Forgangur mála á dagskránni
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Forseti (Árni Gunnarsson):
    Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað vill forseti taka eftirfarandi fram:
    Í fyrsta lagi: Hæstv. fjmrh. stjórnar auðvitað ekki hvernig mál eru sett á dagskrá í hv. deild. Það er reynt að gera með eðlilegu samkomulagi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og varðandi þau þrjú mál sem hér hafa verið rædd hefur forseti gert það sem í hans valdi hefur staðið til að þau mættu fá framgang.
    Forseti óskaði eftir því á fundi í morgun að um það gæti tekist samkomulag að þessi mál mættu koma hér til umræðu í upphafi fundar gegn því að það yrði umræðulaust og þau yrðu afgreidd til nefndar. Forseti taldi sig hafa fyrir þessu nokkurt samkomulag og þess vegna vildi hann taka þessi mál hér fyrir. Þegar í ljós kom að einhverjir hv. deildarmanna vildu upphefja umræðu um málin vildi forseti taka fyrir þau tvö umhverfismál sem hér liggja fyrir og fyrir löngu er búið að tala um að kæmu á dagskrá fundarins í dag.
    Vegna þessarar umræðu og vegna orða hv. síðasta ræðumanns, 1. þm. Reykv., fellst forseti á það að taka nú til afgreiðslu 5., 6. og 7. málið, eins og raunar hafði verið ákveðið áður en þessi fundur var settur, og afgreiða þau til nefndar.