Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Því verður ekki neitað að vantrauststillaga þessi er lögð fram á mjög viðkvæmum tímum í utanríkismálum íslensku þjóðarinnar. Utanrrh. átti að halda utan í morgun til að ræða við forustumenn EFTA og EB um það gífurlega mikla starf sem hefur verið unnið upp á síðkastið og við höfum haft forustu um. Það er nokkuð einkennilegt að sjálfstæðismenn skuli þá hlaupa til og fá aðra stjórnarandstæðinga með sér. Er það gert til þess að koma í veg fyrir þessa skyldu utanrrh.? hlýtur þjóðin að spyrja.
    Að öðru leyti fagna ég því að tillagan er komin fram því að hún gefur tækifæri til að ræða um mjög mikilvæg þjóðmál og gera það nú frammi fyrir alþjóð en ekki hér á Alþingi þar sem sjálfstæðismenn hafa, þegar ekki er útvarpað eða sjónvarpað, hagað sér á þann máta að allir hljóta að undrast og sannarlega er þingræðinu til skammar. Ég veit ekki hvers vegna sjálfstæðismenn hafa hagað sér svo, hvort það er til þess að vekja athygli á formanni sínum sem hefur verið þar í forustu. Ég vil ráðleggja þeim að leita annarra leiða til þess. Það er síðan von mín að þegar tillaga þessi er felld, þá muni sjálfstæðismenn og aðrir stjórnarandstæðingar gera sér ljóst að ríkisstjórnin hefur traustan meiri hluta að baki.
    Ég hlustaði vandlega eftir því hvaða rök hv. þm. Þorsteinn Pálsson hefði fyrir vantrauststillögunni og fann heldur lítið. Hann ræddi umn glundroða sem, ef einhver hefur verið, má rekja til þess hvernig sjálfstæðismenn hafa hagað sér hér á þingi. Hann tók að sér sögulega skýringu og ég vil taka það fram enn einu sinni að við framsóknarmenn höfum svo sannarlega aldrei neitað því að við tókum þátt í ýmsu sem ekki hefur reynst vel. Við tókum þátt í því 1984 að hækka vexti um 2% og töldum að það yrði þar með hámark. Ég viðurkenni að þar með hleyptum við frjálshyggjudraugnum af stað og erum nú að vinna okkur út úr þeim vandræðum. Hann magnaðist um allan helming í stjórnartíð Þorsteins Pálssonar 1987--1988. Ég held að hv. þm. Þorsteinn Pálsson hefði átt að spara sér það að fara að segja þjóðinni hvað við ætlum að segja hér á eftir og hefði satt að segja átt að halda sig að hinu, að rökstyðja þessa furðulegu tillögu.
    Ekki skildi ég hvað hv. þm. Þorsteinn Pálsson átti við þegar hann hélt því fram að Halldór Ásgrímsson sjútvrh. hefði borið hagsmuni Alþfl. meira fyrir brjósti 1984 en þjóðarhag. Ég vona að þarna hafi verið um einhver mismæli að ræða, en þá var nú ræðan það að mestu leyti. Ég skil það þó svo að þeir hv. sjálfstæðismenn og aðrir sem flytja þessa tillögu séu þar með að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir meðferð hennar á málum eins og EFTA-EB málum og virðisaukaskatti. Hann nefndi að vísu lítillega efnahagsmál sem hv. sjálfstæðismenn hafa varla nefnt á þessu þingi.
    Í málefnum Evrópubandalagsins og EFTA-ríkjanna las ég hér á hinu háa Alþingi bókun 29. nóv. sl. sem

ég ætla að endurtaka hér, með leyfi forseta:
    ,,Utanríkisráðherra hefur gert ríkisstjórn og Alþingi grein fyrir sameiginlegum könnunarviðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið um víðtækara samstarf ríkjanna 18 sem aðilar eru að EFTA og EB. Utanrrh. mun áfram taka þátt í undirbúnings- og samningaviðræðum þessara aðila sem byggðar verða á sameiginlegum niðurstöðum könnunarviðræðna, þar með talið þeim fyrirvörum sem Íslendingar hafa sett fram. Jafnframt því sem fylgt verður eftir í þessum viðræðum sameiginlegri kröfu EFTA-ríkjanna um fríverslun með fiskafurðir innan hins væntanlega evrópska efnahagssvæðis verður haldið áfram tvíhliða viðræðum Íslendinga við Evrópubandalagið og aðildarríki þess með það að markmiði að tryggja tollfrjálsan aðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir að mörkuðum Evrópubandalagsins og stöðu íslensks sjávarútvegs að öðru leyti. Náið samráð verður haft innan ríkisstjórnarinnar og við utanríkismálanefnd Alþingis á öllum stigum málsins.``
    Ég hélt að þessi bókun ríkisstjórnarinnar og sú augljósa samstaða sem var um hana, mikill meiri hluti þingsins, mundi róa þá hv. sjálfstæðismenn en hún gerði það alls ekki. Þvert á móti ruku þeir til og fluttu vantrauststillöguna sem nú er hér til umræðu. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér jafnframt að lesa hér smávegis úr Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson um samninga við önnur ríki. Þar segir á bls. 373, með leyfi forseta:
    ,,Aðalreglan er sú að Alþingi veitir samþykki sitt til fulltingis ákveðins samnings sem þegar liggur fyrir. Ekki er þó útilokað að samþykki sé gefið fyrir fram, áður en endanlega hefur verið gengið frá samningi eða jafnvel áður en byrjað er á samningaviðræðum, en þá má samningurinn ekki ganga lengra en ályktun Alþingis. Slíka almenna heimild yrði að skýra þröngt.``
    Í þeim tillögum sem hv. sjálfstæðismenn hafa flutt í utanrmn. er samningsheimildin sannarlega ekki skýrð þröngt. Ég vil líka geta þess að þegar ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem ég veit að hv. sjálfstæðismenn eins og aðrir meta mjög mikils, ekki síst sem lögfræðing, þá var ekki leitað fyrir fram heimildar Alþingis.
    Könnunarviðræður við Evrópubandalagið byrjuðu 24. nóv. 1970 án þess að
leitað væri heimildar Alþingis og samningurinn var undirskrifaður 22. júlí 1972, að vísu þá með nýrri ríkisstjórn, en án þess að enn hefði verið leitað heimildar Alþingis. Samningurinn er ekki lagður fyrir Alþingi fyrr en í janúar 1973, þá undirritaður og leitað fulltingis Alþingis til að fullgilda samninginn. Svipaður háttur var á í viðræðunum við EFTA þótt þar gegni nokkuð öðru máli því að þar var ákveðið að leita aðildar.
    Ég trúi nú varla öðru en að við nánari athugun hljóti hv. sjálfstæðismenn að vera samþykkir þeim ágætu mönnum sem þannig hafa lýst meðferð utanríkismála, Bjarna Benediktssyni og Ólafi Jóhannessyni. Ég hef varað mjög við þeirri tillögu sem liggur fyrir utanrmn. og hef gert það af ýmsum

ástæðum. Ég þarf ekki að rekja nánar þann þátt tillögunnar sem gerir ráð fyrir því að samþykki Alþingis komi til til þess að þessum viðræðum verði haldið áfram. En ég vara ekki síður við síðari hluta tillögunnar sem gerir ráð fyrir því að leitað verði án tafar formlegra viðræðna við Evrópubandalagið um bókun 6 eða útvíkkun á bókun 6. Ég minni á að á leiðtogafundinum í mars í Osló lögðum við Íslendingar alla áherslu á að fá fríverslun með fisk og sögðum að við tækjum ekki þátt í sameiginlegum viðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið án þess að hafa fengið fríverslun með fisk innan Evrópubandalagsins. Það mál leystist ekki fyrr en á síðustu 5 mínútum þess fundar og við sögðum að þar með, þar sem EFTA-ríkin væru tilbúin að krefjast fullrar fríverslunar með fisk, ekki síst og raunar eingöngu fyrir okkar hönd, Norðmenn hafa þar nokkurra hagsmuna að gæta, þá mundum við taka þátt í þessum sameiginlegu viðræðum. Þetta eitt út af fyrir sig ætti að útiloka flesta drengskaparmenn frá því að snúa nú við blaðinu og segja: Þótt þeir hafi fallist á þessa kröfu okkar ætlum við samt að krefjast beinna formlegra viðræðna við Evrópubandalagið.
    Það eru líka fleiri ástæður til þess að þannig er ekki hægt að halda á málum. Evrópubandalagið hefur sjálft sagt, þeirra æðsti maður, Mr. Delors, sagði á fundi 17. jan. í ár að Evrópubandalagið kysi og legði eindregið til að viðræður yrðu sameiginlegar við EFTA-ríkin öll. Í raun hafnaði hann því að hafa viðræður við einstök EFTA-ríki. Hafnað var umsókn Austurríkis um sérstakar viðræður og Austurríki kom aftur inn og ákvað að semja með EFTA-ríkjunum. Þetta hefur einnig komið fram í þeim fjölmörgu viðræðum sem við Íslendingar höfum átt við ráðherra meðlimaríkja Evrópubandalagsins og við stjórnarmenn Evrópubandalagsins í Brussel. Og eigum við nú að segja við þessa menn eins og Mitterand og marga fleiri: Ja, þótt þið hafið ráðlagt okkur eindregið að leita sérsamninga ef við fáum ekki fríverslun með fisk í sameiginlegum samningum, leita þá sérsamninga eftir á, eigum við að segja við þá: Ja, samt sem áður ætlum við nú að krefjast sérstakra, formlegra viðræðna? Hættan er vitanlega sú að við yrðum eftir úti í kuldanum og EFTA-ríkin mundu að sjálfsögðu ekki leggja þá áherslu sem þau hafa nú heitið og hafa gert hingað til á fríverslun með fisk. Ég verð að segja það að mér þykir þessi málflutningur hjá sjálfstæðismönnum allur hinn furðulegasti og veit ég ekki af hvaða rótum hann er sprottinn.
    Auk þess má vitanlega búast við því að slík framganga yrði til þess að krafa EB-ríkjanna um fiskveiðiheimildir hér kæmi fram formlega og mjög hörð. Ég vil þá vekja athygli á því að svo sannarlega hafa viðræður farið fram um útvíkkun á bókun 6 þótt þær hafi ekki verið formlegar að því leyti til að um þær hafi verið formlega beðið af ríkisstjórninni. Sjútvrh. hefur nokkurn veginn stöðugt átt í viðræðum við fulltrúa Evrópubandalagsins um þessi mál og orðið afar mikið ágengt, eins og m.a. hefur komið fram í yfirlýsingu sjávarútvegsráðherra Vestur-Þjóðverja sem

kom hingað til lands. Utanrrh. hefur gert það sama, eins og fram hefur komið í yfirlýsingum, m.a. aðstoðarutanríkisráðherra Vestur-Þjóðverja sem kom hingað til lands. Og ég hef gert það í hvert sinn sem ég hef hitt fulltrúa þessara ríkja. Við höfum hlotið mikinn góðvilja og ég vil leyfa mér að segja að á þessari stundu hefur meira unnist með þessum viðræðum en nokkru sinni fyrr og vonandi skilar það sér.
    Hv. þm. minntist á virðisaukaskattinn. Hann flutti að vísu einhvern tíma frv. um 24% virðisaukaskatt og ekki með lægra þrepi á matvæli. En honum hefur snúist hugur, það er alveg rétt, og okkur framsóknarmönnum einnig, við nánari athugun. Hins vegar hefur öll vinna miðað við það sem lögin gera nú ráð fyrir. Ríkisstjórnin hefur talið sér skylt að hlusta á þær fjölmörgu áskoranir sem komið hafa frá ýmsum félagasamtökum hér í landinu og þess vegna hafa stjórnarflokkarnir tekið málið mjög ítarlega til meðferðar nú síðustu vikurnar. Ríkisstjórnin afgreiddi málið fyrir sína hönd í morgun og ég vil leyfa mér að fara yfir þá ákvörðun sem ríkisstjórnin tók.
    Ríkisstjórnin ákvað að virðisaukaskattur komi til framkvæmda um næstu áramót. Þá var ákveðið að skattþrepið verði 24,5% en lægra þrep eða ígildi lægra þreps 14% með endurgreiðslu á mikilvægustu matvælum. Þetta þýðir tekjutap fyrir ríkissjóð frá fjárlagafrv. upp á 1900 millj. kr. Til að mæta þessu var ákveðið að hækka tekjuskattinn um 2%. Það gæfi 2800 millj. kr. En jafnframt var ákveðið að verja helmingi af þeirri upphæð, þ.e. 1400 millj. kr., til að hækka skattleysismörkin og barnabætur og koma þá 1400 millj. kr.
til tekna hjá ríkissjóði. Þá var ákveðið að orkufyrirtæki greiði tekjuskatt eins og bankar og fyrirtæki í landinu almennt gera og er áætlað að það þýði 250 millj. kr. tekjur. Loks var ákveðið að sérstakur skattur verði settur á bifreiðar, þ.e. kílóaskattur sem gefi 350 millj. kr. Samtals eru þetta tekjur upp á 2 milljarða sem mæta fyllilega og 100 millj. betur því tekjutapi sem verður.
    Það er mjög margt sem mælir með þessari lausn. Í fyrsta lagi er 26% skattur of hár. Því verður varla neitað og m.a. mundi verða nauðsynlegt að lækka þann skatt þegar fram í dregur og samræma virðisaukaskatti í Evrópulöndunum. Með þessari breytingu á tekjuskattinum lækkar auk þess skattur þeirra hjóna sem eru með 150 þús. kr. eða minna á mánuði en hækkar hjá þeim sem eru með meira og þetta þýðir jöfnun. Þá er jafnframt ákveðið að á næsta ári verði kannað hvernig beita megi virðisaukaskattinum til þess að lækka enn framfærslukostnað. Annars vegar verður kannað að taka inn tveggja þrepa virðisaukaskatt þar sem matvæli fara í lægra þrepið. Athugað verður hvernig vega megi upp tekjutap ríkissjóðs vegna lægra þreps í virðisaukaskatti m.a. með því að draga úr ríkisútgjöldum. Hins vegar verði kannaður undanþágulaus virðisaukaskattur í einu þrepi þar sem skatthlutfallið verði mun lægra en það sem nú er gert

ráð fyrir. Í þessum könnunum verði við það miðað að nýtt skattkerfi bæti samkeppnisstöðu íslenskra atvinnuvega og tryggi bætt skattskil. Jafnframt verði höfð hliðsjón af áformum um samræmingu virðisaukaskatts við helstu viðskiptalönd okkar.
    Um þetta ríkir að sjálfsögðu full samstaða innan stjórnarflokkanna. Ég hef ekki tíma til að ræða hér ítarlega um efnahagsmálin þó það væri æskilegt. Furðulegt var að heyra hv. þm. lýsa og vísa í skýrslu Seðlabankans um hækkun vaxta. Í skýrslu Seðlabankans, sem liggur að sjálfsögðu á borði ríkisstjórnarinnar og hefur þar verið rædd, kemur fram að lækkun raunvaxta miðað við framfærsluvísitölu er um helmingur frá því sem hún var í stjórnartíð Þorsteins Pálssonar. Um helmingur, um u.þ.b. 6% samtals. Þetta er gífurlega mikil lækkun þó ég viðurkenni að ekki er búið að ná til baka öllu sem frjálshyggjan færði íslenskri þjóð í fjármagnskostnaði.
    Fjölmörg önnur batamerki eru. Þjóðhagsstofnun upplýsir að nú sé frystingin rekin með hagnaði upp á 5,2% og hefur þá afkoma frystingarinnar batnað um samtals 10,4%. Allt bendir til þess að vöruskiptaafgangur verði hvorki meiri né minni en um sex milljarðar kr. og er það gífurleg umbreyting frá því sem áður var. Það hlýtur öllum að vera ljóst.
    Ég sagði það áðan að ég hef ekki tíma til að rekja þessa þætti ítarlegar. En allt bendir til þess að við séum að ná botni í þeim erfiðleikum sem við höfum verið í og ný framfarasókn geti hafist á næsta ári. Það eru vissulega erfiðleikar og því miður óvæntir sem komið hafa í ljós t.d. nú þessa dagana. Ef loðnuveiðin bregst þá er það afar mikill biti fyrir íslenska þjóð að kyngja. Því verður vitanlega að mæta. Engu að síður bendir allt til þess að öruggt framfaraskeið geti hafist, ný framfarasókn fyrir þessa þjóð. Það bendir allt til þess að við séum að vinna okkur út úr hörmungum frjálshyggjunnar.