Forgangur mála á dagskránni
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Mér þykir rétt að skýra þingheimi frá því að ég átti tal við forseta þessarar deildar nú um hádegisbilið þar sem hann skýrði mér frá því að samkomulag hefði verið gert við viðkomandi aðila þessa máls um að það yrði tekið hér á dagskrá og um það yrði ekki umræða. Hæstv. fjmrh. hefði fallið frá orðinu og þar sem ég væri næstur á mælendaskrá fór hann þess á leit við mig að ég mundi ekki hefja hér umræðu um málið.
    Þar sem samkomulag var komið og gert milli viðkomandi aðila tjáði ég forseta að ég mundi sætta mig við það í trausti þess að málið yrði þá tekið hér á dagskrá og það kæmist til nefndar.