Fiskveiðasjóður Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ég kem nú eiginlega hér upp til að andmæla þessu frv. Ég er ekki eins hógvær og þeir hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson og Skúli Alexandersson. Ekki vegna þess að ég vilji ekki að lagt sé lið því sem hér er verið að tala um, en það tæki er til í þjóðfélaginu núna og hefur verið lengi sem er Fiskimálasjóður. Ég man ekki hversu langt er síðan hér var flutt frv. til l. um að leggja starfsemi hans niður, það eru nokkur ár.
    Það sem ég óttast að hér sé verið að gera, og einhvern veginn finnst mér ég finna lyktina af því, er að hér sé verið að stíga fyrsta skrefið inn á auðlindaskattsbrautina. Þetta er kannski fyrsta skrefið eða fyrra skrefið til að koma á úreldingarsjóðshugmyndinni sem fram kom á síðasta Alþingi í umræðum. ( Sjútvrh.: Hún kemur aftur.) Hún kemur aftur. Ég efast ekki um það, hæstv. ráðherra, að hún kemur aftur. En kannski verður róðurinn auðveldari ef nú á að leiða menn inn í þessa gildru sem hér er fyrir og það sé meiningin að viðhafa --- það má auðvitað ekki kalla það klæki, hæstv. ráðherra, klókindi frekar til þess að hafa áhrif á sjónarmið einstakra hv. þm.
    Ég er mjög sammála hv. þm. Skúla Alexanderssyni um það að hér er auðvitað verið að kasta rekunum á Fiskimálasjóð, þann sjóð sem að mínu viti gerði mjög mikið gagn um langan tíma þó að vissulega hefði hann mátt gera meira hefði hann haft til þess aðstæður. En ég sé ekki til hvers verið er að þessu. Það gæti komið --- ja við skulum segja t.d. bara eftir áramót --- frv. frá hæstv. ríkisstjórn sem væri eitthvað á þessa leið: ,,Frumvarp til laga um viðauka`` við það sem hér er verið að gera í úreldingarsjóði, í auðlindaskatti. Hér eru menn vísvitandi að leggja gildrur fyrir tiltekna þm. til þess að þeir fallist á þau sjónarmið sem hér hafa verið uppi og ég er ekki út af fyrir sig að ásaka hæstv. ráðherra. Hann hefur fengið mikinn meiri hluta þingsins til að fallast á þessi sjónarmið öll. Og það er auðvitað það gagnrýnisverðasta. Hér er ekki verið að gera neitt annað en að leggja til viðauka við lögin um Fiskveiðasjóð. Það er ekki verið að tala um tekjur. Það segir bara: ,,Deildinni er og heimilt að veita styrki í sama tilgangi enda verði henni séð fyrir sérstökum tekjum í því skyni.`` Hvaðan eiga þær að koma? (Gripið fram í.) Og hverjar eiga þær að verða? ( Gripið fram í: Hver á að borga reksturinn...?) Já, hver á að borga reksturinn? Svo segir hér eins og svo oft áður og hæstv. sjútvrh. er alveg snillingur í því. Í 3. gr. segir: ,,Sjávarútvegsráðherra setur reglur um lán- og styrkveitingar úr deildinni.`` Og þá sýnist mér, ef svo heldur fram sem ég vona nú að verði ekki varðandi fiskveiðistefnuna, hún er að vísu í gildi eitthvað í viðbót ef ég man rétt, þau lög sem núna eru þannig að eftir árið 1990 koma ný lög til með að taka við að því er hana varðar, verði það svo áfram sem verið hefur hefur hæstv. sjútvrh. í hendi sinni með reglugerðarsetningu nánast alla hluti á útfærslu

fiskveiðistefnunnar sem Alþingi hefur veitt honum.
    Ég vara mjög eindregið við þessu frv. og hef lýst öllum fyrirvörum í þingflokki Alþfl. gagnvart því. Ég vil a.m.k. vita hvað menn eru að fara og hvert menn eru að leiða með svona breytingu sem ég sé ekki að sé nein sérstök þörf á á þessu stigi máls. Mér er það ljóst að það er vaxandi andstaða við þá fiskveiðistefnu sem við búum við núna. Hún er vaxandi og vonandi nægileg til þess að stefnunni verði breytt á betri veg. En ég hygg að menn séu hér að leiða tiltekna þm. í gildru með svona frumvarpsflutningi.