Eyjólfur Konráð Jónsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Þingmaðurinn sem stendur hér bað um orðið um þingsköp og ætlar að tala um þingsköp. Það stendur nefnilega í þingskapalögum og þar með landslögum að utanrrh. eða ríkisstjórnum beri að hafa samráð við utanrmn. um utanríkismál almennt, hvað þá um stærstu málin. Ef það á að skilja við utanrmn. á þann hátt sem gert var í fyrrinótt, allt í uppnámi, með þeirri yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. hér var að gera, þá er það hvorki meira né minna en lögbrot, vísvitandi lögbrot. Utanrmn. ber að koma saman nú þegar og hafa allan þann tíma sem nauðsynlegur er til að ræða málið í botn.