Fiskveiðasjóður Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég get fullvissað hv. þm. Karvel Pálmason um að hér er að sjálfsögðu engin tilraun til þess gerð að leiða menn inn í einhverjar gildrur, enda er þetta frv. svo einfalt í sinni mynd að það ætti að vera augljóst hverjum manni. Og ef einhver hætta er á því að frv. sem þetta sé gildra, þá hygg ég nú að margt sem fram fer hér á Alþingi ætti fremur að skoðast í því ljósi. En ég vænti þess að slíkt sé ekki hugsunarháttur sem hér ríkir í flutningi frumvarpa að leiða menn inn í eina né aðra gildru. Hér er einfaldlega verið að taka á vandamáli sem er fyrir hendi, reyna að gera því einhver skil. Ég skal gera grein fyrir því af hverju þetta frv. er með þeim hætti sem hér er þó að það sé í sjálfu sér ekki fullkomið frekar en önnur frumvörp eins og ég tók skýrt fram í minni framsögu.
    Það er ekki ný hugmynd að leggja Fiskimálasjóð niður og yfirfæra tekjur og skuldir hans til Fiskveiðasjóðs. Það kom mjög skýrt fram í því starfi sem fór fram á sínum tíma hjá sjóðanefndinni og þegar það frv. var samþykkt hér á Alþingi, að þá var gert ráð fyrir því í greinargerð að þessi sameining færi fram.
    Það má í sjálfu sér segja að ekki er til neins að halda starfsemi Fiskimálasjóðs áfram miðað við þá stöðu sem hann hefur. Hann hefur engar tekjur, á engar eignir og hið eina sem þar fer fram er að þar er haldið uppi ákveðinni starfsemi til að færa bækur o.s.frv. Það er nokkur kostnaður við starfsemina þó að hann sé í sjálfu sér hverfandi. Ég hygg að hv. þm. geti verið því sammála að það er ekki til neins að hafa slíkan sjóð. Það er svona álíka og að reka einhvern annan sjóð hvort sem það er lífeyrissjóður eða einhver annar. Það eru margir sjóðir reknir í þessu landi sem hafa engar tekjur og eiga engar eignir. Það getur ekki verið hugmynd okkar, sem viljum auka starfsemi af þessu tagi, að halda á máli með slíkum hætti. Þá er tvennt að gera. Annaðhvort er að auka veg og virðingu Fiskimálasjóðs og ákveða honum tekjur, færa til hans einhverjar eignir þannig að hann geti byrjað að starfa með þeim hætti sem hann áður gerði. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Hins vegar er það svo að Fiskveiðasjóður hefur allt aðra stöðu en Fiskimálasjóður. Fiskveiðasjóður á verulegar eignir og er sjóður sem getur tekið nokkra áhættu og gerir það í mörgum tilvikum. Fiskveiðasjóður hefur tapað á ýmsum verkefnum. Hann er nú um þessar mundir t.d. að tapa nokkru fé af lánum til fiskeldis. Það var út af fyrir sig mjög merkt framtak á sínum tíma þegar Fiskveiðasjóður lánaði nokkurt fé til strandeldisstöðva hér í landinu til þess að sú tilraun gæti farið fram. Því miður hefur það ekki tekist eins vel og menn væntu í upphafi þó að ég vonist til að Fiskveiðasjóður muni ekki tapa mjög miklu á þeirri starfsemi.
    Það sem er einfaldlega verið að leggja hér til er í fyrsta lagi að yfirfæra eignir og skuldir Fiskimálasjóðs til Fiskveiðasjóðs vegna þess að Fiskimálasjóður getur

í reynd ekki staðið við sínar skuldbindingar. Og það er líka hætta á því að hann geti orðið greiðsluþrota, þ.e. hann geti ekki borgað af öllum sínum lánum m.a. vegna þess að útlán hans eru að nokkru leyti í allverulegri áhættu.
    Í öðru lagi er verið að gera Fiskveiðasjóði Íslands kleift að lána til verkefna af þessu tagi, sem sagt lána til rannsókna og þróunarverkefna sem sjóðurinn getur án þess að hann fái til þess sérstakar tekjur. Hins vegar kemur það skýrt fram í frv. að Fiskveiðasjóður Íslands mun ekki taka upp sérstaka styrki til þessara mála nema hann fái til þess tekjur. Þá er spurt: Hvaða tekjur gæti hann hugsanlega fengið? Ég fullvissa hv. þm. Karvel Pálmason um að hér er á engan hátt verið að ýja að því að taka upp auðlindaskatt og ég vek athygli á því að á sama tíma og uppi eru hugmyndir um að leggja slíkan skatt á sjávarútveginn treysta menn sér vart til þess að leggja til að sjávarútvegurinn greiði einhvern skatt til þeirra þarfa sem hér eru tilgreindar.
    Ég hreyfði þeirri hugmynd á sínum tíma að ekki væri óeðlilegt að sjávarútvegurinn greiddi svipað gjald og iðnaðurinn í landinu greiðir í dag, svokallað iðnlánasjóðsgjald. Þessu gjaldi yrði m.a. varið til slíkra þróunarverkefna. Því var ákaft mótmælt af nánast öllum aðilum í sjávarútvegi að nú ætti enn á ný að fara að stofna til sjóða á vegum sjávarútvegsins. Það var e.t.v. eðlilegt að það gerðist á þeim tíma en ég hygg að þarna hafi orðið nokkur breyting á viðhorfum og minni m.a. á það að iðnaðurinn notar hluta af iðnlánasjóðsgjaldi til að greiða til Útflutningsráðs Íslands. Sjávarútvegurinn hefur ekkert fé haft til að greiða sinn hluta af gjaldi til Útflutningsráðs og hefur ávallt komið á hverju ári og beðið um að hluta af endurgreiddum uppsöfnuðum söluskatti yrði varið í þessu skyni. Á það hefur verið fallist en sagt að það sé ekki til frambúðar og aðilar sjávarútvegsins verði að koma með tillögu um hvernig slíkra tekna skuli aflað til frambúðar. Þeir hafa skipað sérstaka nefnd um það, jafnvel fengið þingmenn sér til aðstoðar í því starfi, en niðurstaða ekki orðið í málinu. Það sem einfaldlega hefur gerst er eins og
oft áður að menn andmæla því að afla sérstakra tekna til Útflutningsráðs og til þróunarverkefna en koma svo jafnvel daginn eftir eða nokkrum dögum síðar og biðja um fé til viðkomandi verkefna. Þetta er ekkert nýtt í mannkynssögunni og sjávarútvegurinn er ekki saklaus af slíkum athöfnum fremur en margir aðrir.
    Ég tel að það þurfi að leggja á vægt gjald til þessara hluta á einhverju stigi máls og mér finnst ekki óeðlilegt að benda á starfsemi Iðnlánasjóðs í því sambandi og benda á þá staðreynd að Iðnlánasjóður hefur fengið framlag á fjárlögum á móti iðnlánasjóðsgjaldi. Það er líka rétt sem hér hefur komið fram að Fiskveiðasjóður á skv. lögum að fá tekjur á fjárlögum en hefur ekki fengið slíkar tekjur mjög lengi. Hver ætli ástæðan sé fyrir því? Ég býst við að öllum hv. þm. sé kunnugt um það. Það er af þeirri einföldu ástæðu að við höfum verið í vandræðum með að koma saman fjárlögum og reynt

hefur verið að skera niður öll þau framlög sem mönnum hefur nánast dottið í hug og þetta framlag hefur m.a. lent í þeim niðurskurði. Ég tel því mjög mikilvægt að koma þessu máli með einum eða öðrum hætti í höfn. Ég legg hér til í samræmi við umræðu sem hefur átt sér stað um langan tíma að Fiskimálasjóði verði komið fyrir. Það er sagt að það sé hér verið að kasta rekunum. Menn geta í sjálfu sér litið þannig á, en sjóðurinn er dauður og það er yfirleitt til siðs að ganga einhvern veginn frá mönnum þegar svo er komið en láta þá ekki liggja á víðavangi. Mér heyrist að (Gripið fram í.) já, það er út af fyrir sig rétt, það er búið að taka allt of langan tíma. En ég bendi á þá staðreynd að þetta frv. kom hér til umfjölllunar á síðasta þingi og þá hafði þingið sömu afstöðu og að hluta til hefur komið hér fram, að ekki skyldi gengið frá sjóðnum með einum eða öðrum hætti, það skyldi láta hann liggja á víðavangi. Og auðvitað getur þingið haft þá afstöðu áfram, en það hlýtur að vera skylda sjútvrh. að leggja þetta mál fyrir með þeim hætti sem hér er gert. Hér er fyrst og fremst verið að leggja til að koma þessum sjóði fyrir í góðum höndum og meðal
vinveittra og í öðru lagi að gera þessum vinveitta aðila kleift að lána til slíkrar starfsemi sem Fiskimálasjóður gerði áður og opna fyrir það að sá aðili geti veitt styrki í framtíðinni ef samstaða næst um að afla tekna í því skyni. Ég tel að sjálfsögðu koma til greina að ganga frá því á yfirstandandi þingi ef um það gæti myndast samstaða.
    Aðeins út af athugasemd hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar um af hverju hér væri flutt frv. til l. um viðauka. Eftir því sem ég best veit mun þetta eiga sér eitthvert fordæmi og með því er eingöngu verið að leggja á það áherslu að hér er um sérstaka deild að ræða sem á að starfa við Fiskveiðasjóð Íslands og þótti fara betur á því að gera það með þessum hætti, að þetta frv., ef að lögum verður, yrði sérstök viðaukalög við lögin um Fiskveiðasjóð Íslands vegna þess að hér er um sérstaka deild að ræða. Hins vegar er ekki þar með sagt að það form henti í öðrum tilvikum og ég get alveg tekið undir með honum í þeim efnum. Hvort þetta form er notað eða eitthvert annað er í sjálfu sér ekkert aðalatriði, mér finnst að hér sé um snyrtilegt form að ræða sem sé fremur til fyrirmyndar en annað. En það má ekki líta svo á að það henti í öllum tilvikum heldur eingöngu í sérstökum tilvikum sem þessum þegar verið er að setja lög um alveg sérstaka starfsemi sem tengist öðrum lögum. En að sjálfsögðu má finna annað form fyrir það ef hv. nefnd telur það eðlilegt og heppilegt.