Birgir Ísl. Gunnarsson (um þingsköp):
    Virðulegi forseti. Hér er í rauninni að gerast alveg einstakur atburður. Ég hef setið á þingi síðan 1979. Ég minnist þess ekki að nokkur þingforseti hafi ætlað að beita slíku ofbeldi og núv. virðulegi forseti hyggst beita þingið og þá einkum stjórnarandstöðuna. Mér þykir leitt að bera fram þessar ásakanir við mína gömlu, góðu skólasystur, virðulegan hæstv. forseta, en ég hlýt að gera það vegna þess að einstakur atburður er að gerast.
    Við skulum aðeins athuga hver er aðdragandi þessarar beiðni. Hér hafa farið fram ítarlegar og langar umræður um þennan mikilvæga samning sem fyrir dyrum stendur. Utanrrh. er á leið til samningafundar með EFTA-ráðherrum til þess að ræða við ráðherra Evrópubandalagsins um samning milli þessara aðila og Ísland hyggst taka þátt í þessum samningi. Það hefur komið fram í þessum umræðum að utanrrh. hefur verið umboðslaus. Það hefur enginn getað upplýst, svo glöggt sé, hvert sé umboð hæstv. ráðherra í þessum viðræðum, um hvað hann ætli að semja. Hann hefur sjálfur lagt fram ítarlega skýrslu um gang þessara viðræðna og um stöðu viðræðnanna sem fram hafa farið innan EFTA milli ráðherra EFTA-ríkjanna. Hann hefur dregið þar saman í 15 punkta sem komu fram í niðurstöðunni í hans ræðu hér, hans frumræðu. Það kom strax í ljós þegar þessi umræða hélt áfram að skoðanir innan ríkisstjórnarinnar og skoðanir innan stjórnarflokkanna voru mjög skiptar um þetta mál. Við höfum krafist þess að ráðherrann hefði umboð frá Alþingi til að fara í þessar viðræður og að Alþingi fylgi þar með fordæmi annarra þjóðþinga eins og t.d. þjóðþings Finnlands sem hefur gefið sínum utanrrh. mjög skýrt og ákveðið umboð í þessum viðræðum.
    Það hefur komið í ljós að um þetta er bullandi ágreiningur innan stjórnarflokkanna. Þegar þetta kom fram varð niðurstaðan sú að það var fallist á það að hv. utanrmn. kæmi til fundar til þess að vera til samráðs við utanrrh. og til þess að taka þátt í því að móta umboð utanrrh. í þessum umræðum. Því starfi er ekki lokið. Þrátt fyrir neitun hæstv. forseta í upphafi fór hæstv. forsrh. fram á það að utanrmn. yrði kölluð saman. Og utanrmn. vinnur að því nú að freista þess að ná samstöðu um orðalag þess umboðs sem hæstv. utanrrh. á að fara með í þessar viðræður. Ég skal ekkert um það segja hvort það tekst eða ekki. En á sama tíma og utanrmn. situr að þessu verki, á sama tíma og hæstv. utanrrh., frummælandinn í þessu máli, skýrslugjafinn sem verið er að fjalla um í þessu máli, situr á þessum fundi, á sama tíma og flestir utanríkismálanefndarmenn, sem jafnframt eru meðlimir í svokallaðri Evrópunefnd Alþingis og því þeir sérfræðingar sem við höfum valið úr okkar hópi til þess að fjalla um þetta mál, sitja á fundi, á að halda áfram þessari umræðu, efnisumræðu um málið. Hér er um slíkt ofbeldi að ræða af hálfu hæstv. forseta að ætla að knýja fram þessar umræður að það er algerlega dæmalaust. Það er rangt hjá forseta að vitna

í að það tíðkist stundum að fram fari umræður hér á Alþingi meðan nefndafundir standa yfir. Það er að því leyti rétt að stjórnarandstaðan hefur einstaka sinnum hliðrað til og fallist á að haldnir séu nefndarfundir um önnur mál en eru á dagskrá. En ég fullyrði að síðan ég kom á þing á það sér engin fordæmi að haldinn sé fundur hér um jafnmikilvæg mál meðan viðkomandi nefnd situr að störfum og er að reyna að ná samkomulagi í málinu. Þess vegna skora ég á hæstv. forseta að skoða nú hug sinn og fallast á það að efnisumræðum um þetta mál verði frestað þar til utanrmn. hefur lokið sínum störfum.