Fiskveiðasjóður Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Eins og ég gat um í máli mínu hér fyrr í dag varðandi annað frv., þá er auðvitað ekki annað hægt en að fagna efni frv. eins og þessa sem hér liggur fyrir. Vil ég í því sambandi minna á að það starf sem hér er lagt til að ný þróunardeild við Fiskveiðasjóð taki að sér er um efni sem var hluti af brtt. Kvennalistans við frv. til laga um stjórn fiskveiða sem var hér til umræðu á Alþingi fyrir tveimur árum. Þar lögðum við til að 20% af heildaraflanum væri sett í sameiginlegan sjóð og yrði til sölu, leigu eða sérstakrar ráðstöfunar eftir ákveðnum reglum. Við lögðum einnig til að það gjald sem kæmi inn fyrir slíka sölu eða leigu yrði nýtt til fræðslu í sjávarútvegi, fiskvinnsluskóla, símenntunar fiskvinnslufólks, sjómannaskóla og öryggisfræðslu sjómanna. Í öðru lagi --- og þetta er ekki talið upp í forgangsröð eftir mikilvægi --- þá lögðum við til að rannsóknir yrðu efldar í tengslum við sjávarútveginn, bæði grunnrannsóknir á lífríki sjávar, rannsóknir á ónýttum og vannýttum tegundum, vöruþróun í sjávarútvegi, markaðsöflun og markaðshönnun fyrir sjávarafurðir. Og í þriðja lagi lögðum við til að fyrir hagnað af sölu veiðileyfa yrðu einnig veitt verðlaun fyrir sérstaklega góða frammistöðu í nýtingu og meðferð aflans eða fyrir lofsverðan aðbúnað starfsfólks. Þessar tillögur okkar tóku því til mun breiðara sviðs en hér er fjallað um. Þetta var mjög mikilvægur liður í þeim tillögum sem við þá lögðum fram því það er að okkar mati ekki vansalaust hversu lítið í rauninni þessi þjóð sem lifir á fiski hefur sinnt rannsóknum og fræðslu í sjávarútvegi. Það er ábyggilegt að hirðuleysi hefur orðið okkur til verulegs tjóns og m.a. stuðlað að því að störf í sjávarútvegi njóta ekki þeirrar virðingar sem þeim ber. Þess vegna lögðum við líka mikla áherslu á að lagfæra og efla alla menntun og fræðslustarfsemi í þessum greinum.
    Ég get því að sjálfsögðu, með hliðsjón af þessum hugmyndum okkar og tillögum á þinginu 1987, tekið undir þær hugmyndir sem fram koma í þessu frv. um að efla þróun og rannsóknir, en hlýt auðvitað að gera athugasemd við síðustu setninguna í almennum athugasemdum með frv. þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Styrkveitingar eru þó háðar því að deildin fái sérstakar tekjur til að standa undir þeim.``
    Það kom reyndar fram í máli hæstv. sjútvrh. að ætlunin mun vera að tekjur komi frá sjávarútveginum þegar betur árar. Það stendur hér í 5. gr. frv. að lögin skuli þegar öðlast gildi og í mínum augum er það harla lítils virði að þau taki gildi án þess að hægt sé að framfylgja þeim. Vil ég reyndar í því sambandi benda á þar sem við fjöllum á næstu vikum um fjárlög að í þeim kemur það víða fyrir að ekki er framfylgt lögum sem Alþingi hefur sett um markaða tekjustofna og það er auðvitað afleitt og þyrfti að ræða annars staðar en í sambandi við þetta mál. En ég lít á það sem algjört frumskilyrði fyrir því að lög þessi geti tekið gildi að það sé einhver von til þess að hægt sé að framfylgja þeim. Auk þess vildi ég gjarnan

sjá þetta svið sem þróunar- og rannsóknardeildinni er ætlað víðara þannig að einnig verði hugað að t.d. aðbúnaði starfsfólks í þessum greinum og sömuleiðis fræðsluþættinum.