Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ég tel rétt strax við 1. umr. þessa máls að gera með örfáum orðum grein fyrir mínum viðhorfum. Eins og hér hefur verið bent á var hér um tilraunastarfsemi að ræða. Ég hafði og hef raunar enn efasemdir uppi um það ágæti sem menn telja af þessu og þá spyrja menn: Hvers vegna? Vegna þess að það er mismunað. Það eru tiltölulega fá svæði, eins og hér kom fram áðan, sem njóta þessa og ekki hef ég á móti því ef það er hægt með einhverjum hætti að auka tekjur þeirra stétta sem þarna eiga hlut að máli. En mér sýnist að það sé nokkuð takmarkað sem þar kemur fram.
    Ég held að það verði nokkuð nauðsynlegt að fá um það upplýsingar og trúlega fer þetta mál fyrir sjútvn. þannig að ég get þá sem nefndarmaður þar óskað upplýsinga þar um og skal ekki lengja umræðu út af því, en það væri auðvitað fróðlegt að fá vitneskju um það hversu stór hluti og á hvaða svæðum það er sem fiskmarkaðir koma til góða. Ég man líka á sínum tíma þegar menn voru að tala um frjálsa álagningu, markaðsverðið ætti að gilda. Það þýddi vöruverðslækkun. Ég hef ekki séð það í reyndinni og ég held að við búum í slíku landi að því verði ekki við komið alls staðar, þessu markaðsfyrirkomulagi sem menn alltaf eru að tala um. Það verða stórir hópar út undan og við þurfum auðvitað að gefa gaum að því með hvaða hætti er hægt að rétta hlut þeirra aðila. Hér voru nefnd Reykjavík, Hafnarfjörður, Suðurnes. Ég hygg að það sé rétt án þess að ég þekki það nógu vel en ég heyrði það líka að hv. þm. Karl Steinar Guðnason tók mjög undir þetta sjónarmið og á því er ég ekkert hissa því að þarna er svo stór markaður sem getur komið til góða þeim aðilum sem þarna eiga hlut að máli. En það eru líka stórir aðilar aðrir, margir fyrir utan sem ekki njóta þessa.
    Mér er sagt að t.d. á Vestfjörðum séu menn mjög óhressir með hversu fiskverð, sem er að sjálfsögðu bundið við ákvörðunarverðið, helst alveg í takt við það, en ekkert fyrir ofan. Á fiskmörkuðum mun þetta þó vera einhver búbót sem ég veit ekki hversu mikil er, en þarna kemur auðvitað upp óánægja. Og vissulega er nóg á landsbyggðarfólk lagt þó ekki komi til viðbótar ef svona yrði til lengdar haldið á málum án þess að ég sé hér sérstaklega að mæla gegn þessu. Það kunna líka að vera hliðar á því sem er hægt að lagfæra til hagsbóta fyrir þetta fólk.
    Ég veit ekki hvað hv. þm. Karl Steinar meinti þegar hann sagði að það væri kannski nóg að hafa bara einn markað. Það er kannski líka nóg að hafa bara eina verksmiðju í landinu og þá njóti allir hins besta. Ef það er sjónarmiðið, þá er ég nú ekki alveg með á nótunum, að það nægi bara ein verslun fyrir allt landið og einn fiskmarkaður fyrir allt landið. Ég held að menn séu komnir allt of langt út í frjálshyggjutalið, markaðssjónarmiðið ( KSG: Þeir eru nú á floti, bátarnir.) Á floti já, en það gagnar nú lítið ef menn fá ekkert fyrir fiskinn. Það dugar kannski á Reykjanesi, að menn fljóti bara þar og trúlega að

feigðarósi þá. Ég held að menn eigi nú aðeins að gá að sér áður en menn segja svona hluti. Ég hygg að hér þurfi að hafa gát á og ef þetta er rétt sjónarmið, sem ég vil ekkert halda fram að geti ekki verið, þá þurfi að sníða af þá agnúa sem mér sýnist og sjómönnum, a.m.k. á Vestfjörðum og kannski víðar, finnst að sé á þessu kerfi því að það er mismunað.
    Vel kann að vera að þetta hafi breytt miklu í þjóðfélaginu. Ég er ekki sannfærður um að þetta hafi breytt miklu í þjóðfélaginu þann tíma sem það hefur verið í lögum, en einhverju kann það að hafa breytt, og kannski er hægt að láta það breyta meiru og þá með annars konar útfærslu, þannig að a.m.k. sem flestir sitji við sama borð, því að við byggjum ekki upp atvinnuveg eins og þarna er um að ræða á tiltölulega fjölmennum svæðum á tiltölulega afmörkuðu sviði. Þarna held ég að menn verði aðeins að líta í kringum sig.
    Ég skal ekki, herra forseti, lengja þessar umræður en ég tel rétt að það komi fram að þegar þetta mál var afgreitt í þingflokki Alþfl. lýsti ég yfir að ég hefði fyrirvara gagnvart málinu, ekki vegna þess að ég væri harður andstæðingur þess, heldur taldi ég að það þyrfti kannski að skoða ýmislegt sem mér finnst og hefur verið sagt að hafi farið úrskeiðis og það þarf auðvitað að laga.