Námsgagnastofnun
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær undirtektir sem þetta frv. hefur hér fengið frá tveimur hv. þm. Það var í raun og veru aðallega ein efnisleg athugasemd sem mér fannst ástæða til að nefna. Það er í sambandi við foreldrafélögin. Þingið kemur bara með þá tillögu sem það vill. Núverandi ráðherra hefur engan áhuga á því að velja þessi foreldri. Hann mundi hins vegar hafa það þannig að hann gæti hugsanlega átt það til að velja eitt árið úr fræðsluumdæminu Reykjavík, annað árið úr fræðsluumdæminu Vesturland o.s.frv. Ég hygg að það væri langeinfaldast að framkvæma þetta þannig þangað til foreldrasamtök á landsmælikvarða verða til.
    Það er hins vegar þannig að í undirbúningi er stofnun foreldrasamtaka á landsmælikvarða og strax og þau eru orðin til er auðvitað eðlilegt að þau fengju það hlutverk að tilnefna fulltrúa foreldranna í þessa stjórn og þá er eðlilegt að orða greinina þannig að gert sé ráð fyrir því. Þessi undirbúningur og þetta átak um að fá foreldrana í auknum mæli inn í skólana er í gangi að frumkvæði menntmrn. Sl. fimmtudagskvöld hélt ég fund með fulltrúum skóla og borgarafélaga víðs vegar að af landinu þar sem settur var í gang undirbúningur að því að hér verði um eitthvert heildarskipulag að ræða en eins og kunnugt er hefur ekki verið um að ræða landssamtök foreldrafélaga hér á landi.
    Að því er varðar fjölda foreldrafulltrúanna, þá er það mál sem nefndin verður bara að meta með hliðsjón af öðru. Þessi stjórn má auðvitað ekki fara að verða stofnun upp á marga tugi manna svo að það þarf að taka mið af því. En ég tel langeðlilegast að nefndin meti atriði af þessu tagi og af því að ég var spurður að því áðan þá er frv. eins og nefndin samdi það á sínum tíma. Ég hef það ekki fyrir sið þegar um er að ræða faglega samstöðu í nefnd af þessu tagi að breyta málum á leiðinni hingað inn ef hjá því verður komist af öðrum ástæðum. Ég tel langeðlilegast að Alþingi fái sjálft að fjalla um mál af þessu tagi.
    Varðandi heimild til þess að kaupa námsefni frá öðrum vil ég vísa til þess sem nefndin gerir tillögu um, en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin leggur til að skólum verði gert kleift að fá úthlutað efni frá öðrum útgefendum. Skólunum verði kynnt á sérstöku eyðublaði efni sem Námsgagnastofnun kaupir frá öðrum útgefendum og að séróskir verði metnar hverju sinni með hliðsjón af gæðum efnisins. Við það skal miðað að verðgildi efnis frá öðrum útgefendum fari ekki yfir 5% af úthlutunarkvóta skóla með 100 nemendur eða fleiri en umsóknir skóla með færri nemendur verði metnar sérstaklega með tilliti til verðlags. Nefndin leggur til að kannaðir verði möguleikar á samstarfi Námsgagnastofnunar við aðrar útgáfur um útgáfu námsefnis.``
    Eins og ég sagði áðan hefur stjórn Námsgagnastofnunar þegar fallist á meginatriðin í þessum tillögum sem hér liggja fyrir. Það er í raun og

veru óþarfi að lögfesta atriði af þessu tagi. Hún hefur þessar heimildir á grundvelli gildandi laga og almennar heimildir í þessum efnum er að sjálfsögðu hugsanlegt að setja inn í grunnskólalög. Það er málefni sem Alþingi fær hér til meðferðar síðar á þessu þingi.
    Varðandi önnur atriði sem hér komu fram, m.a. hjá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur, þá er gert ráð fyrir því í tillögum nefndarinnar að um verði að ræða verulega aukningu á framlögum til stofnunarinnar á árinu 1990. Í fjárlagafrv. ársins 1990 er ekki um að ræða verulega aukningu á framlögum til stofnunarinnar, hins vegar nokkra raunaukningu þannig að það er komið til móts við tillögur nefndarinnar. Hins vegar er kannski fróðlegt fyrir hv. alþm. að átta sig á því að framlög til stofnunarinnar hafa farið mjög vaxandi á undanförnum árum, einkum eftir að námsefnisgerð fyrir grunnskóla var flutt frá skólarannsóknadeild menntmrn. Þannig var framlag á þessu ári 179,5 millj. kr. en til samanburðar má geta þess að framlagið árið 1980 var 66 millj. kr. þannig að hér er um að ræða um það bil 200% hækkun á framlagi til þessarar stofnunar á árunum 1980--1989. Út af fyrir sig hefur því fjárveitingavaldið komið nokkuð til móts við þessar þarfir þó að það megi auðvitað halda því fram að þar mætti gera betur eins og víðar. Framlag á hvern nemanda reiknað á
verðlagi ársins 1989 hefur þróast þannig að það var 4015 kr. árið 1985, 4000 kr. árið 1987 og 4250 kr. árið 1989 þannig að þar hefur þokast heldur í áttina og samkvæmt fjárlagafrv. næsta árs er enn um örlitla aukningu að ræða.
    Ég vænti þess síðan að hv. þm. hafi nokkurn fróðleik af því að kynna sér þá skýrslu sem ég hef hér vitnað í og geti með hliðsjón af henni afgreitt frv. vandlega eins og hv. menntmn. er vís til að gera og þær ábendingar sem hér hafa komið fram eru með þeim hætti að ég er sannfærður um að um mál af því tagi getur náðst fullt samkomulag.