Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Mér þykir varaformaður Verkamannasambandsins orðinn gamansamur nú síðustu daga. ( HBl: Þá bregður nýrra við.) Já, þá bregður nýrra við. Það má hafa það svo. Ekki hvarflaði að mér að ekki hafi verið til símar eða fjarskiptatæki alllengi. Slík tæki voru líka til þegar menn voru að ræða um verðlagseftirlitið og hvort það væri öruggt að markaðurinn mundi sjá til þess að verðlag lækkaði, hinn frjálsi markaður. Og ég man ekki betur en að hv. þm. Karl Steinar hafi verið sammála í þessum efnum þá, en trúlega hefur símasambandið batnað síðan. (Gripið fram í.) Ég held því að þetta sé ekki spurning um það hvort menn hafi síma eða hvort fjarskipti eru fyrir hendi. Þau hafa verið fyrir hendi þann tíma sem þessi lög hafa verið í gildi. Kannski er hægt að koma því við að gera þetta á þann veg að fleiri njóti þess en hafa gert. Ef menn telja þetta til hins betra er það meginmálið að sem flestir njóti þess, að það verði ekki tiltölulega fáir og aðrir verði settir hjá.
    Varðandi fyrirvara á Verkamannasambandsþingi skal ég ekkert um segja, en ég hygg nú samt að um þetta séu mjög skiptar skoðanir innan verkalýðshreyfingarinnar sem heildar hvort sem menn líta til Verkamannasambandsins eða Alþýðusambandsins. Það þýðir ekki að vera að blekkja sig á því að mínu viti að það séu ekki skiptar skoðanir innan verkalýðshreyfingarinar um jafnmikilvæg mál og hér er um að ræða eins og víða annars staðar. Þar eru ekki allir á sömu skoðun og það er blekking að mínu viti að halda því fram að menn séu þar á einni og hinni sömu skoðun að því er þetta varðar. Þarna er um að ræða t.d. sjómenn sér á parti, landverkafólk hins vegar og síðan koma fleiri sjónarmið inn í. Þarna rekast hagsmunir á og það verða menn að viðurkenna. Og auðvitað eiga menn að draga nótur í áframhaldinu í samræmi við það að um þetta eru skiptar skoðanir og menn verða þá að reyna að finna samnefnara til þess að koma þessu dæmi heim og saman þrátt fyrir það að góð símasambönd og fjarskipti eru fyrir hendi.