Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Það er ekki að ósekju að vantraust er flutt á ríkisstjórnina. Það er eitt af því fáa sem ríkisstjórnin stendur undir að henni sé ekki treystandi. Við heyrðum hvernig utanrrh. talaði með skætingi um samningana við Evrópubandalagið í kvöldfréttum, ráðherrann sem ekki skeytir um umboð frá Alþingi. Framkoma hans vekur hvorki traust hér á landi né erlendis. Þegar ég horfði á hann í sjónvarpinu fann ég að það er glæfraspil að hafa samningsumboðið í hans höndum.
    En það eru fleiri en þingmenn stjórnarandstöðunnar sem ekki treysta þessari ríkisstjórn. Árni Gunnarsson er í þeim hópi. Hann skrifaði í Morgunblaðið 20. ágúst: ,,Núverandi ríkisstjórn á þann einan rétt til áframhaldandi setu að henni takist að lækka verð á helstu nauðþurftum almennings, matarverðið, og að henni reynist unnt að lækka verulega fjármagnskostnað frá því sem nú er. Að öðrum kosti geta engir stjórnmálamenn með snefil af samvisku stutt hana.``
    Ekki hefur matarverðið lækkað síðan þetta var skrifað, ekki fjármagnskostnaðurinn heldur. Eftir er að sjá hvort þessi þingmaður hefur þann snefil af samvisku sem dugir til þess að hann segi já við þeirri vantrauststillögu sem hér liggur fyrir.
    Í umræðum í Ed. sl. þriðjudag sagði Karvel Pálmason: ,,Mín afstaða hefur legið fyrir gagnvart þessari hæstv. ríkisstjórn. Ég gerði grein fyrir því á flokksstjórnarfundi Alþfl. að ég mundi taka afstöðu til málefnanna hverju sinni eins og þau lægju fyrir þannig að ef menn vilja geta þeir haldið áfram að telja mig utan eða innan stjórnarliðsins.`` Þingmaðurinn lýsir þannig yfir að hann hafi þvegið hendur sínar á flokksstjórnarfundi Alþfl. En hvað gerir hann í kvöld? Segir hann já eða nei við þeirri vantrauststillögu sem hér liggur fyrir?
    Í Tímanum í dag eru þessi ummæli höfð eftir Hjörleifi Guttormssyni um könnunarviðræður EFTA og Evrópubandalagsins: ,,Ég vil ekki hleypa utanrrh. til þessara sameiginlegu samningaviðræðna og tel að það sé í andstöðu við íslenska hagsmuni.`` Nú er för utanrrh. ráðin. Skyldi það vera Hjörleifi Guttormssyni nóg til að greiða atkvæði með vantrausti á ríkisstjórn að hann telur að hún vinni í andstöðu við íslenska hagsmuni á erlendum vettvangi? Við bíðum og sjáum og heyrum hvað þingmaðurinn segir þegar vantrauststillagan kemur til atkvæða.
    ,,Hið rauðgula hnoða sem rennur á undan mér fylgir engri átt.`` Svo glögg er lýsing Steins Steinarrs á þeim sem fer villur vegar. Hið rauðgula hnoða minnir á kratarós sem er farin að fölna og svo mikið getur lánleysið verið að ekki sé lengur hægt að tala um sjálfstæðan vilja. Ég held að engum manni detti lengur í hug að segja að þessi ríkisstjórn hafi markmið, að hún sjái fyrir sér nánustu framtíð eins og hún vill hafa hana, hvað þá að hún sjái svo langt fram fyrir íslenska þjóð að hún geti orðið leiðsögumaður eða leiðtogi annarra.
    Rifjum upp: Hvernig hefur ganga þessarar

ríkisstjórnar verið í virðisaukaskattsmálinu? Hefur hún komið hreint fram, lagt spilin á borðið? Hefur hún gefið fyrirtækjunum í landinu kost á að undirbúa sig fyrir kerfisbreytinguna um áramót? Hvað vill forsrh. og hvað vill Stefán Valgeirsson? Vilja þeir hafa skattþrepin eitt eða tvö, í bili eða til langframa? Hvað vildu þeir í gær? Hvað í fyrra? Hvað á morgun? Númer hvað er samkomulagið sem þeir gerðu í ríkisstjórninni í dag og hvað heldur það lengi? Geng ég og geng, segir forsrh., geng beint, heyrist fjmrh. muldra, geng í boga, Jón Baldvin, geng í hring, bætir Júlíus Sólnes við og eru allir jafnrammvilltir og sauðamaðurinn í kvæði Jóhannesar úr Kötlum sem varð úti. Þess vegna var það að stjórnarandstaðan hlaut að leggja fram þessa vantrauststillögu.
    Staðreyndirnar eru þessar segi ég eins og formaður Alþfl.:
    1. Sumarið 1988 kaus Halldór Ásgrímsson að halla sér að krötum fremur en að standa með okkur sjálfstæðismönnum og leiðrétta rekstrargrundvöll sjávarútvegsins. Síðan hafa lífskjör hrapað, atvinnuleysi farið vaxandi, byggðaröskun blasir við í mörgum héruðum, vegaframkvæmdir eru skornar niður við trog sem tekur milljarð, loðdýrabændur hafðir að leiksoppi, hagsmunir fiskeldis sitja á hakanum.
    2. Utanrrh. er nú á förum að taka þátt í samningaviðræðum EFTA og
Efnahagsbandalagsins. Þessar viðræður geta orðið okkur Íslendingum örlagaríkar. Okkur ríður á að sjávarútvegshagsmunum okkar verði borgið. Að slíkum samningum verður að ganga svo fljótt sem auðið er. Þess vegna er nauðsynlegt að tvíhliða viðræður verði teknar upp með formlegum hætti þegar í stað milli okkar og Evrópubandalagsins um niðurfellingu á tollum af fiski. Ég efaðist aldrei um að Halldór Ásgrímsson mundi standa með okkur sjálfstæðismönnum í þessu máli. En hann kýs heldur að vera með krötum og forsrh. sem sagði hér í þinginu í gær að ekki gæti orðið af slíkum formlegum tvíhliða viðræðum. Forsrh. gaf sér niðurstöðuna fyrir fram þótt hann vissi að hún skaðaði íslenska hagsmuni. Það er með þessu hugarfari sem utanrrh. heldur
nú utan á vit Evrópubandalagsins.
    3. Við höfum verið að heyra uggvænleg tíðindi varðandi ástand fiskstofna. Við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir að ganga til þess verks að ákveða hvernig stjórn fiskveiða skuli háttað með það að markmiði að nýta fiskstofna til fulls, en forðast ofveiði. Sjútvrh. getur ekki gengið til þessa verks með okkur af því að hann metur það meir að vera í ríkisstjórn með krötum en sjá hagsmunum sjávarútvegsins borgið. Í ríkisstjórninni er hver höndin upp á móti annarri í þessu máli. Það er gengið beint, gengið í boga, gengið í hring en ekki gengið til verks.
    Skuggi hvílir yfir landinu. Forustumenn í verkalýðsfélögum og sveitarstjórnum hafa þungar áhyggjur af næstu mánuðum. Því er spáð að atvinnuleysi í janúar og febrúar taki til þúsunda. Þótt erlendur gjaldmiðill hafi á síðustu tveimur árum

hækkað fimmtungi meir en kaupgjald í landinu hefur sjútvrh. lýst yfir að ekkert svigrúm sé fyrir launahækkanir á næsta ári.
    Góðir Íslendingar. Framsóknarmenn hittust á miðstjórnarfundi í Reykjavík um helgina og ályktuðu að leita yrði nýrra leiða til hagvaxtar. En þeim varð hugsað til forustu sinnar og héldu vondaufir heim á leið sem von var. Þeim var svipað innanbrjósts eins og þér, hlustandi góður, þú veist af nálægð ríkisstjórnarinnar. ,,Þú horfir út í myrkrið og hvíslar: Hver ert þú? Og holur rómur svarar: Ekkert, ekkert.``