Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Það mátti svo sem við því búast að hér yrði farið að ræða um fleiri hluti en beint um frv. sem hér liggur fyrir til umræðu og hvernig mál hafa þróast á gildistíma þeirra laga sem falla úr gildi um áramótin. Það var farið að fjalla um hugmyndir um lögbundið sölufyrirkomulag, hugmyndir sem hafa skotið upp kollinum í þjóðfélaginu um að það skuli vera skylda að selja fisk á mörkuðum. Ég hef litið svo á að sú umræða væri frekar til þess að lofa mönnum að spjalla um einhverja hluti en að það væri einhver alvara á bak við það eins og málum er háttað hjá okkur í dag. Ég held að hugmyndin um það, t.d. á Vestfjörðum, Norðurlandi, Snæfellsnesi og annars staðar, að skylda menn til að fara á einhvern markað með afla sé næstum því óframkvæmanleg. Það eru ýmsir hlutir sem koma í veg fyrir það og kannski ekki rétt að fara að telja þá upp, en þar er þó þyngst á metunum --- ja, ekki þyngst á metunum, ég vil ekki segja það --- þar er eitt áhrifamikið atriði og það er eignaraðildin yfir flotanum, fiskiskipaflotanum. Þeir aðilar sem mæltu hvað ákafast með því að hér yrði settur upp markaður í Reykjavík voru forráðamenn Granda hf. Þeir bentu á kosti þess að hér væri fiskmarkaður og fyrirtækin gætu sótt hráefni til vinnslunnar á markaðinn. En ég held að það sé lítill hluti af afla þess stóra fyrirtækis, stærsta útgerðarfyrirtækis í Reykjavík, sem hefur farið um Reykjavíkurmarkaðinn.
    Til þess að hægt væri að búast við því að hlutir gengu upp á þann veg að það væri skylda að setja allan fisk á markað þyrfti jöfnum höndum að breyta eignaryfirráðum yfir flotanum. Ég gæti tekið undir það að það væri skemmtilegt ef mál þróuðust á þann hátt að það væru sérstakir útgerðarmenn sem sæju um hráefnisöflunina og hins vegar fiskvinnslustöðvar sem sæju um verkun aflans. Það er bara ekki þannig hjá okkur í dag. Þetta er á þann veg eftir þeim tölum sem maður heyrir oftast nefndar að það muni vera um 80% af flotanum sem eru bundin, tengd fiskvinnslustöðvum eignarböndum, ef má orða það þannig. Það þarf því ýmsa hluti til til þess að segja við þá sem eiga skipin og sjá um útgerð þeirra að þeir skuli fara með afla þeirra á uppboð og eiga það á hættu að hafa engan afla til vinnslu í sínum eigin fyrirtækjum.
    Ég var svolítið hissa á því að hugmyndir um þetta skyldu ná hylli þings Verkamannasambands Íslands þannig að það var samþykkt á þingi þess að fisksölumálin skyldu eiga sér stað á þennan máta. Það gefur auga leið að ef markaðurinn verður látinn ráða því hvar afli er unninn verður meiri hætta á því en nú er að ákveðin svæði og ákveðnar vinnslustöðvar falli út úr samkeppnisleiknum. Það er þess vegna ekki til að tryggja atvinnu í fiskvinnslustöðvunum að hafa fisksöluna á markaðsgrunni.
    Hér var líka rætt um gámaútflutning og frystitogarana. Hv. 4. þm. Reykn. benti á að það væri einmitt þessi þáttur sem hefði kannski orðið þess

valdandi, þ.e. gámaútflutningur og frystitogarar, að minni afli barst að fiskimörkuðunum. Sjálfsagt er það einn þátturinn og einn þáttur í þeirri öfugþróun sem ég tel að við búum við undir þeirri fiskveiðistefnu sem við höfum búið við á undanförnum árum. Og ég tek alveg undir skoðun hv. þm. að nauðsynlegt sé að takmarka þennan útflutning. Til þess þarf sjálfsagt að leita ýmissa ráða, m.a., eins og gert hefur verið á undanförnum árum, að takmarka eða draga af kvótanum eða skerða kvótann. Sjálfsagt gæti krafa um það að fiskur væri seldur innan lands áður en hann væri seldur á erlendan markað þjónað þarna ákveðnum tilgangi, en það þarf ýmislegt til til að hægt sé að koma því í kring. Það er eins og hv. 3. þm. Vestf. nefndi, að það verður erfitt að koma því í framkvæmd að allir aðilar geti notfært sér þessa aðstöðu, boðið fiskinn sinn upp áður en hann er settur í gáma eða á að fara á erlendan markað, mismunandi aðstaða eftir því hvar þetta er á landinu.
    Sú þróun sem að mínu mati er þó hvað neikvæðust og hv. þm. Karl Steinar Guðnason nefndi hér áðan er uppbygging frystitogaraflotans. Hún er fyrst og fremst til þess að flytja atvinnuna út á sjó. Og með þeirri framkvæmd er ekki aðeins verið að flytja fiskinn svo gott sem hráan á erlendan markað, heldur er líka verið að mismuna því fólki sem er að vinna við fiskframleiðslu. Þeir sem eru að vinna við þetta úti á sjó fá skattfríðindi. Þeir leggja vitaskuld mikið á sig við þau störf og þeir fá skattfríðindi sem fólkið í landi, fólkið í Verkamannasambandinu, fær ekki.
    Ýmsir þættir aðrir í kringum frystitogarana sem kannski á ekki að vera að tíunda við þessa umræðu eru á þann veg að ég held að þar hafi átt sér stað kannski mestu mistökin á þessum tveimur til þremur undanfarandi árum í fiskveiðiþróuninni. Það er sök sér og það er auðveldara að snúa við í sambandi við ferskfiskútflutninginn, en við stöndum í margfalt erfiðari stöðu að draga okkur út úr hinni atvinnugreininni, þ.e. rekstrinum og sókninni á frystitogurunum.