heima og að skerðingarákvæðið verði hækkað. Mér er ljóst að sums staðar er nokkur nauðsyn á að til sé ákveðinn ventill sem komi til þegar of mikill fiskur berst á land í einu, þá verði unnt að flytja út. Þegar byggðarlög fyrir austan t.d. fá síld, þá er eðlilegt að fólk fari að vinna í síld og þá séu möguleikar á því fyrir togarana að flytja út. Það mætti hugsa sér að skerðingarákvæðið væri breytilegt þannig að það væri ekki alfarið 25% heldur í fyrstu lægra en mundi síðan hækka. En ég tel það höfuðatriði að allur fiskur sé vigtaður hér heima og reyndar býst ég við að lagt verði fram frv. um það.
    Ef svo verður er ég sannfærður um að fiskmarkaðir munu fá meiri fisk til að selja. Reyndar tel ég ástæðu til að fara þá leið að smám saman verði öllum gert skylt að selja allan aflafisk heima. Ég geri mér ljóst að það gengur ekki í einu vetfangi, en ég tel mjög nauðsynlegt að það geti átt sér stað og þá erum við komnir með fiskmarkaði sem ekki aðeins hefðu 8% af öllum aflanum heldur 90--100%.
    Það eru sumir sem halda því fram að það þurfi að vera fiskmarkaðir víða um land. Ég er ekki viss um að svo þurfi að vera. Ég tel að það væri reyndar nóg að hafa einn fiskmarkað, fjarskiptamarkað sem gæti

sinnt þessum hlutum fyrir allt landið en sjálfsagt yrði engin samstaða um það. Þeir yrðu vafalaust fleiri. Mér er sagt að fiskmarkaður í Boston ráði t.d. öllu fiskverði á austurströnd Bandaríkjanna. Ég tel að þessi þróun mundi gera það kleift að meira yrði unnið að aflanum hér heima og ég tel reyndar nauðsyn að svo verði gert til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og til að auka verðmæti vörunnar.
    Ég bendi líka á að þar sem fiskverkendur hafa aðgang að fiskmörkuðum eða nýta sér þetta, hafa sprottið upp ýmis fyrirtæki, lítil fyrirtæki sem selja fiskinn mikið unninn, aðeins ófrystan, og fá mikið og gott verð fyrir hann. Þetta eru fyrirtæki sem eru ekki stór en eru með 100% vöru og eru farin að skipta miklu máli hér á þessu svæði. Það kom líka hér fram að fiskmarkaðir hefðu truflað eðlilega samninga. Ég er ekki alveg viss um hvað átt er við með þessu en þegar menn kaupa og selja á svona uppboðum eru menn náttúrlega að gera kaup sem báðir aðilar una við.
    Ég er þeirrar skoðunar að framtíðin muni leiða í ljós að fiskmarkaðir muni þjóna miklu meira hlutverki hér á landi en áður og ég tel og ítreka það að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi eru ekki aðeins Landssamband ísl. útvegsmanna, ekki aðeins Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Fiskifélagið svokallað, heldur er það líka verkafólkið í landi sem verður að teljast hagsmunaaðilar og það einn sá sterkasti. Ég tel að það hafi hallast mjög á undangengin ár þar sem sjónarmið Verkamannasambandsins t.d. eru ekki tekin með inn í myndina heldur aðeins þeirra sem ég nefndi hér áðan.
    Ég vil í lokin benda á það að í ályktun þings Verkamannasambandsins sem haldið var í októbermánuði, var gerð samþykkt um að stefna að því að allur fiskur verði seldur fyrst hér heima og stefnt að uppbyggingu fiskmarkaða í því skyni að höndla með fiskinn.
    Ég lýsi yfir stuðningi við þetta frv. sem ég tel mjög af því góða. Það er nauðsynlegt að það verði samþykkt fyrir jól því að um áramót renna lögin út.