Námsgagnastofnun
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um þetta mál sem ég held að sé til bóta og sannarlega réttmæt ráðstöfun að renna styrkari stoðum undir starfsemi Námsgagnastofnunar, eins mikilvæg og þörf og hún er.
    Það eru þó nokkrar athugasemdir sem ég vildi gera og jafnvel spurningar sem ég vildi bera fram til hæstv. menntmrh.
    Það er vert að vekja athygli á því að aðstæður stofnunarinnar hafa verið slíkar á undanförnum árum að nemendur í grunnskólum, sérstaklega í efri bekkjunum, 7., 8. og 9. bekk, hafa þurft að kaupa kennslubækur sínar sjálfir þó að yfirvöldum beri skylda til að sjá fyrir þeim. Aðstæður kennara hafa oft verið mjög erfiðar, þeir hafa þurft að fjölrita og útbúa námsefni í takmörkuðum frítíma sínum.
    Það er líka annað sem kemur upp í hugann. Það er spurning um kjör þeirra sem taka að sér að semja námsbækur og námsefni, hvernig að þeim er búið og hver réttindi þeirra eru þegar þeir taka slíkt að sér, hvort þeir missa hluta úr kennsluskylduréttindum sínum við slíkt starf og hvernig það er launað. Ég tel það afar mikilvægt að jafnveigamikið verkefni og að gera námsgögn sé hæfilega vel launað.
    Ég tel það jákvætt sem kemur fram í 1. gr. í 2. málsgr. að Námsgagnastofnun skuli vera heimilt að annast hliðstæð verkefni fyrir framhaldsskólana því þar er víða skortur á námsefni í flestum greinum hreint með ólíkindum.
    Varðandi stjórn stofnunarinnar þá er ein athugasemd sem ég vildi gera. Í 2. gr. kemur fram að tilnefndur er einn fulltrúi frá foreldrafélagi, sem er auðvitað sjálfsögð ráðstöfun og ég styð hana. Hins vegar kemur fram að ekki eru til landssamtök foreldrafélaga og ég skil reyndar þann vanda vel að ekki er auðvelt að velja einn fulltrúa allra foreldra, einmitt af því að það eru ekki til slík samtök nema á höfuðborgarsvæðinu. Ég sé ekki að það sé neitt heppilegri ráðstöfun að ráðherra velji þetta foreldri. Það væri þá mun betra að hafa einhvern annan hátt á, annaðhvort að þessi vísir að heildarsamtökum sjái um að velja foreldra eða foreldri verði skipað úr stærsta dreifbýlisskólanum eða eitthvað slíkt. Ég held að það sé ekki endilega æskilegt að menntmrh. annist þessa skipan.
    Síðan er meginefnið sem ég vildi víkja að og varðar einmitt það sem ég nefndi fyrst hér í orðum mínum, þ.e. að renna styrkari stoðum undir starfsemi Námsgagnastofnunar. Á hverju ári síðan Kvennalistinn byrjaði á þingi höfum við þingkonur Kvennalistans flutt brtt. við fjárlögin um að auka fjárveitingar til Námsgagnastofnunar af því hún hefur verið í verulegu fjársvelti. Þó að lagalegur rammi sem afmarkar verkefni hennar og styrkir hana sé auðvitað nauðsynlegur og sjálfsagður, þá skiptir meginmáli að stofnunin fái nægilegt fé
til starfa sinna. Ég vil leggja á það megináherslu að jafnframt því sem þessi lög verða samþykkt, og ég

reikna með því að þau verði samþykkt hér á þinginu, verði séð til þess að fjárveitingar verði nægar til þessarar stofnunar sem gegnir svo mikilvægu hlutverki.