Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki taka hér langan tíma ef hv. þm. eru óþolinmóðir. Í þessum umræðum hefur komið fram að á landsfundi Alþb. var gerð ítarleg samþykkt um málefni Evrópu og hagsmuni Íslands. Í þeirri ályktun er lögð rík áhersla á það að gæta þurfi þess mjög rækilega í samskiptum Íslands við Evrópubandalagið að hagsmunir Íslendinga séu tryggðir og að forræði okkar yfir auðlindum og atvinnulífi sé virt í hvívetna. Í þessari samþykkt landsfundar Alþb. er einnig vakin rækileg athygli á því að á næstu mánuðum þurfi að fara fram í okkar landi mjög ítarlegar umræður um allt þetta mál. Ég held að við getum orðið sammála um það að við erum hér að fjalla um eitt stærsta mál sem Íslendingar þurfa að fást við á næstu missirum og árum og það er mjög mikilvægt að þjóðin öll, ekki bara þingið, embættismenn eða ríkisstjórnin heldur þjóðin öll, fái mjög ítarlegar upplýsingar um eðli þessa máls.
    Ég er þeirrar skoðunar, og hún kemur einnig fram í samþykkt landsfundar Alþb., að meðal Íslendinga ríki mjög breið samstaða um það að við viljum að íslenska þjóðin hafi sjálf forræði yfir auðlindum okkar, bæði auðlindum hafs og fallvatna, og að atvinnulíf landsmanna sé þannig búið að þjóðin hafi fullt forræði á þróun þess og stjórn. Okkar þjóð barðist í heila öld fyrir efnahagslegu og stjórnarfarslegu sjálfstæði og það er eitt af því mikilvægasta sem hún hefur áunnið að þetta sjálfstæði verði ekki aðeins eign okkar, þeirra kynslóða sem hér hafa búið síðan lýðveldið var stofnað, heldur einnig þeirra sem byggja þetta land á eftir okkur.
    Í ályktun landsfundar Alþb. er einnig vikið rækilega að því að sérstaklega þurfi að skoða á hvern hátt breytingar á fjármagnshreyfingum milli Íslands og annarra landa kunna að hafa áhrif á forræði okkar yfir atvinnulífi og efnahagsmálum, á möguleika okkar til þess að reka sjálfstæða efnahagsstefnu og hafa eignaleg og stjórnunarleg tök á atvinnuvegum þjóðarinnar. Það er einnig vakin rækileg athygli á því að óheftar fjármagnshreyfingar geti haft það í för með sér að fjármagn streymi frá ýmsum jaðarsvæðum, og Ísland er í reynd jaðarsvæði innan Evrópu, og slík þróun geti haft mjög neikvæð áhrif á möguleika okkar þjóðar í atvinnu- og efnahagsmálum í framtíðinni.
    Á undanförnum mánuðum hafa farið fram könnunarviðræður milli EFTA og Evrópubandalagsins. Það er nokkuð langt í land með að ljóst sé hvað kann að taka við að þessum könnunarviðræðum loknum hvað einstaka efnisþætti snertir. Þar er margt enn mjög óljóst og það á eftir að ræða fjölmörg efnisatriði. Sú spurning sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir nú er hvort við eigum að halda áfram að taka þátt í þessum viðræðum milli EFTA og Evrópubandalagsins jafnhliða því sem við metum á hverju stigi þess máls hvort áframhald þess þjóni hagsmunum Íslendinga og þeim fyrirvörum og skilyrðum sem við teljum nauðsynlegt að sett séu. Þessir fyrirvarar og skilyrði snerta fyrst og fremst

efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar, þátttöku og fjárfestingu útlendinga í íslensku efnahags- og atvinnulífi.
    Þingflokkur Alþb. gerði samþykkt í morgun sem ég ætla að lesa hér upp, með leyfi forseta:
    ,,Þingflokkur Alþb. samþykkir fyrir sitt leyti að Ísland verði áfram þátttakandi í viðræðum EFTA og EB, en áður en til þátttöku í beinum og formlegum samningaviðræðum komi verði málið tekið til sérstakrar umfjöllunar og afgreiðslu í ríkisstjórn og stjórnarflokkum. Þingflokkurinn ítrekar þá stefnu Alþb. varðandi samninga EFTA og Efnahagsbandalagsins að fullur fyrirvari verði hafður um þátttöku og fjárfestingu útlendinga í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Alþb. hefur því almennan fyrirvara við málið á þessu stigi.
    Þingflokkurinn telur enn fremur brýnt að tryggt verði að stjórnarflokkarnir eigi beinan aðgang að meðferð málsins á hverju stigi á næstu mánuðum. Þingflokkurinn telur óhjákvæmilegt að utanrrh. geri viðmælendum sínum grein fyrir fyrirvörum ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna varðandi fjárfestingu útlendinga og þátttöku þeirra í íslensku atvinnulífi. Þingflokkurinn leggur áherslu á að áfram verði haldið tvíhliða viðræðum við forustumenn einstakra ríkja Evrópubandalagsins, sérstaklega um fríverslun með sjávarafurðir.``
    Þetta, virðulegur forseti, er sú samþykkt sem þingflokkur Alþb. gerði í morgun. Á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var í hádeginu samþykktu ráðherrar Alþb. þá bókun sem forsrh. kynnti hér áðan með sérstakri tilvísun til þeirrar samþykktar sem þingflokkurinn gerði í morgun og kynnt var rækilega á ríkisstjórnarfundinum.
    Ég tel mikilvægt að það komi hér fram að Íslendingar hafa á undanförnum mánuðum sett fram margvíslega fyrirvara og þeir hafa birst með margvíslegum hætti. Þeir hafa komið fram í þeim könnunarviðræðum sem fram hafa farið. Þeir hafa komið fram í stefnuræðu forsrh. Íslands, á leiðtogafundi EFTA-ríkjanna í Osló og þeir hafa komið fram af hálfu stjórnmálaflokkanna á Íslandi, bæði
flokkanna innan ríkisstjórnar og utan. Það er þess vegna viðmælendum Íslendinga fyllilega ljóst að hér í landinu eru uppi margvíslegar efasemdir og fyrirvarar um fjölmörg þau efnisatriði sem eftir er að fjalla um í þessum viðræðum.
    Það er einnig ljóst að samstarf EFTA-ríkjanna er með þeim hætti að sérhvert EFTA-ríkjanna getur hvenær sem það óskar dregið sig út úr EFTA-ferlinu og viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins ef það ríki telur að hagsmunum sínum sé betur þjónað með öðrum hætti, hvort sem það eru tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið eða með öðrum leiðum. Það er engin skuldbinding í því af hálfu Íslands þó að við höldum áfram um sinn í þessu samstarfi að halda því áfram til loka. Við getum líkt og hver önnur EFTA-þjóð hvenær sem við teljum hagsmunum Íslands betur borgið með þeim hætti ákveðið að fara

aðrar leiðir.
    Það er einnig nauðsynlegt að það komi hér skýrt fram að samstarf EFTA-ríkjanna er með þeim hætti að hvert og eitt þeirra hefur neitunarvald um þau sameiginlegu efnisatriði sem sett verða fram af hálfu EFTA í þessum viðræðum. Þar með hafa Íslendingar algjörlega í sinni hendi hvað þeir kjósa að sett verði fram sameiginlega í EFTA-viðræðunum og hvað þeir kjósa að setja fram með öðrum hætti sjálfir í öðrum samskiptum við einstök ríki Evrópubandalagsins eða Evrópubandalagið sjálft.
    Með því að halda áfram þátttöku í hinu svonefnda EFTA/Evrópubandalagsferli eru Íslendingar því ekki á neinn hátt að afsala sér forræði yfir málinu. Við höfum alla möguleika til þess að taka nýjar ákvarðanir á hverju stigi þess fyrir sig. Það er þess vegna lykilatriði í bókun ríkisstjórnarinnar að á öllum stigum málsins verði haft náið samráð innan ríkisstjórnarinnar og við utanrmn. Alþingis um hvert skref fyrir sig.
    Ég tel einnig mikilvægt að utanrrh. hefur ákveðið að beita sér fyrir þeim vinnubrögðum á vettvangi ríkisstjórnarinnar að í þeim vinnuhópum sem starfa með samningamönnum og viðræðuaðilum Íslands verði fulltrúar fjölmargra ráðuneyta sem taki þátt í því að móta stefnuna af Íslands hálfu þannig að nánast öll ráðuneyti Stjórnarráðsins munu taka virkan þátt í mótun málsins á hverju stigi. Þar með er ljóst að stjórnarflokkarnir allir sem og ráðherrar ríkisstjórnarinnar í heild hafa margvísleg tækifæri til þess að móta afstöðu Íslands og áherslur á öllum stigum þessa máls.
    Virðulegi forseti. Ég taldi nauðsynlegt að kynna þessa samþykkt þingflokks Alþb. hér og lýsa í stuttu máli þeim megináherslum sem við teljum mikilvægar í málinu á þessu stigi. Ég hefði kosið að geta haft lengri tíma til þess að fjalla um málið í heild sinni og á breiðari grundvelli, en vegna tilmæla sem hér komu fram áðan vil ég ekki lengja umræðuna nú en áskil mér rétt til þess að koma inn í hana síðar.