Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Á sínum tíma þegar lög voru samþykkt hér á Alþingi í mars 1987 um uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla tók Sjálfstfl. afstöðu með því lagafrv.
    Við athugun á frv. sem hér liggur fyrir virðist mér að Sjálfstfl. geti stutt það svona í meginatriðum, en ég tel samt rétt að rifja hér nokkuð upp, gera grein fyrir því hvað hefur gerst við tilkomu þessara markaða. Hæstv. ráðherra gerði það að sjálfsögðu í sinni framsöguræðu og ýmsir aðrir hv. þm. hafa einnig gert það. Það sem liggur í augum uppi er að við tilkomu markaðanna breyttist verðmyndun í sambandi við sölu sjávarafla allverulega hérlendis, þannig að segja má að upp úr þessu hafi komið þrjú verðmyndunarkerfi. Það eru í fyrsta lagi þau verð sem myndast á þessum frjálsu uppboðsmörkuðum. Í öðru lagi eru það Verðlagsráðsverðin með yfirborgun sem geta verið mismunandi eftir landsvæðum og einnig eftir því hvernig útgerðarfyrirtæki standa að slíkum greiðslum og svo í þriðja lagi er það að menn greiða samkvæmt ákvörðunum Verðlagsráðs sem mun vera orðið fátítt.
    En það fer ekki á milli mála að þessir uppboðsmarkaðir sem hófu starfsemi sína hér fyrir nokkrum árum hafa haft mikil áhrif í þá átt að hækka verð til útgerðar og þar með hefur teknahlið útgerðarinnar batnað sem því nemur og einnig afkoma sjómanna. Það liggur í augum uppi.
    Þá er það annað atriði sem einnig hefur fylgt sem ég tel af hinu góða sem er það að ekki er nokkur vafi á því að þetta hefur haft þau áhrif að meðferð á afla er mun betri þannig að gæðin hafa aukist og verður að telja það af hinu góða. Út af fyrir sig hafa því uppboðsmarkaðirnir haft jákvæð áhrif hvað þetta áhrærir. Hins vegar hefur það einnig gerst á sama tíma að fiskvinnslan var ekki undir það búin að mæta þessum breyttu forsendum, þ.e. þeim áhrifum sem hin háu verð uppboðsmarkaðanna höfðu í för með sér á fyrsta stigi. Þó má segja að nú sé frekar farið að myndast ákveðið jafnvægi í þessum málum. Stafar það einnig af því að gengisskráning er nú réttari og eðlilegri með tilliti til útflutningsatvinnuveganna.Staða fiskvinnslunnar hefur breyst ásamt ákveðinni strúktúrbreytingu.
    Hins vegar hlýtur maður að vekja athygli á því að samfara uppboðsmörkuðunum hefur það gerst að stöðugt stærri hluti af aflanum fer núna út ísaður. Ég tel að þar komi uppboðsmarkaðirnir einnig til skjalanna, alla vega þeir markaðir sem eru hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það er ekki nokkur vafi á því að þeir sem kaupa að marki á þessum uppboðsmörkuðum séu að því í þeim tilgangi að flytja svo þennan fisk ísaðan út í gámum þannig að þetta hefur aukið mjög útflutning á ísuðum fiski í gámum með þar af leiðandi minni vinnslumöguleikum hérlendis.
    Þá hefur það einnig gerst sem ég held að geti orkað tvímælis þegar til lengri tíma er litið að litlum fyrirtækjum hefur fjölgað óeðlilega mikið hér á

Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það getur verið neikvætt ef litið er á það út frá sjónarmiði samkeppninnar því við skulum muna það að samkeppnin gerist ekki hér innan lands. Hún er fyrst og fremst úti á hinum stóru mörkuðum, þ.e. erlendis. Það orð hefur legið á að erlendir aðilar hafi reynt að koma sér upp svokölluðum ,,strámönnum`` hér á uppboðsmörkuðunum, þ.e. reynt að fá innlenda menn til þess að bjóða í fiskinn til að tryggja sér þessa vöru. Það er náttúrlega ekki hægt að koma í veg fyrir það, þetta eru frjálsir markaðir. Og ef íslenskir ríkisborgarar kaupa inn fyrir erlenda aðila má segja að það sé lítill munur á því hvort það gerist hér í Reykjavík og Hafnarfirði eða í Bremerhaven og Grimsby. Allt er þetta því hluti af þróun sem ég vænti að sé til hins góða fyrir íslenskan sjávarútveg og íslenska þjóð.
    En í sambandi við þetta mál er kannski ástæða til að nefna önnur atriði sem eru þessu nátengd og gætu leitt til þess að hægt væri að auka möguleika þeirra sem ekki eru í nánum tengslum við uppboðsmarkaðina, að þeir hafi svipaða möguleika til þess að nýta þann afla sem kemur upp úr sjónum. Þar á ég við það hvort ekki kæmi til greina að allur aflinn væri vigtaður hérna heima. Það þýddi að allur aflinn færi um íslenskar hendur eða íslenska markaði eða íslensk fyrirtæki. Þetta finnst mér mjög koma til greina og mundi auka líkur á því að meira færi í vinnslu en ella.
    Svo er það hitt atriðið, sem er geysilega þýðingarmikið, þ.e. hvað skerðingin á kvótanum á að vera mikil í sambandi við útflutning á ísuðum
fiski. Ég veit að sú umræða fer ekki fram beint í sambandi við þetta frv. en það er rétt að hafa í huga að það er mat margra sem fást við fiskvinnslu og eru í forsvari fyrir fiskvinnslunni að það ætti að auka skerðingu úr 15% upp í 25%. Það verður til umfjöllunar þegar frv. til laga um fiskveiðistjórnun verður lagt fram væntanlega á þessu þingi. En ég tel rétt að vekja athygli á þessu í þessu sambandi því að auðvitað er þetta samtengt, þ.e. uppboðsmarkaðirnir annars vegar og samræming vinnslu og veiða hins vegar í sambandi við íslenska fiskvinnslu og útflutningshagsmuni, og þar með erum við að taka afstöðu til þess hvernig við ætlum að auka vinnsluvirði þess sjávarafla sem íslensk fiskiskip veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.
    Ég vil sem sagt undirstrika það að ég tel að við sjálfstæðismenn getum stutt þetta frv. en við viljum jafnframt vekja athygli á þessum atriðum sem ég drap á hér áðan.