Guðmundur H. Garðarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er greinilegt að það nægir ekki að hæstv. ríkisstjórn --- hæstv. forsrh. er nú að ganga úr salnum. Ég óska eftir að hann verði viðstaddur þegar ég tala núna.
    Það nægir greinilega ekki hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn að reyna að brjóta niður þingræði á Íslandi og meina þingmönnum að komast að niðurstöðu um mál sem varðar framtíðarörlög þessarar þjóðar í gjörbreyttum heimi heldur á einnig að brjóta á hv. þm. af hæstv. forseta og meina þeim að heyra niðurstöður af fundi utanrmn. Þær niðurstöður hljóta að hafa áhrif á umræður hér á eftir. Ég er einn af þeim sem eiga eftir að tala hér í þessu máli og ég óska eindregið eftir að fundi verði frestað þar til utanrmn. hefur skilað sinni niðurstöðu.