Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það þarf í raun ekki að koma neinum á óvart að nú hefur verið lögð fram tillaga um vantraust á ríkisstjórnina. Atburðir undanfarinna daga hafa sýnt svo ekki verður um villst að ríkisstjórnin ræður ekki við verkefni sitt. Allt er í uppnámi. Nú er öllum orðið ljóst, nema e.t.v. ríkisstjórninni, að fjárlagafrv. er ónothæft pappírsgagn, virðisaukaskatturinn er orðinn að marghöfða þurs, atvinnumálin hafa aldrei verið í meiri ólestri og málefni landsbyggðarinnar eru í ömurlegu horfi. Það eina sem ríkisstjórnin virðist nú vera sammála um er að gefast upp fyrir efnahagsvandanum innan lands og leita skjóls í svokölluðu evrópsku efnahagssvæði. Það er hið evrópska gull sem ríkisstjórnin mænir nú á, ekki síst formaður Alþfl.
    Í gær veitt ríkisstjórnin utanrrh. fullt og óskorað umboð til að taka upp samningaviðræður með öðrum EFTA-ríkjum við Evrópubandalagið. Í þeim viðræðum er Íslandi ætlað að tala einni röddu með þjóðum eins og Svíþjóð og Austurríki sem hafa allt annarra hagsmuna að gæta. Ríkisstjórnin ætlar því að leysa heimavandamálin sem hún er að gefast upp á að glíma við með því að gefa Ísland á vald stórrar efnahagsheildar þar sem fjármagnið eitt situr í fyrirrúmi. Á máli viðskrh. heitir það ,,að fá aukið aðhald að innlendri hagstjórn``. Ég vona að viðnámsþróttur þjóðarinnar sé ekki alveg þrotinn og hún rísi upp gegn þessum áformum.
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hve milliríkjaviðskipti eru okkur Íslendingum mikilvæg. Okkar þýðingarmestu markaðir eru í Evrópu og Bandaríkjunum. En markaðir í Austur-Evrópu, Asíu og e.t.v. víðar geta ekki síður orðið mikilvægir í framtíðinni. Þess vegna er þýðingarmikið fyrir okkur að binda okkur ekki við einn stórmarkað sérstaklega, ég tala nú ekki um ef múrarnir í kringum hann gera viðskipti við önnur svæði illmöguleg. Með aðild að slíkri heild er hætt við að möguleikar okkar til að hafa eðlileg viðskipti við aðrar þjóðir minnki verulega.
    Samningur Íslands við Evrópubandalagið sem gerður var árið 1972 var báðum aðilum hagstæður. Vegna breyttra aðstæðna, m.a. vegna stækkunar bandalagsins, er þessi samningur orðinn okkur mun óhagstæðari en þegar hann var gerður. Það er því eðlileg krafa af Íslands hálfu að áður en farið verður að ræða önnur atriði verði hagsmunir Íslands tryggðir að því er varðar útflutning á sjávarafurðum. Það er í fyllsta máta furðuleg og óábyrg niðurstaða af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafna að teknar verði upp slíkar viðræður. Ríkisstjórnin er í raun svo hrokafull í sinni afstöðu að hún leggur ekki eyru við því sem samtök aðila í sjávarútvegi hafa um málið að segja. Enn furðulegri er þessi afstaða í ljósi þess að EB hefur lýst því yfir að fríverslun með fisk komi ekki til greina sem almenn regla af þeirra hálfu. Því er eðlilegt að fara fram á útvíkkun á viðskiptasamningi okkar við bandalagið að því er varðar fisk og fiskafurðir. Í stað þess að taka á stærsta hagsmunamáli

þjóðarinnar hefur ríkisstjórnin markað þá stefnu að fara í flókna samninga með öðrum EFTA-ríkjum um allt aðra hluti og láta okkar mál mæta afgangi. Hverra hagsmuna telur ríkisstjórnin sig vera að gæta?
    Ef litið er aðeins nánar á fjórfrelsið svonefnda, sem er kjarninn í EFTA-viðræðunum, kemur fljótlega í ljós að málið er ekki eins einfalt og margir vilja vera láta. Hömlulausir fjármagnsflutningar til og frá Íslandi og erlend fjármálaþjónusta munu fljótt leiða til þess að erlendir aðilar nái tökum á íslensku atvinnulífi, einnig sjávarútvegi og fiskvinnslu. Auk þess er hætta á að þeir innlendu aðilar sem ráða yfir mestu fjármagni telji sér hag í því að flytja það úr landi fremur en ávaxta það og leggja í fyrirtæki hér á landi. Reynslan ætti að hafa kennt okkur eitthvað í þessum efnum. Nærtækt er að líta á hvernig straumar peninganna hafa legið hér innan lands þar sem verulegt fjármagn hefur flust frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.
    Hvernig halda menn að það gangi að koma í veg fyrir fjárstreymi frá Íslandi til Evrópu-stórríkisins, þar sem fjármagnið er alfa og omega? Á ég að trúa því að allir þingmenn stjórnarflokkanna styðji ríkisstjórnina í að spila þannig með hagsmuni þjóðarinnar? Ef við gerumst þátttakendur í evrópsku efnahagssvæði afhendum við um leið hluta af sjálfstæði okkar til yfirstjórnar úti í hinum stóra heimi. Það kemur raunar greinilega fram í þeirri skýrslu sem utanrrh. hefur lagt fyrir Alþingi. Þar birtist sá grundvöllur sem áframhaldandi viðræður byggja á með örfáum fyrirvörum. Og um leið er tekið fram að grundvallarhagsmunir okkar séu samningsatriði.
    Hvernig er hægt annað en vantreysta slíkri ríkisstjórn? Hvernig geta talsmenn stjórnarliðsins horft hér framan í myndavélarnar án þess að skammast sín?
    Þessi vegferð hófst í Osló á útmánuðum þar sem forsætisráðherrar EFTA-ríkjanna samþykktu að hefja undirbúningsviðræður um þátttöku í innri markaði Evrópubandalagsins. Íslenski forsrh. segist hafa gert fyrirvara í ræðu við upphaf fundarins. En utanrrh., sem fer með umboð ríkisstjórnarinnar í viðræðunum, svo og viðskrh. hafa margsinnis sagt að Ísland hafi skrifað undir
yfirlýsinguna í Osló án fyrirvara.
    Það eru líka, sem kunnugt er, alþýðuflokksráðherrarnir sem eru ákafastir í EFTA-EB trúboðinu og erfitt að sjá að þeir eigi sér nokkurt föðurland. Á undanförnum mánuðum höfum við orðið vitni að umbyltingu í Austur-Evrópu þar sem hið miðstýrða kerfi, sem kennt hefur verið við Marx og Lenín, hefur hrunið til grunna. En annað og ekki síður sögulegt hefur verið að gerast í Vestur-Evrópu, en með öðrum formerkjum. Þar á ég við allsherjar uppgjöf sósíaldemokratísins eins og það leggur sig fyrir fjármagninu og veldi fjölþjóðahringa. Þar er í uppsiglingu ekki síður miðstýrt kerfi en það sem mest hefur verið fordæmt í Austur-Evrópu en er nú sem betur fer að falli komið.
    Krataflokkurinn íslenski er hér að sjálfsögðu kaþólskari en páfinn, með Jónana í broddi fylkingar. Þessa kratastefnu hefur ríkisstjórnin nú skrifað upp á.

Það vekur óneitanlega nokkra furðu að ráðherrar Alþb. og framsóknar gera ekkert með samþykktir flokksstofnana sinna að því er varðar samningaviðræðurnar. Hvers vegna telja ráðherrar Alþb. t.d. líklegt að utanrrh. taki nokkurt minnsta mark á fyrirvörum sem ekki standa skýrt og skorinort í því umboði sem ríkisstjórnin hefur gefið honum? Þessi sami utanrrh. hefur farið létt með að horfa fram hjá fyrirvörum forsrh., sem enn einu sinni hefur látið plata sig.
    Í morgun sendi utanrrh. þau boð til EFTA-fundarins í Genf að stefna hans sjálfs væri stefna ríkisstjórnarinnar hvað sem fyrirvörum samstarfsflokkanna liði. Enda telur hann sig vera kominn með skothelt umboð.
    Ég vænti þess að þið, áhorfendur góðir, áttið ykkur á hvílíkt glæfraspil það er sem þessi marghöfða ríkisstjórn stendur fyrir í þessu örlagaríka máli.
    Kvennalistinn telur að leita beri beinna samninga um samskipti okkar við Evrópubandalagið. Nú þegar ætti að óska eftir samningum við bandalagið um útvíkkun á viðskiptasamningi með sjávarafurðir. Um það efni hefur verið lögð fram þáltill. hér á Alþingi í dag og standa að henni Kvennalistinn og Sjálfstfl. Um þennan afmarkaða þátt eru Kvennalistinn og Sjálfstfl. sammála. Að öðru leyti er regindjúp á milli afstöðu okkar og Sjálfstfl. til Evrópubandalagsins. Forusta Sjálfstfl. styður eindregið EFTA-leiðina og fjórfrelsið þó heyra megi efasemdir frá einstökum þingmönnum flokksins. Við kvennalistakonur teljum hins vegar fráleitt að tengjast Evrópubandalaginu á þeim forsendum sem felast í Oslóaryfirlýsingu forsætisráðherra EFTA-ríkjanna. Við viljum að Íslendingar gæti hagsmuna sinna með því að taka upp beinar viðræður við Evrópubandalagið um framtíðarsamskipti okkar og bandalagsins. Þar eigum við að halda fast og ákveðið á okkar málstað með tilliti til sérstöðu okkar sem fámennrar þjóðar. Við hljótum hins vegar að hafa áhyggjur af stöðu mála og spyrja okkur hvort virkilega sé ekkert viðnám að finna í hinu gróna flokkakerfi. Er að koma í ljós það sem margir, m.a. við kvennalistakonur, hafa haldið fram, að rödd almennings nái ekki til þeirra sem með völdin fara? Hlusta þeir hinir sömu bara á fjölmiðla og sjálfa sig? Hver er framtíðarsýn þeirra manna sem halda þannig á málum? Eru þeir búnir að gefa upp á bátinn að á Íslandi geti lifað sjálfstæð þjóð með eigin menningu og tungu?
    Það er nöturlegt til þess að vita að nú þegar enn er ekki hálf öld liðin frá því að lýðveldi var stofnað á Íslandi skuli valdamiklir menn í þjóðfélaginu mæla með því að Ísland gerist aðili að stórri heild, hinu svokallaða evrópska efnahagssvæði. Sumir, eins og nýbakaður varaformaður Sjálfstfl., ganga jafnvel svo langt að gera ráð fyrir að Ísland gangi í Evrópubandalagið með húð og hári.
    Góðir hlustendur. Á morgun er 1. desember, dagurinn þegar Íslendingar náðu langþráðu takmarki í sjálfstæðisbaráttu sinni árið 1918. Þá bjó hér bjartsýn en fátæk þjóð sem síðan hefur komist í álnir. Við

ættum að vera minnug þess að í frelsi felast gæði sem ekki spretta af efnislegum þáttum einum saman. Við skulum því ekki mæna á hinar stóru heildir þó þar sé veifað nokkrum prósentum í auknum hagvexti, minnug þess að ekki er allt gull sem glóir.
    Það er sama hvað flokkarnir heita sem standa að baki ríkisstjórnar sem metur gullkálfinn meira en arf og menningu Íslendinga. Slík ríkisstjórn verðskuldar ekki traust Alþingis. Þess vegna á Kvennalistinn hlut að þeirri tillögu sem hér er til umræðu í kvöld. Í raun eruð það þið, hlustendur góðir, sem eigið að kveða upp dóminn. Ef Alþingi ber ekki gæfu til þess að samþykkja tillöguna verður ykkar að fylgja henni eftir við fyrstu hentugleika. --- Góðar stundir.