Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Það var vissulega fróðlegt að heyra síðasta ræðumann, hv. 6. þm. Norðurl. e., lýsa tilurð þessa frv. Hv. þm. er einn af aðstandendum þessarar ríkisstjórnar. Hann, og sá flokkur sem hann er fulltrúi fyrir hér á hv. Alþingi, styður þessa ríkisstjórn og hefur tekið þátt í undirbúningi mála á hennar vegum. Hann lýsti því yfir að þetta mál væri til komið vegna pólitískrar nauðsynjar og sú pólitíska nauðsyn markaðist af tvennu:
    Í fyrsta lagi að það væri nauðsynlegt að samræmi væri í samskiptum við útlönd á sviði umhverfismála.
    Í öðru lagi vegna samkomulags sem gert var þegar síðari ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð.
    Það er auðvitað mjög fróðlegt fyrir hv. Alþingi að fá slíka skilgreiningu á því hver er grundvöllur að jafnstóru og afdrifaríku máli og hér um ræðir. Þetta frv. fjallar um mjög umtalsverðar breytingar á okkar stjórnkerfi, það fjallar um stofnun nýs ráðuneytis. Það fjallar um að flytja fjöldamarga málaflokka frá öðrum ráðuneytum undir þetta nýja ráðuneyti. Og allt er þetta gert, að mati hv. 6. þm. Norðurl. e., allt er þetta gert af pólitískri nauðsyn til þess að tryggja reglu í samskiptum við útlönd og til þess að standa við samkomulag sem gert var þegar mynduð var síðari ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar.
    Það er ekki hátt risið á þessu máli þegar maður hefur fengið slíka skilgreiningu frá einum af máttarstólpum þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Við Íslendingar erum oft dálítið seinheppnir. Tískustefnur frá útlöndum ná oft ekki að ströndum Íslands fyrr en þær eru búnar að ganga sér til húðar í öðrum löndum. Þegar fánýti þeirra er að verða fólki í öðrum löndum ljóst þá grípa Íslendingar þær oft fegins hendi og taka til við að framkvæma þær í gríð og erg. Við höfum oft upplifað þetta. Ég nefni t.d. ýmsar stefnur í
menntamálum. Það eru ekkert mjög mörg ár síðan að það var mikil tíska hér á Íslandi að kenna reikning eftir svokallaðri mengjaaðferð. Við tókum þetta upp þegar aðrar þjóðir voru að láta af þessari stefnu. Þetta barst seint að okkar ströndum en við tókum hins vegar að framkvæma þetta í gríð og erg og niðurstaðan af því er sú að hér er heil kynslóð gangandi sem ekki kann að reikna. Auðvitað hurfu menn frá þessu þegar þeir áttuðu sig á fánýti þessarar kenningar en þá var löngu búið að leggja hana af í öðrum löndum.
    Eitt slíkt tískufyrirbæri speglast í þessu frv. sem hér er til umræðu, þ.e. frv. um stofnun sérstaks umhverfismálaráðuneytis. Ég get alveg tekið undir allt það sem aðrir hafa sagt hér um mikilvægi umhverfismála. Á þann málaflokk ber vissulega að leggja þunga áherslu og Sjálfstfl. hefur vissulega gert það, bæði með sérstöku frv. sem hér hefur verið lagt fram og aðrir gert að umtalsefni í þessari umræðu, þ.e. 4. mál þessa þings, frv. til l. um samræmda stjórn umhverfismála en 1. flm. þess er hv. 1. þm. Reykn.

Matthías Á. Mathiesen.
    Ég vil líka benda á að Sjálfstfl. gerði mjög ítarlega ályktun um umhverfismál á nýafstöðnum landsfundi flokksins sem haldinn var nú í byrjun október. Í almennri stjórnmálaályktun þess landsfundar voru nokkrir málaflokkar sem flokkurinn vildi leggja sérstaka áherslu á teknir út úr og umhverfismálaþátturinn var einn af þeim málaflokkum. Um hann sagði í landsfundarályktun flokksins, með leyfi forseta:
    ,,Vernda verður umhverfið og græða landið. Setja þarf almenn lög um umhverfismál og fela samræmingu þeirra einu ráðuneyti án þess að stofnað verði nýtt ráðuneyti um þessi mál. Mengunarvarnir verði efldar og endurvinnsla aukin. Íslendingar hafi frumkvæði að samstarfi þjóða á norðurslóðum um mengunarvarnir í hafinu. Um það og önnur hafréttarmál hefur Sjálfstfl. haft frumkvæði.``
    Þetta er úr hinni almennu stjórnmálayfirlýsingu landsfundarins þar sem tekinn er út úr einn af tiltölulega fáum málaflokkum og gerð sérstök skil í almennu ályktuninni. Að auki var samþykkt ítarleg ályktun um umhverfis- og skipulagsmál sem ég ætla að gera hér aðeins að umtalsefni.
    Í þessari ályktun segir í upphafi, með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á sérstöðu Íslands í umhverfismálum og mótar stefnu sína eftir henni. Hafið er mikilvægasta auðlind þjóðarinnar. Varnir gegn mengun sjávar og skynsamleg nýting fiskistofna og sjávarspendýra eiga að njóta forgangs í umhverfismálum.
    Gróðurlendi Íslands er aðeins lítill hluti þess sem var. Náttúrulegar aðstæður bjóða upp á mikla möguleika til að efla landkosti og fegra umhverfið. Náttúra Íslands er viðkvæm. Því þarf að stórefla mengunarvarnir opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga.
    Í samræmi við þessar forsendur mótar Sjálfstæðisflokkurinn framsækna stefnu þar sem lögð er áhersla á athafnir og framfarir og leitast er við að virkja einstaklingana og samtök þeirra til að takast á við höfuðviðfangsefni umhverfismálanna.``
    Þetta var bein tilvitnun í upphaf ályktunar landsfundar Sjálfstfl. um umhverfis- og skipulagsmál en síðan eru áherslupunktar sem Sjálfstfl. vill leggja áherslu á í þessum málaflokki raktir í ellefu töluliðum og ég ætla að gera hvern þeirra að umtalsefni fyrir sig.
    ,,Skógrækt, landgræðsla og gróðurvernd verði stóraukin. Einstaklingar og samtök þeirra verði styrkt með beinum framlögum til landgræðslu og skógræktar. Bændastéttin verði efld til aukinnar þátttöku í uppgræðslustarfi. Þannig verði viðurkennt í verki að þessir aðilar eru styrkasta framfaraafl sem hægt er að virkja til að efla gróðurlendið.`` --- Þetta var fyrsti töluliður þessarar ályktunar.
    Eins og næstsíðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Norðurl. v., rakti í mjög ítarlegri ræðu sinni hér áðan, þá er í því frv. sem hér liggur fyrir gengið þvert á þessar hugmyndir. Það er ekki verið að boða samstarf við þá

sem helst nýta landið, þ.e. bændur, við uppgræðslu skóga eða lands eða gróðurvernd, heldur verið að efna til illinda og stríðsástands þeirra á milli eins og hv. þm. rakti mjög rækilega. Þess vegna held ég að þar sem fjallað er um þennan þátt mála í þessu frv. sé illa að málum staðið.
    Annar töluliður í þessari ályktun er svohljóðandi:
    ,,Rannsóknir á mengun sjávarins kringum Ísland verði efldar. Íslendingar hafi frumkvæði að samstarfi þjóða á norðurslóðum um varnir gegn mengun sjávar og ferskvatns og um málefni er varða viðhald vistfræðilegs jafnvægis í hafinu og eðlilega nýtingu auðlinda þess.``
    Hér er vikið að mjög mikilvægum þætti þar sem er mengun sjávar hér á norðurslóðum. Þrátt fyrir að samþykkt hafi verið þáltill. um þetta mál hér á hv. Alþingi fyrir allnokkrum árum síðan --- mig minnir að flutningsmenn hafi verið þeir Pétur Sigurðsson sem þá sat hér á þingi og núv. hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson --- sérstaklega um mengunarvarnir í hafinu og samstarf við aðrar þjóðir, þá hefur það komið í ljós þegar spurst var fyrir um framgang þessarar tillögu að nákvæmlega ekki neitt hafi verið gert í því að hafa frumkvæði að samstarfi þjóða á norðurslóðum um varnir gegn mengun sjávar.
    Það virðist sem allur áhugi þessarar hæstv. ríkisstjórnar sem nú situr beinist að því að koma upp flóknu og umfangsmiklu stjórnkerfi í kringum mengunarmálin í stað þess að grípa á málunum sjálfum og þar með hefur verið vanrækt allt frumkvæði í jafnmikilvægum þætti eins og þarna er á ferðinni.
    Í þriðja lagi var ályktað svo: ,,Sjálfstæðisflokkurinn telur að mengunareftirlit sé best komið í höndum sveitarfélaganna. Efla þarf mengunarvarnir og stuðla að endurnýtingu úrgangs. Eftirlit með notkun og förgun hættulegra efna verði aukið. Gera þarf stórátak í frárennslis- og sorpeyðingarmálum.``
    Hér er sem sagt vikið að mengunareftirliti og það er eindregin skoðun Sjálfstfl., samkvæmt þessari ályktun, að slíkt eftirlit sé best komið í höndum sveitarfélaganna sjálfra. Það þurfi ekki og það eigi ekki að miðstýra þeim þætti með því að setja yfirstjórn þeirra undir eitthvert sérstakt nýtt ráðuneyti.
    Ég hygg að þessi þáttur sé svo samofinn málefnum sveitarfélaganna sjálfra að miklu skynsamlegra og æskilegra sé að hafa hann áfram í því ráðuneyti sem fjallar um sveitarstjórnarmál, þar sem viss samræming þarf að eiga sér stað, en að setja hann í sérstakt umhverfismálaráðuneyti.
    Í fjórða tölulið þessarar ályktunar er fjallað um löggjöf á þessu sviði og þar segir: ,,Sett verði almenn lög um umhverfisvernd og samræming þeirra falin einu ráðuneyti. Umhverfismál eru flókin og samofin flestum öðrum málaflokkum. Stjórn umhverfismála fléttast því inn í málefni sem heyra undir mörg ráðuneyti. Forðast ber að líta svo á að stjórnun sé forgangsverkefni í umhverfismálum. Þess ber sérstaklega að gæta að aukin framlög til umhverfismála fari til framkvæmda en ekki til að

koma upp dýru stjórnkerfi.``
    Í þessum orðum er fólgin hver er afstaða Sjálfstfl. til stjórnunar þessara mála og sú afstaða kemur að sjálfsögðu fram í því frv. sem ég gat um áðan og flutt hefur verið um samræmda stjórn umhverfismála. Þar er gert ráð fyrir því að umhverfismál heyri undir fleiri en eitt ráðuneyti, þ.e. aðallega þrjú ráðuneyti, félmrn. sem skuli fara með skipulagsmál, heilbr.- og trmrn. sem fari með málefni sem snerta mengunarvarnir aðrar en varnir gegn mengun sjávar og samgöngu- og umhverfisráðuneyti sem fari með málefni er snerta varnir gegn mengun sjávar, alhliða náttúruvernd og friðun villtra dýra. Síðan er gert ráð fyrir að samgöngu- og umhverfisráðuneyti fari einnig með stjórn þeirra umhverfismála sem önnur ráðuneyti fari ekki með og að það ráðuneyti fari með erlend samskipti á sviði umhverfismála í samráði við stjórnarnefnd umhverfismála.
    Ég held það sé mikill misskilningur hjá hæstv. ríkisstjórn að sú miðstýring, sem nú er verið að gera ráð fyrir með stofnun þessa umhverfisráðuneytis, eigi eftir að skila betri árangri. Þvert á móti er hér verið að koma upp dýru og kostnaðarsömu stjórnkerfi sem á örugglega ekki eftir að skila þeim árangri sem að er stefnt miðað við þá reynslu sem nú þegar er komin af slíkum ráðuneytum
erlendis. Og það er líka mikill misskilningur að hafa það sem forgangsverkefni í umhverfismálum, eins og þessi hæstv. ríkisstjórn virðist gera, að koma upp flóknu stjórnkerfi. Hún virðist líta svo á, þessi hæstv. ríkisstjórn, að stjórnun sé forgangsverkefni í umhverfismálum.
    Fimmti töluliðurinn í landsfundarályktun Sjálfstfl. um þennan málaflokk hljóðar svo: ,,Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að árangur í umhverfismálum byggist á skilningi almennings og áhuga á náttúru landsins. Almenningur þarf því að hafa greiðan aðgang að nútímalegum upplýsingum um landið og náttúru þess. Fræðsla um náttúruvernd og umhverfismál verði aukin í skólum og meðal almennings. Horfið verði frá miðstýringu í náttúruvísindum, stutt verði dyggilega við það frumkvæði á sviði náttúrufræði sem dafnað hefur utan höfuðborgarsvæðisins. Náttúrugripasöfn og náttúrufræðistofnanir um land allt verði efldar til að mynda þann almenna þekkingargrunn sem náttúruvernd og áhugi á umhverfismálum byggjast á.``
    Hér er sem sagt lögð áhersla á samstarf við almenning í þessum málum og á fræðslu í skólum landsins og meðal almennings og að stuðlað verði að því að efla þær stofnanir sem sinna náttúru landsins og umhverfi landsins víða um landið. Ég vil t.d. sérstaklega nefna í þessu sambandi Náttúrufræðistofnunina á Norðurlandi sem hefur unnið mjög gott starf í sambandi við öflun upplýsinga um náttúru landsins og umhverfismál.
    Sjöundi töluliðurinn fjallar um ferðamál. Þar segir: ,,Við uppbyggingu og skipulag ferðamála verði þess gætt að hlífa viðkvæmum landsvæðum, ekki síst á hálendinu, svo komið verði í veg fyrir alvarleg

umhverfisspjöll af völdum ferðamanna á viðkvæmum og fjölsóttum stöðum.``
    Þetta er auðvitað eitt af þeim vandamálum sem mjög steðja að okkur, þ.e. hvernig við eigum að koma í veg fyrir alvarleg umhverfisspjöll á viðkvæmum og fjölsóttum stöðum, ekki síst á hálendi landsins sem er einstaklega viðkvæmt fyrir allri umferð.
    Mér finnst satt að segja að við höfum ekki sinnt því nægilega vel hvernig við eigum að gera það. Auðvitað kemur til mála í því sambandi að friðlýsa miklu stærri hluta af miðhálendi landsins og hafa miklu meira eftirlit með því hverjir fara inn á það og hvernig gengið er um þessi svæði. Og í rauninni sé ég ekkert koma í veg fyrir að hægt verði að taka gjald fyrir að fara inn á þessi svæði til þess að fá tekjur til að standa undir eftirliti og aðgerðum til að endurbæta þessi svæði en það tíðkast auðvitað alls staðar erlendis þar sem um slík svæði er að ræða að ferðamenn þurfa að standa að einhverju leyti sjálfir undir slíkum kostnaði.
    Í áttunda lagi segir: ,,Íslendingar taki aukinn og virkan þátt í samstarfi ríkja á alþjóðavettvangi til verndar umhverfinu og til þess að vinna gegn umhverfisspjöllum í lofti, á láði og í legi. Umhverfisvernd verði einn af grundvallarþáttum í utanríkisstefnu þjóðarinnar.``
    Það er hugmynd okkar samkvæmt þessu frv. sem ég gat um hér áðan, um samræmda stjórn á sviði umhverfismála, að það verði samgrn. sem breyti um nafn og heiti samgöngu- og umhverfisráðuneyti, sem fjalli um og hafi með höndum alþjóðleg samskipti á þessu sviði.
    Í níunda lagi segir í ályktun landsfundarins: ,,Sjálfstfl. vill efla sjálfstæði sveitarfélaga og samtaka þeirra í skipulags- og umhverfismálum og gera þeim kleift að annast þessi mál með breytingum á skipulagslögum er miða að því að draga úr afskiptum ríkisvaldsins.``
    Hér er tekið á mjög mikilvægum þætti, þ.e. skipulagsmálum sveitarfélaga. Mér sýnist að þetta frv. sem hér er á ferðinni gangi þvert á þá stefnu. Hér eigi nú að flytja skipulagsmálin frá félmrn. í sérstakt umhverfismálaráðuneyti og allur sá hugur sem þar er að baki stefni í þá átt að tök ríkisvaldsins verði miklu sterkari eftir það á skipulagsmálum sveitarfélaganna. Maður hlýtur auðvitað að spyrja sjálfan sig að því: Hvort eru skipulagsmál nátengdari umhverfismálunum eða sveitarstjórnarmálunum? Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því. Skipulagsmálin eru nátengdari sveitarstjórnarmálunum og eiga því að vera í því ráðuneyti sem sveitarstjórnarmál almennt eru frekar en umhverfismálin.
    Ég hef lesið með athygli nýlegt erindi sem flutt var á ráðstefnu sem haldin var í Norræna húsinu þann 22. okt. 1989 undir titlinum ,,Við erum gestir og hótel okkar er jörðin. Ný lífssýn. Hvar stöndum við? Hvert stefnum við?`` Á þessari ráðstefnu voru flutt allmörg erindi og m.a. flutti Bjarni Reynarsson, sem er doktor í skipulagsfræðum, erindi sem hann kallar ,,Forsjárhyggja eða frelsi í skipulagi byggðar.`` Í þessu

glögga erindi rakti hann nokkuð hvernig við höfum stjórnað okkar skipulagsmálum á undanförnum árum og hvatti til breytinga á þeim. Í erindi hans segir m.a.:
    ,,Á seinustu 10--15 árum hafa áherslur í skipulagsmálum á Norðurlöndum sem og í flestum löndum Vestur-Evrópu nema á Íslandi færst frá þessari fastbundnu skipulagsáætlun yfir í opnara, einfaldara og sveigjanlegra skipulagskerfi. Skýringarnar á þessari þróun erlendis eru aðallega þrjár:
    1. Þjóðfélagsgerðin er orðin mun opnari og valddreifing hefur því aukist
almennt.
    2. Sveitarfélög hafa verið stækkuð og fengið um leið aukna ábyrgð og völd í mörgum málaflokkum, t.d. skipulagsmálum.
    3. Uppbygging borga hefur ekki verið jafnhröð seinasta áratuginn og á 5. og 6. áratugnum og því ekki jafnmikil þörf fyrir stranga stýringu í skipulagi. Frekara skipulag sé unnið til að hvetja til uppbyggingar, t.d. í niðurníddum miðborgum.``
    Hann rekur síðan nokkuð hinar íslensku aðstæður, hvernig þróun byggðar hefur verið hér á landi frá fámenni til þéttbýlis, hverjar helstu hugmyndir hafa verið í skipulagsmálum hér, en segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Seinustu árin hefur verið mikil umræða um skipulagsmál meðal fagmanna á Norðurlöndunum. Í framhaldi af þessari umræðu hafa komið fram breyttar áherslur í meðferð skipulagsmála, m.a. í nýjum skipulagslögum. Aðalvaxtarstefnan í þjóðfélagsþróun á Norðurlöndunum seinustu tvo áratugina hvað varðar stjórnun og skipulag hefur verið frá miðstýringu til valddreifingar, sem leitt hefur til einföldunar á lögum og stjórnkerfi.``
    Hér er sem sagt verið að fara í öfuga átt. Hér er verið að fara frá valddreifingu til miðstýringar, því, eins og ég segi, með því að slíta skipulagsmálin úr tengslum við sveitarstjórnarmálin almennt, fela þau sérstöku ráðuneyti, er alveg ljóst að hugmyndafræðin á bak við er strangari tök ríkisins á skipulagsmálum sveitarfélaganna, meira eftirlit og minna sjálfstæði sveitarfélaganna til að ráða sínum eigin málum.
    Í tíunda lagi segir í ályktun landsfundar Sjálfstfl.: ,,Fræðsla um skipulagsmál, umhverfismótun og byggingarlist verði efld í skólum landsins og fjölmiðlum og meira tillit verði tekið til séríslenskra aðstæðna en gætt hefur í þessum málum.``
    Í ellefta lagi segir: ,,Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á varðveislu fornminja og menningarverðmæta og vill vernda þau eldri mannvirki sem öðrum fremur eru til marks um sögu og sérkenni hvers byggðarlags.``
    Ég hef hér rakið, herra forseti, stefnu Sjálfstfl. í umhverfismálum og ég hef talið nauðsynlegt að gera það, bæði vegna þess að hér er um mjög nýlega stefnumótun að ræða eftir mjög vandaðan undirbúning á landsfundi Sjálfstfl. og einnig til þess að undirstrika að ágreiningurinn í þessu máli er ekki um mikilvægi umhverfismála eða umhverfisverndar. Ég hygg að um það sé ekki ágreiningur hér á hv. Alþingi að hér er um einn mikilvægasta málaflokk að ræða sem við

þurfum um að fjalla og þýðing umhverfisverndar fer vaxandi frá ári til árs. Ágreiningurinn er hins vegar um það hvort við eigum nú að fara að fylgja tískustefnum sem hafa verið uppi í okkar nágrannalöndum, en menn eru farnir að hafa miklar efasemdir um og hafa ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt í upphafi.
    Stofnun umhverfismálaráðuneyta hafa verið mjög í tísku, sérstaklega á fyrri hluta þessa áratugs, jafnvel að einhverju leyti á þeim síðasta. Þetta hefur verið gert á Norðurlöndum, þetta hefur verið gert í Þýskalandi og víðar og með þeim afleiðingum að nú eru komnar upp miklar efasemdir um gagnsemi slíkra ráðuneyta. Þessi ráðuneyti hafa reynst mikil skriffinnskubákn. Hv. 2. þm. Norðurl. v. rakti það mjög ítarlega í sinni ræðu hér áðan hversu þau hafa dregið til sín þúsundir starfsmanna. Þetta er langstærsta ráðuneytið í Danmörku og þetta eru orðin mikil skrifræðisbákn.
    Gagnrýnin sem nú er farið að bera mjög mikið á og er orðin allhávær á Norðurlöndunum er að ráðuneyti þessi hafa einangrað umhverfismálin sem málaflokk. Mörg önnur ráðuneyti, eins og t.d. þau ráðuneyti sem fjalla um atvinnumál í viðkomandi löndum, líta orðið á umhverfismálaráðuneytin sem andstæðing sinn en ekki sem samstarfsaðila. Jafnframt verður æ meira vart tilhneigingar til þess að varpa allri ábyrgð af umhverfismálunum yfir á umhverfismálaráðuneytið. Þetta er þeirra mál en ekki okkar, er hugsunarháttur sem er kominn upp og orðinn allsráðandi í fjöldamörgum ráðuneytum á Norðurlöndum og mörgum stofnunum sem fjalla um mál sem snerta umhverfi mannsins. Þetta álit mitt byggi ég m.a. á samtölum við marga stjórnmálmenn á Norðurlöndum sem segja að þetta hafi verið rangt skref sem stigið var á sínum tíma. Þeir sjá eftir því að þetta skref hafi verið stigið og vara við því að við Íslendingar förum að apa þetta eftir. Mér er hins vegar alveg ljóst að þegar rætt er við starfsmenn þessara ráðuneyta og þeir eru kallaðir til ráðlegginga um þennan málaflokk, hvort sem það er að halda fyrirlestra hér á Íslandi eða þeir spurðir, einhverjir af þessum þúsundum sem hafa orðið atvinnu af því að sinna þessum störfum í þessum ráðuneytum og hafa lifað góðu lífi á því, ég er alveg viss um að ef þeir eru spurðir, þá er þetta hið besta mál og þeir hvetja til stofnunar slíkra ráðuneyta sem víðast. En ef menn tala við stjórnmálamenn, þá sem reyna að vega og meta árangurinn af þessum störfum utan frá, þá eru efasemdirnar mjög sterkar. Hefur umhverfismálaráðuneyti í Danmörku t.d. skilað árangri? Hefur þetta fjölmennasta ráðuneyti í Danmörku komið í veg fyrir mengun þar? Maður hlýtur að spyrja sjálfan sig af því að Danmörk er það Norðurlandanna þar sem mengun er hvað mest og umhverfisspjöllin og
umhverfisvandamálin hvað mest. Það er alveg ljóst að þetta einangraða umhverfismálaráðuneyti hefur á engan hátt getað komið í veg fyrir mengun og maður hlýtur að spyrja sjálfan sig: Hefði ekki náðst betri árangur

þar með annars konar stjórnunaraðgerð?
    Hugmyndir um eitt umhverfismálaráðuneyti byggir á miðstýringarhugmyndum og miðstýringarhugmyndir hafa alltaf reynst illa í framkvæmd. Ég hygg að það sé miklu farsælla í þessum málaflokki eins og öðrum að dreifa ábyrgðinni og mér sýnist að í þessum efnum ætli íslenskir vinstri menn nú að verða enn kaþólskari en páfinn.
    Brundtland-skýrslan hefur komið til umræðu hér í þessari umræðu og ýmsir rætt um hana. Mér skilst nú reyndar á hæstv. ráðherra Hagstofu að hún hafi einungis selst hér í þremur eintökum. Ef svo er þá er ég svo heppinn að hafa eitt þeirra hér í höndunum. Þessi skýrsla heitir: ,,Our Common Future, the World Commission on Environment and Development``. Ýmsir hafa vitnað í þessa skýrslu hér. Skýrslan er hið merkasta plagg. Ég vil t.d. geta þess að ég hafði ánægju af því að lesa kaflann um hafið sem sameiginlega auðlind því að þar er sérstaklega rætt um hafréttarsáttmálann, efni hans rakið og hvatt til þess að sem flest ríki staðfesti þennan sáttmála. Á það hefur skort að ýmis ríki, ekki síst ýmis voldugri iðnríki vilji staðfesta þennan sáttmála, sérstaklega vegna deilna um auðæfi á hafsbotni. En ég verð auðvitað að viðurkenna að ég hef ekki lesið þessa skýrslu frá orði til orðs, enda er hún rúmlega 360 blaðsíður, þéttskrifuð með tiltölulega smáu letri. En það sem ég hef þó lesið í þessari bók er ein samfelld aðvörun gegn miðstýringu í þessum málaflokki, gegn tilhneigingu undanfarinna ára til að loka þennan málaflokk inni í ákveðnum stofnunum. Það er rakið víða í þessari skýrslu að umhverfismálin séu svo víðfeðmur málaflokkur en jafnframt svo samofinn og samþættur fjöldamörgum málaflokkum í þjóðfélaginu að þar verði ekki greint í sundur. Ég bendi t.d. sérstaklega á lokakafla Brundtland-skýrslunnar. Fyrirsögnin er í lauslegri þýðingu: ,,Í átt til sameiginlegra aðgerða, tillögur um breytingar á stofnunum og löggjöf.`` Þetta er XII. kafli skýrslunnar.
    Í þessum kafla er það ítarlega rakið, eins og ég gat um áðan, að viðfangsefni á sviði umhverfismála séu svo samofin og samþætt öðrum málaflokkum að meðhöndlun þessara málaflokka í dag, bæði hjá alþjóðastofnunum og hjá ráðuneytum í einstökum ríkjum sé í algeru ósamræmi við þá staðreynd hversu þessi málaflokkur er samofinn öðrum málum. Það skín út úr hverri einustu blaðsíðu í þessari skýrslu að ekki megi rífa stjórnun umhverfismála úr tengslum við aðra málaflokka og það er rakið í ítarlegu máli hvernig þetta hefur gerst, bæði hjá alþjóðastofnunum og í ráðuneytum, sjálfstæðum umhverfismálaráðuneytum og það er alls staðar varað við þessu.
    Hvað er verið að gera hér á Íslandi? Við erum að taka upp gamla tískustefnu. Með því að samþykkja þetta frv. er verið að stíga langt skref til baka aftur í tímann í átt til fyrirkomulags sem aðrar þjóðir eru nú hvattar til að losa sig við í þessari Brundtland-skýrslu sem ég hef verið að vitna til. Og það er sárgrætilegt til þess að vita að ástæðan fyrir þessu sé, eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði í sinni ræðu, pólitísk

nauðsyn, í fyrsta lagi vegna þess að tryggja þurfi samskipti við útlönd, eins og hann orðaði það og í öðru lagi vegna samkomulags sem varð þegar síðari ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð. Það er hin pólitíska nauðsyn sem rekur til þess að við erum nú að ræða þetta frv. um nýtt umhverfismálaráðneyti. Það er ekki vegna umhyggju fyrir þessum málaflokki sjálfum. Það er verið að grípa gamla tískustefnu sem allir vara nú við að sé sett í framkvæmd, grípa þessa gömlu stefnu í skammtímahagsmunapoti einstakra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka hér á Íslandi. Þess vegna hlýtur Alþingi að taka þetta mál til mjög rækilegrar meðferðar, bæði hér í þessari umræðu og svo í þeirri nefnd sem kemur til með að fjalla um þetta mál því það er alveg ljóst að stjórn þessa málaflokks verður slæm ef þetta frv. verður að lögum. Þá er verið að stíga skref til baka. Við erum að láta eins og vind um eyrun þjóta aðvaranir alþjóðlegra stofnana um það hvernig eigi að stýra þessum málaflokki.