Námsgagnastofnun
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins segja hér nokkur orð í tilefni af því frv. sem hæstv. menntmrh. hefur mælt fyrir um breytingu á lögum um Námsgagnastofnun. Það kemur hér fram í athugasemdum við frv. að verði það að lögum sé því ætlað að renna styrkari stoðum undir starfsemi Námsgagnastofnunar sem auðveldar henni að gegna því hlutverki að sjá grunnskólum fyrir sem bestum náms- og kennslugögnum. Þetta er vissulega af hinu góða og brýnt að stuðla að því. Það eru ekki mörg atriði sem ég ætla að gera athugasemdir við en mig langar aðeins þó að nefna örfá.
    Þá er fyrst að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta frv. er lagt fram óbreytt eins og nefndin gerði tillögu um.
    Stærsta atriðið í þessu frv. er kannski, eins og fram hefur komið, 2. gr. þar sem gert er ráð fyrir að fjölga um tvo í námsgagnastjórninni, að þeir verði níu í stað sjö áður. Ég treysti mér ekki til að leggja dóm á það þó auðvitað sé nú vitað að því stærri sem slíkar stjórnir eru eða fjölmennari, þess þyngri eru þær í vöfum. En það er samt sem áður eðlilegt að reyna að sjá til þess að þeir hagsmunaaðilar sem um er að ræða eigi fulltrúa í slíkri stjórn. Þetta er það þýðingarmikil stjórn.
    Það ber að fagna því að gert er ráð fyrir fulltrúa foreldra í stjórninni. Mér þykir hlutur foreldra hins vegar vera lítill þar sem er aðeins um einn fulltrúa eða eitt foreldri að ræða sem á að vera fulltrúi fyrir 38--40 þúsund nemendur í landinu. Það getur orðið erfitt að velja slíkan fulltrúa foreldra. Þetta minnir mann svolítið á það þegar hérna áður fyrr, og kannski jafnvel enn, er oft sagt: ,,Ja, það er best að hafa eina konu.`` Það er sem sagt best að hafa þarna einn fulltrúa frá foreldrum.
    Þarna er reiknað með fjórum fulltrúum tilnefndum af Bandalagi kennarafélaga. Mér finnst eðlileg sú athugasemd sem hefur komið frá skólastjórum og yfirkennurum að það þurfi á einhvern hátt að tryggja að fulltrúi sé úr þeirra hópi.
    Allir aðrir fulltrúar í stjórninni eru frá --- ég veit ekki hvernig maður á að orða það --- fræðslumálageiranum eða menntamálageiranum en fulltrúi hins venjulega foreldris hann verður bara einn á móti þessum átta. Ég hefði talið skaðlaust að hafa þarna tvo eða þrjá jafnvel. Ég mundi gjarnan vilja skoða það hvernig væri hægt að standa að því.
    Það kemur fram að talið sé óeðlilegt að SAMFOK, Samtök foreldra og kennarafélaga í Reykjavík, tilnefni þennan fulltrúa þar sem þau eru aðeins samtök hér í höfuðborginni en það má samt sem áður ekki gleyma því að þau samtök eru foreldrasamtök helmings nemenda í öllu landinu og þess vegna vil ég staldra við það hvernig ráðherra treystir sér frekar til þess að ákveða frá hvaða félagi hann ætli að leita eftir þessum fulltrúa. Það hefði mátt hugsa sér að ekki væri óeðlilegt að fulltrúi foreldra kæmi einnig frá landsbyggðinni eins og frá Reykjavík og/eða

höfuðborgarsvæðinu. Og eins og ég nefndi mætti hugsa sér að það væri ekki óeðlilegt að þeir væru þrír. Ég held að allar leiðir sem farnar eru eða leitað er eftir til þess að auka ábyrgð foreldra á skólastarfi séu af hinu góða og þarna er nú eitt tækifæri til þess að fara þá leið. Ég tel ekki óeðlilegt að kennaramenntunarnefnd HÍ tilnefni fulltrúa eins og gert er ráð fyrir að sé annar af þessum viðbótarfulltrúum sem fram kemur í frv.
    Varðandi 3. og 6. gr., þá er þar talað um að það sé í raun verið að staðfesta starfsvenjur í stofnuninni sem gefist hafa vel og ég tel það eðlilegt að lögum sé þá breytt í samræmi við góða reynslu, en það er varðandi 8. gr. sem mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra. Þar kemur fram að búið sé að fella út heimildarákvæði í 9. gr. gildandi laga til handa skólum um notkun á námsgögnum og um veitingu viðurkenningar ráðuneytisins á námsefni frá öðrum útgefendum og því er bætt þar við að eðlilegra sé að ákvæði um þessi atriði standi í grunnskólalögum. Það má vel vera að það sé rétt. En þá vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé tryggt að svo verði gert, hvort það sé þá von á frv. um breytingar á grunnskólalögunum þar sem þetta ákvæði verði sett inn.
    Þetta eru nú þau atriði sem mér koma helst í hug að nefna hér við 1. umr., en þar sem ég á sæti í hv. menntmn. og fæ tækifæri til að fjalla nánar um þetta frv. á þeim vettvangi ætla ég ekki að fara ítarlegar út í það á þessu stigi.